laugardagur, 13. nóvember 2010

Plastkarlinn (konan)

Þegar fréttist af mikilli þátttöku Íslendinga í Járnkarli á Florida í nóvember á næsta ári, fylltist Göngudeildin af eldmóð og skipulagði fyrstu þríþrautakeppni Göngudeildar, Plastkarlinn. Ástæðan fyrir nafninu var að það þótti nógu langt frá Járnkarlinum til þess að ekki væri ruglast á keppnum. Til þess að vanda til keppninnar voru skoðaðar bloggsíður þríþrautakappa til að læra sem mest um hvernig ætti að bera sig að við keppni sem þessa.

Ákveðið var að láta slag standa og keppnin haldin í dag. Um var að ræða lokað boðsmót og þess gætt að keppendur væru ekki fleiri en verðlaunasætin, þ.e. þrír. Keppnisgreinar voru þrjár, 2.5 km skíðaganga á Crosstrainer, 20 km á hjóli og loks 5 km hlaup á bretti. Þeim keppendum sem boðið var í þetta fyrsta mót voru Bjargey, Eggert og Kolla. Ástæðan fyrir því að þessir meðlimir Göngudeildar urðu fyrir valinu er að hinir eru erlendis, ýmist á ráðstefnum eða í leit að innri frið (í Nepal). Síðan hitt að Chicago hlaupararnir hafa ekki látið sjá sig eftir annálinn á Haustfagnaðinum þótt þeir hafi verið boðnir hjartanlega velkomnir í Göngudeildina.

Þótt keppendur væru mældir í þremur tækjum, þá voru líka tekin tvö tæki til viðbótar, ef ske kynni að það þyrfti að fá keppnina viðurkennda sem fimmtaþraut. Viðbótar tækin voru sófinn, sem er notaður í byrjun til að ná upp keppnisskapinu, og vatnshaninn, sem er notaður til að brynna keppendum eftir hjólakeppnina. Var ekki vanþörf á að bæta þessum tækjum við en hins vegar var greinilegt í fyrstu keppnisgreininni að þetta keppnisform reyndi misjafnlega á keppendur. Eggert náði ekki að stilla tækið rétt og Bjargey, sem reyndar er sú eina af keppendum sem hefur reynslu af viðurkenndri keppni í þríþraut, var ekki að ná réttum rytma í hreyfingum til þess að ná sem mestu út úr tækinu. Það var því fyrrverandi fimleikakonan, Kolla, sem geislaði af keppnisgleði þannig að crosstrainerinn varð að sméri í höndunum á henni svo að hún sigraði mjög sannfærandi þessa fyrstu grein. Næst var komið að hjólinu. Keppendur voru að ná tökum á keppnisforminu og æddu af stað. Þarna kom berlega í ljós hvað reynslan skiptir miklu máli því Bjargey byggði á fyrri þátttöku sinni og tók þessa grein í nefið. Eggert reyndi allt hvað hann gat og var meira að segja með hörku tónlist í eyrunum til að skammta taktinn en það kom ekki að neinum notum gagnvart reynsluboltanum Bjargey. Sólin sem skein á Kollu í fyrstu greininni var hnigin til viðar og því dimmt yfir okkar manneskju þar sem hún rak lestina í hjólagreinni. Þegar komið var að síðustu greininni gat staðan varla verið jafnari. Kolla og Bjargey höfðu unnið sitthvora greinina, en Eggert með naumt tímaforskot í heildina. Það var því ljóst að barist yrði til síðasta manns (konu) í hlaupinu. Rétt eftir að brettin höfðu verið ræst, sannaðist berlega döpur frammistaða á hlaupaæfingum undanfarinna vikna. Þekkt morgunógleði Bjargeyjar gerði vart við sig, fimleikameiðsli Kollu tóku sig upp og gigtarsjúklingurinn Eggert þjáðist að auki af svokölluðu Kolbrúnarheilkenni í vinstri mjöðm og gat sig varla hreyft. Það voru því örmagna keppendur sem skriðu yfir marklínuna og var rétt sjónarmunur á milli þeirra.

Eftir keppnina var keppendum gert að hittast á teygjudýnunni. Þá kom í ljós að þeir voru vel lesnir í fræðunum því kærunum rigndi yfir. Eggert var kærður fyrir að þiggja aðstoð/hvatningu í hjólakeppninni frá þremur tilgreinum aðilum, þ.e. Billy Idol, Foo Fighters og Rammstein, Bjargey var kærð fyrir óíþróttamannslega framkomu og loks kærði Kolla skráninguna á lokatímanum sínum í hlaupinu. Þess vegna eru eftirfarandi úrslit birt með fyrirvara. Eins var ákveðið, af tillitsemi við keppendur, að birta ekki heildartímann, heldur aðeins tímamun á milli keppenda.

Óstaðfest úrslit eru því að Eggert var í fyrsta sæti, Bjargey í öðru sæti 1 mínútu og 2 sekúndum á eftir og þá Kolla í þriðja sætinu, 3 mín og 7 sekúndum á eftir fyrsta manni.

Þrátt fyrir að það hafi gengið á ýmsu, þá voru keppendur engu að síður sammála um að keppnin hefði verið frábær tilbreyting frá því að æða út í kuldann um morguninn.