þriðjudagur, 29. janúar 2008

Karabiska hafið

Í haugasjó.

Um borð í skemmtiferðaskipinu Liberty er nú hífandi rok og haugasjór. Strákarnir eru

heita pottinum, sleikja sólskinið drekkandi bjór.

Þetta er búið að vera mjög gaman

Skilaboð frá ferðafélögunum.

Halldór vill koma því á framfæri að hann sé ánægður með fararstjórann, “Bara fara eftir öllu sem hann segir þá gengur þetta allt upp ;)”

Sirrý er búin að vinna tan-keppnina langbrúnust.

Einn okkar hefur æft hér í ræktinni x2 á dag og ræktarpíurnar alveg heillaðar.

Garðar búinn að skrá sig í golf á Jamica.

Við ætlum öll að snorkla á cayman Island á morgunn, Bibba og Ásgeir búin að lofa að kenna okkur það sem þau kunna. Sama örlætið á þar á bæ. Þau fóru að snorkla með stingskötum í gær á Bahamas og það er búið að sýna video af þeim í skipssjónvarpinu í allan dag.

Við Ívar, Siggi og Inga erum búin að ákveða að fara í hlaup í Tampa 9. febrúar. Þar eru í boði 5km. og 15km. Þar ætlar Siggi að vinna Ívar.

Miamimaraþon og hálfmaraþon 27. Janúar 2008

Enn einu sinni sannaðist hið fornkveðna. Það er: “Maður á að njóta þess að æfa vel, komast í og vera í góðu formi, sleppa svo bara að hlaupa skollans maraþonið og vera bara áfram í góðu formi”. Þetta sagði Garðar fyrir mörgum árum. OOO hvað mér hefur oft verið hugsað til þessara orða.

Það voru allir vel upplagðir í þetta hlaup. Vaknað kl 3 um nóttina, veðrið eins og best var á kosið 18 stiga hiti, sólarlaust og andvari. Græað sig til, Hlaupasjúklingarnir og Bryndís Berg. Bryndís kom verulega á óvart, stóð sig eins og hetja ein í stuðningsliðinu, tók myndir til hægri og vinstri. Hún var búin að heyra söguna um Mundu og Kristínu þegar þær trommuðu um Parísarborg með myndavél, koníaksflöskuna góðu o.fl. lest úr lest- koma so. Sem sagt myndataka hvatning og koníaksvarðveisla til mikillar fyrirmyndar hjá Bryndísi, Ekki í eitt skipti tók ég eftir: “þetta eru nú meiri hlaupavitleysingarnir-svip” hjá henni;

Hlaupið sjálft var persónuleg upplifun hvers og eins, eins og alltaf. Mér fannst mjög gaman alveg upp í 30km. náði að halda réttu tempói, þurfti að hafa passlega fyrir því og mílurnar rúlluðu fram hjá. Við Ásgeir hittumst nokkrum sinnum á fyrstu mílunum en svo rúllalði ég ögn hraðar. Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir: að rúlla hvern kílómetrann á fætur öðrum og skilja ekkert hvað þeir eru stuttir, Njóta þess að fá klapp, klappa á móti, gefa five og taka dansspor með músikini (eins og Sirrý gerði) og ímynda sér að svona rúlli maður þonið á enda.

En Adam var ekki lengi í Paradís á kílómetra 30 kom Hérastubburinn 3:40 ásamt nokkrum viðhlæjendum, og ég í einhverju bráðarugli hugsa:”Best að hanga áfram með þeim, fara svo fram úr þeim í lokin, næ þá kannski markmiðinu. Þetta var borin von. Eftir nokkur hundruð metra með þessu liði var öllu lokið. Illt í maganum, hundþreytt og allt. Héraliðið hvarf ótrúlega fljótt. Annar skolli 3:50 hérinn –fór líka ótrúlega stuttu seinna.

Þegar 2 mílur voru eftir kom maðurinn minn á móti. Nú voru góð ráð dýr. Gaf honum merki um að hann skildi bara fara ég væri bara á labbinu og ætlaði að vera það áfram. Ég færi bara að skæla ef hann ætlaði að fara að pína mig eitthvað. “Allt í lagi elskan njóttu þess bara að vera hér skokkandi (takið eftir ekki labbandi) með manninum þínum” og ég labbaði ekki meir í hlaupinu því. Rétt slapp yfir mottuna áður en klukkan sló fjóra tíma og tips tíminn sagði 3:57.

10. Maraþoninu lokið. Alltaf er þetta æðislegt. Þvílík forréttindi að fá að leika sér svona á fullorðinsárum.

Þetta hlaup var okkur flestum erfitt, maraþon er alltaf maraþon.

Halldór er sigurvegarinn, sá eini sem náði draumatímanum sínum . Ívar og Ingófur Sveins. voru báðir á verðlaunapalli í aldursflokki. Ásgeir lenti í svaka endaspretti (þarf ekki að segja hver vann) og náði allri stúkunni með sér í æsing.

Stigum um borð í mb. Liberty seinnipartinn. Smá spurning hvort Bibba og Ásgeir myndu þurfa að taka lóðsinn því þau þurftu að skila bílnum o.fl. En þau náðu að stökkva um borð á síðustu stundu.


Karbó dagar - Allir léttir.

26. janúar.

Dagarnir fyrir hlaup voru rólegir hjá flestum. Ívar, Bibba og Ásgeir floguðust reyndar um hálfan skagann í hjólapælingum, ekki mjög fokuseruð á hlaupið eða þannig. Stebbi og Siggi unnu í taninu, þótti ekki heldur mjög skynsamlegt daginn fyrir maraþon. Garðar og Sirrý gengu um allar trissur. En ég hef ekki nokkra haldbæra fyrirframafsökun, var mjög einbeitt (Aðeins að pirra mig á að hafa ekki náð fleiri jöfnum og löngum hlaupum á æfingartímabilinu). Þetta var mjög skemmtileg stemming.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Yfir og út

Síðasta lag fyrir fréttir var í morgunn með hálftímanum. Mættir voru Gunni, Kári og Júlíus. Það er frábært að hafa hálftímann síðasta hlaup á Íslandi í bilil. Vantaði bara Garðar. Mikið var gott að finna að allt gangverkið virkar.
Takk fyrir góðar kveðjur kæru hlaupavinir.
Hér er svo slóðin á hlaupið okkar ef einhver vill kíkja.
Svo er aldrei að vita nema að komi smá rcovery blogg. Bibba svala mun líka standa sig í blogginu ef ég þekki hana rétt.
http://www.ingmiamimarathon.com/

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Láta hundinn labba sjálfan.

Þetta ráð var eitt af því sem var í einhverjum ráðleggingum á netinu sem Ívar var að lesa fyirir mig um daginn. Þar var verið að segja fólki hvernig það ætti að hvíla síustu dagana fyrir maraþon. Meiningin var sú að sleppa að gera allt sem maður gæti sleppt. Ekki bara hvíla hlaupin heldur líka hrúga ekki of miklu á sína könnu. Það hefur jú verið ávani að eiga fullt eftir á síðusu stundu.
En sumir læra aldrei af reynslunni nú sit ég hér á miðnætti nýbúin að baka köku fyrir einhvern kökubasar hjá fullorðnu barni mínu og fullt og fullt sem eg fann út að ég þyrfti endilega að gera í dag. En ferðalagið hefst á morgunn og þá skal alalt hvílt.
Nú er komið að kolvetnadögum þvílík veisla.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Pesta-og Próteindagar

Nú ætlaði ég að vera voða flink og gera eins og Siggi P. gerði (held ég áður en hann setti íslandsmetið í maraþoni). Það er að borða eingöngu prótein í 3 daga þegar 6d. eru í hlaup. Og svo síðustu 3d. fyrir hlaup eru kolvetnadagar. Þetta á að vera svo snjallt því að ef maður hefur svelt líkaman af kolvetnum þá á hann að drekka í sig svo mikið af þeim á kolvetnadögunum að hann eiginlega drekkur yfir sig og þá eru nægar birgðir í hlaupinu langa (þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti eins og kjaftakerlingin sagði, engu að síður vildi ég prófa). Ég var búin að undirbúa þetta og kaupa helling af eggjum, mjólkurvörum, harðfisk og ég veit ekki hvað. En ég var líka búin að næla mér í Hálsbólgupest og liggja í bælinu frá e.h. á laugardegi. Á hádegi á sunnudegi þegar próteindagar áttu að byrja vakti Höfðinginn á bænum sína veiku konu með uppdekkað morgunnverðar-hádegisborð. Borðið var hlaðið bakkelsi. Minn maður nýkominn úr bakaríinu, vínarbrauðin, kornbrauðin, kringlurnar, sulturnar og allt. Skítt með alla próteindaga sem við vorum búin að plana. Við hrúguðum í okkur. Og tókum svo upp prótein-daga um kvöldið ;) Mikið eru próteindagar nú þurrir og þungir en því má redda með smjörklípu og rjómaslettu. Ég hlakka mjög mikið til á fimmtudag að byrja kolvetnadag. Síðasta hlaup sem orð er á gerandi er á morgunn 10km. jafnt. Þá er eins gott að fæturnir verði ekki eins og í dag, þungir sem blý.

laugardagur, 19. janúar 2008

Súpa á Seltjarnarnesi

Enn einn góður laugardagur með Laugaskokki í dag. Farið frá nýju World Class stöðinni á Seltjarnarnesi og Maggi Sig. og Kristín buðu í Súpu á eftir. Ekki að spyrja að gestrisninni á þeim bænum.
Fínasta líkamsræktarstöð á Nesinu og enn einu sinni kom sér vel að hafa val um að fara á brettið. Éljagangur úti og ófærð. Ég þar að auki í hysteríukasti yfir því að vera að fá hálsbólgu og allt. Þessi nýja stöð hefur marga kosti. Allt ný tæki, tenging við sundlaugina, barnapössun o.fl. Ívar sýndi snilldartakta, fór á undan manni sem hann var búinn að lofa að skutla til Magga-ekki góð pössum það ;)
Hrós dagsins fær Ásta fyrir að láta ekki nokkurn mann segja sér að fara styttra en hún ætlaði. Maður fer sína æfingu og ekkert kjaftæði ;)
Fyrstu Miamifararnir fóru áleiðis í dag. Bibba og Ásgeir. Þau ætla að kafa og hjóla og allt þangað til við hin brestum á. Nú er bara að halda áfram hlaupapælingum, tína upp nokkrar fyrirframafsakanir, efast um formið. Án gríns þá ætla ég fyrst og fremst efla einbeitinguna.

föstudagur, 18. janúar 2008

Fimmtudagur og Föstudagur með allt í rugli

Fimmtudagur
Sprettir 3x1000m. á 4.50, ein mín. ganga á milli – reyndist auðvelt og skemmtilegt. Komst að því í brettaspjalli við Summa að ég væri eins og hann meiri svona sprettatýpa.
Frekar fáir á æfingu (úti) en fjöldinn allur af laugaskokkurum inni ýmist að massa sig eða hlaupa.


Allt í rugli
Er búin að brjóta heilann um hvernig geti staðið á því að vikan stefnir í 52km. en á prógramminu stendur samtals 62km. Búin að fara yfir æfingarnar aftur og aftur,leggja saman km.,telja daga og allt, þangað til ég loksins sá hugsanavilluna. Sprettirnir sem ég tók í gær áttu að vera í dag og bara 10km. rólegir í gær. Í staðinn stóð ég í þeirri meiningu að það væri hvíld í dag og fór í nudd eins og fín frú. ;)
Verð að koma hér að hamingjuóskum til stórvinar míns Sævars sem á hálfraraldarafmæli í dag. Megið þig Bryndís eiga mjög góðan dag í Lundúnaborg.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Pirr

Æfing dagsins tókst ekki. Náði 5km í einni bunu, var þá búin að ákveða að hoppa eldsnöggt af og drekka en þetta “eldnöggt” varð púst og eftir það náði ég mér ekki á strik. Er enn að pirra mig á að hafa ekki hangið lengur.
Fór svo og hitti laugaskokkara þ.e. naglana sem voru á leið út. Ótrúlegt hvað margir voru mættir miðað við veður og færð. Meira að segja unglingur á æfingu, þarf ekki að taka það fram að hann var með fyrstu mönnum Fossvogshringinn, langt á undan foreldrunum þótt hann tæki auka slaufu.
Á morgunn er svo 3x1000 á 4:50 og 1mín ganga á milli. engin spurning, það gengur vel.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Þreyttur en hleypur samt: Merki um að maður sé að komast í gott form.

Í dag var róleg endurnærandi æfing. Mjög gaman að fara í laugar, hlaupa stutt og rólega en aðallega blaðra.,
Ég heyrði hjá Sigga P fyrir nokkrum árum að þegar manni fyndist maður vera þreyttur en getur samt hlaupið, þannig að maður komi sjálfum sér á óvart, þegar maður er mættur á æfingu. Sé það merki um að maður sé að komast í form. Ég er að gæla við að þetta sé að gerast. Nú þegar 11 dagar eru í hlaupið góða.
Nú er víst lítðið hægt að gera annað en að hvíla vel og nærast vel. Á morgunn er þó áreynslu æfing og best að vera ekki með neinar form-yfirlísingar fyrr eftir hana. Hún lítur svona út:
Jafnt, byrja hægar eða hita upp fyrst, allavega 10 km á 5:00 meðalhraða
Svo er hægt að stressa sig á því hvort hún sé kannsi of erfið svona stuttu fyrir hlaup. Þetta er nú meiri línudansinn.

laugardagur, 12. janúar 2008

Stemming í Laugum

Stærðar hópur mættur í Laugar í morgunn kl 10. eftir smá pælingar hvert ætti að fara, hvað langt og hvað hratt (enginn foringi) fóru flestir saman af stað meðfram Sæbrautinni. Margir fóru Rocky En við Helgi, Davíð, Summi, Elín og Elli fórum út á Nes, yfir Lindarbrautina og svo heim hjá Nauthóli sáluga. Frábært veður og færi ágætt. Þetta gerði 19km. á mínum garmi og meðaltempó 5:33, bætti við tveimur á 5:27 inni fór þar eftir ráðleggingum Ella sem sagði að þá kæmi maður heitari inn í teyjurnar og það var raunin miklu betra að teyja svona heitur.
Ég mæli með Helga sem tempóstjórnanda, hann er mjög nákvæmur.
Ólöf kona Davíðs mætti á sína aðra æfingu í dag, mjög gaman að hún skuli vera mætt. Velkomin Ólöf.
Takk fyrir mig í dag.

Poweraid er æði.

4. Poweraid vetrarins.
Mér finnst Poweaid æði. Ég mæti alltaf ef ég get haldið á vetlingi. Hef meira að segja náð því að vera síðust í þessu hlaupi. Alltaf gott að fá tímamælingu, stöðuna á því hvernig maður er hverju sinni og smá spark í rassinn. Skil ekki af hverju sumar hlaupavinkonur mínar elska ekki þetta hlaup ;)
Fyrir tveimur árum í desember-Poweraidinu hljóp ég á 50:02 (í eftirdragi Ívars) en nú á 50:30-óstaðfest. Mjög sambærilegt. Þá hljóp ég Miamimaraþonið 3vikum síðar, líka í með hérann “góða”,á 3:41:16 =5:15 meðaltempó. Nú skal stefnt á 5:12 sem skilar 3:39:25. á jöfnu splitti. Púff, ég veit alveg hvernig manni líður á þrítugasta og eitthvað km.
Þetta Hlaup var fínt og alltaf enn meira gaman þegar börnin mans mæta líka. Frumburðurinn og kærastan voru með mömmu. Kærastan að hlaupa sitt fyrsta 10km. Það er svo gaman að fylgjast með byrjendunum og finna þegar þeir eru að fá hlaupabakteríuna. Alveg sömu taktarnir hjá öllum. Erla stelpan hans Trausta er líka í þessari stemmingu mætir og hleypur full af áhuga.
Miamifararnir Stefán Viðar og Halldór Sævar hlupu flott hlaup – ég held þeir séru í sínu allra besta formi.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Höldum síðunni lifandi.

Samkvæmt prógramminu átti að fara: 14km og þar af 10 á 5:12 eða hraðar og nota Elliarárdalinn svo átti að fara 10km. rólega á morgunn. Alveg gráupplagt að snúa þessu við og taka poveraid á morgunn. Hljóp í dag lengst af með Hafdísi. Var farin að halda að þetta yrðu þéttingshraðir 10km. en það rættist úr þegar Hafdís hélt áfram og ég sleðaðist ein upp brekkuna hjá Borgarspítalanum, sú er löng og brött, Þá fauk allur gróðinn á einu bretti . Nú er bara að byggja upp sæmilegt stress fyrir annað kvöld.Það eru 17 dagar í hlaupið góða. Og þá mun þessu bloggi ljúka (Kannski einhverjar fréttir af úrlsitum og hvernig menn taka sig út siglandi). Ég treysti á ykkur Laugaskokkara að taka við keflinu og halda síðunni lifandi. Kannski einhver Bostonfari að leyfi okkur að fylgjast með. Einnig upplagt fyrir Hafdísi að vera með yfirlýsingar fyrir Kaupmannahöfn. Ég er löngu búin að læra að nota tækifærin og vera með yfirlýsingarnar fyrirfram, það er nefnilega ekkert víst að maður verði kokhraustur eftir blessað hlaupið.

Bostonfarar! Hér er linkur á skemtilega töflu:

http://www.rrca.org/resources/articles/baasplit.html

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Langir sprettir og endurnæring.

Mánudagur 7.janúar.
3x2km. á 4.40. samtals 12km með upph+niðurskokki.
Mjög erfiður fyrsti spretturinn og svo smá versnaði það. Ég reyndi að einbeita mér að tvennu. Því sem Summi sagði: að nú væri síðasti séns að taka á því í þessari æfingarlotu og svo gaurnum sem var í vatnskúlu í marga daga og hélt svo niðri í sér andanum í margar mínútur. Þegar sprettunum var lokið var ég fljót að jafna mig og átti nóg eftir í niðurskokkið og fílaði mig ágætlega.
Það var fullt af fólki á Laugaskokksæfingu. Mér heyrðist Helgi vera að ybba sig eitthvað þegar ég var að andast á síðasta sprettinum. Bíði hann bara ef mér tekst að hlaupa þetta maraþon sæmilega þá mun ég hiklaust gera atlögu að tímanum hans seinna á þessu ári.
Þetta var síðasta erfiða sprettæfingin í prógramminu. Næsta áreynsla er á fimmtudag í Poweraid.

Í dag Þriðjudag 8. jan. átti svo að vera endurnærandi morgunnhringur sem breyttist í seinniparts-brettaskokk. Endurnærðist í staðinn í Hádeginu á Gló með vigtunarstelpunum Evu, Bibbu, Ástu og Öggu.

mánudagur, 7. janúar 2008


Langaði bara að sýna Miamiförum skipið sem þau munu sigla á um höfin blá eftir að hlaupinu lýkur. Og líka glenna það framan í ykkur hin, sem hefðuð auðvitað átt að koma með líka.


sunnudagur, 6. janúar 2008

Mosfellsheiði í Myrkri. Fimmstjörnu æfing og súpa hjá Öggu.

Æfingin átti að vera 26k. rólega(5:40-5:50).
Varð: 26-26.5km. á 5.30 –frekar flott. Með hlaupakavaler eins og Ævar þá bara hleypur maður og ekkert kjaftæði.
Ívar og Siggi Hansen höfðu ákveðið að keyra (í bíl) upp á Mosfellsheiði Frá World Class í Mosó, þaðan sem Laugaskokksæfing átti að vera í dag,30km.+ og hlaupa til baka. Mig langaði að stökkva á þessa rútu, hlaupa bara styttra eða e. mínu prógrammi=26k. Reyndar dálítið skerí að vera ein á miðri heiði um hávetur í niðamyrkri en ævintýralegt og freistandi að brjóta upp kerfið. Ég útbjó mig vel með endurskinsvesti+ síma+ þrúgusykur, lítra af vatni o.fl.
Áður en við lögðum af stað að heiman fékk Ívar símtal, einhver að melda sig með. Viti menn, haldiði að ég hafi ekki grætt hlaupafélaga, ég ætlaði varla að trúa þessu. Ævar hafði líka séð að æfing eins og þessi var tækifæri sem maður lætur ekki fram hjá sér fara.
Kl.8 lögðum við af stað að nýju í Worldclass-stöðinni í Mosó. Þar biðu Siggi Hansen og Inga ásamt Ævari. Inga skutlaði okkur að afleggjaranum að Grafningi. Bíllinn sagði: 26km. Við Ævar af stað. Tveimur tímum, tuttugu og fimm mínútum síðar komum við aftur í Mosó-WorldClass.
Þessi æfing var algjört æfintýri. Frábært veður, og auðar götur. Það var svo mikið myrkur fyrstu km. að við sáum ekki veginn, rétt aðeins hvítu línuna í kanntinum. “Er þetta ekki brekka"? "Jú jú ég finn það". Ég meinaða við sáum ekki brekkuna.
Þegar við nálguðumst vesturlandsveginn mættum við Trausta, Hann hljóp svo áfram móti strákunum. Stuttu seinna komu laugaskokkarar í hópum. Hellingur af fólki, greinilega vel mætt á æfingu. Mjög gaman að hitta þau.
Öggusúpan var frábær mikið stuð. Gaman að heimsækja Öggufjöslkyldu. Eyrún sagði mér að hún væri sko ekkert nýbyrjuð í skóla.
Ævar, Agga og allir laugaskokkarar takk kærlega fyrir mig í dag.
Ívar verðlaunaði sína í kvöld og bauð henni þríréttað á Hereford, maður fær nú ýmislegt ef maður hleypur hratt ;)

4.janúar.

á föstudögum hefur hingað til verið hvíld fyrir langa æfingu á laugardegi. En nú var: 2x 3k á 4.50 og 2mín hvíld á milli 3k upphitun+3k niðurskokk =12k.
Gekk ágætlega. Fyrri spretturinn, ef 3k kallast þá sprettur, var erfiður en tókst. Sá seinni var algjör killer hoppaði einu sinni af en fljótt á aftur tókst næstum. Átti nóg eftir í niðurskokk.
Ég var í góðum félagsskap (eins og alltaf á Laugaskokksæfingum). Berglind var á bretti við hliðina á mér að byrja sub. 10 prógramm – Það verður gaman að fylgjast með henni í því. Hún er eins og Munda frábær hlaupari ef hún æfir.

Fimmtudagur 3. janúar

Ég vissi að þetta myndi verða erfiðasta æfing vikunnar= 18k á 5.20. Rok og rigning úti, fín afsökun til að fara á brettið- var bara þreytt og löt og gat ekki nokkurn skapaðan hlut á brettinu. Hoppaði af aftur og aftur og allt. Endaði í 10k. ÖÖÖÖÖÖ.

laugardagur, 5. janúar 2008

Boggupuð og Öggusúpa!

Já, Laugaskokkarar eru sérdeilids heppnir að hafa svona góðar fraukur í hópum! Bogga styrkir okkur og stælir (en fólk þarf að mæta til þess að það gerist!) og Agga sér svo um að efla bragðlaukana! Í dag var hlaupið frá nýju WC stöðinni í Mosfellsbæ. Hlauparar fóru mislangt, en allir sameinuðust að lokum heima hjá Öggu, sem bauð upp á matarmikla gúllassúpu. Einnig voru á boðstólum súkkulaðikökur, í boði Ástu og Sigrúnar. Nammi, namm! Takk fyrir mig!

En aftur að Boggupuði. Ef ekki fer að rætast úr mætingunni í tímana, þá verður að leggja þá niður. Ég tel það mikilvægt fyrir okkur að halda þessum tímum inni, því almennar styrktaræfingar eru mikilvægar öllum hlaupurum.

Skora hér með á Laugaskokkara að mæta í puðið!!!

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Góð ársbyrjun.

Töluverður fjöldi mætti á fyrstu æfingu ársins hjá Laugaskokki í dag. Óli stóð upp á polla og reyndi að koma tölu á hlauparana, ekki veit ég útkomuna, gæti trúað um 30 manns. Gaman að þjálfarinn skuli aftur vera kominn í hlaupaskóna.
Ég sá Helga og Davíð sem freistandi félaga á þessari æfingu. Það kom á daginn, enn einu sinni að Helgi er snillingur í að halda tempói, ég pantaði 5:30 til 5:40 tempó og garmurinn sýndi: 5.35 meðaltempó þegar æfingu lauk í Laugum 13km. síðar. Getur ekki verið nákvæmara. Davíð var sterkari en ég á þessari æfingu, en þar sem þetta var ekki keppni eins og á Gamlárs, þá verður þetta hvergi skráð svo það skiptir ekki máli;)
Ívar og Halldór, tveir Maiamifarar í stuði, hlaupu fram úr hópnum fyrstir og Bogga, Pétur Ísl. O.fl. Voru næsta holl.
Þórunn, Miamifari, er aldeilis að sanna sig sem hlaupari, hún hljóp með okkur nær alla leiðina. Kári, Gunni og Munda komu upp að okkur á miðri leið: “Hva er þetta ekki vaxandi æfing” Svo smá hurfu þau. Já já það geta þetta sumir.
Ég bætti við 2km. á brettinu á 5.30 til að ná 15km. samkv. Prógramminu. Ef ég held svona áfram þá verður þessi vika 92km.
Vigtin hefur ekki sýnt lægri tölu í marga mánuði, treysti á að ná upp þyngd um borð í skipinu góða sem mun bíða okkar að hlaupi loknu.

Skemmtileg vika framundan.

Þessi vika er mjög skemmtileg:

þriðjud. 1.jan. : Morgunnhringu rólegt recovery = 6km.

mið 2.jan. Fossvogshringur alla leið niður á Lækjartorg Skúlagata til baka 5:30 til 5:40 tempo 15k.

fim. 3.jan.
Allan Elliðarárdalinn frá Laugum að Laugum eins jafnt og þú getur @ 5:20 tempo 18k

fös. 4.jan
Interval U/N 3 km þá 2 * 3000 @ 4:50 tempo =12,4 km hraði R = 2 mín 12k

lau. 5.jan. = Rólegt 26k

Þetta gera samtals 87km. Í gær fór ég 2 aukalega svo nú er bara að halda. Ætla að mæta á útiæfingu hjá Laugaskokki og reyna að gabba einhverja með mér 15km á 5:30 -5:40.

Ég skal hafa það af að geta allar æfingarnar í prógramminu þessa viku. Morgunndagurinn verður erfiðiastur.

Gamlárshlaup ÍR 2007

Prógrammið sagði: “Hlaupa Gamlárshlaup: Þetta hlaup á að hlaupa á útopnu án héra á 4:44 tempói”.
Hljóp að heiman í Oddfellowhúsið, sótti númerið og hitaði upp hring um tjörnina. Ákvað að láta kappklædd hafnfirsk hjón hafa áhrif á mig og hlaupa í jakkanum.
Á fjórða kílómetra, puðandi upp Lindabrautina finn ég hvernig hægist á mér eins og alltaf í brekkum, allir að fara fram úr mér, heyri ég: “Jæja Jóka, ég er kominn. Þvílíkt æði að fá stuðning upp Lindarbrautina og skýlingu það sem eftir var.
Fyrstu þrír km. voru á 14:10 nákvæmlega 2sek undir fyrirframætluðu tempói. Síðasti km. var svo á 4:25. Þannig að 4. 5. 6. 7. 8. og 9.km. voru greinilega ekki á réttu tempói því að í stað þess að enda á 47:20 eins og prógrammið sagði þá var lokatíminn 49:07

Margir voru skemmtilega klæddir í tilefni áramóta til dæmis voru tvær Glennur dulbúnar sem sáðfrumur. Ragna var eins og drottning í Samkvæmiskjól frá Báru.
Kona dagsins: Fjóla vinkona sem mætti með Kampavínflösku sem hún gaf vinkonu sinni að hlaupi loknu. Ótrúlega frábær.
Maður dagsins: Ásgeir Elíasson: Mjög eðlilegur skoti og góður fylginautur.
Flottasta konan: Bibba dulbúin í skrautlegum glæsihlaupafötum og silfurregnkápu.
Alltaf jafn gaman að fara í þetta hlaup.
Allir hlaupafélagar nær og fjær Takk fyrir enn eitt skemmtilegt ár í félagsskap ykkar.