þriðjudagur, 22. september 2009

Rútuhlaup og maraþondraumar

Rútuhlaupið í maí síðastliðinn reyndist örlagavaldur í hlaupalífi göngudeildar. Á meðan Hrafnhildur var grunlaus norður í landi að sýsla við sauðfé létu Kolla og Stefanía gamminn geisa á Nesjavallavegi og sigruðu þar áður óþekktar vegalengdir á mettíma. Er skemmst frá því að segja að maraþonórar fóru að búa um sig í hjörtum rútuhlauparanna. Framan af sumri fóru þeir tiltölulega hljótt enda var öll áhersla lögð á fjallgöngur og undirbúning fyrir 24 tinda gönguna helgina 11-12. júlí. Það hindraði þó ekki áróðursmeistarann Stefaníu í að láta eina og eina útspekúleraða athugasemd falla í Esjugöngum og fyrr en varði var göngudeildin óð og uppvæg að hlaupa heilt maraþon. Bjargey sneri reyndar uppá sig og sagði “been there, done that, got the T-shirt” og þóttist ekkert þurfa að sanna í maraþondeildinni frekar en Eggert.

Það voru því hefðbundnir göngudeildarmeðlimir og maraþonjómfrúrnar Aðalsteinn, Hrafnhildur, Kolla og Stefanía sem hófu undirbúning ásamt Krissu sem er reyndar ekki jómfrú í þeim skilningi síðan í Tíbet um árið. Maraþonáróðursmeistarar reyndust nefnilega hafa verið víðar að verki en í Esjuhlíðum, þeir fara víst líka með fórnarlömb sín á kaffihús, snúa þeim þar frá leti og hóglífi og æsa þá til maraþondáða. Það kom reyndar á daginn að Krissa átti harma að hefna síðan á hásléttum Indlands og sættir sig ekki við minna en Íslandsmet í bætingu. Það er ekkert gamanmál að verma neðsta sætið á lista yfir maraþonhlaupara Íslands. Það vita ekki allir hversu erfiðar aðstæður voru í 3.500 metra hæð á indversku hásléttunni, einungis örfá súrefnismólikúl til skiptana og brennandi hiti, allavega þegar líða tók á daginn. Skiptir ekki máli að flestir hafi þá verið löngu komnir í mark að vísu. Nei það vita ekki allir þegar þeir góna á nafnið hennar Krissu neðarlega á maraþonlistanum hvernig þetta var.

Af þessu má ljóst vera að brautina þurfti að velja af kostgæfni þannig að skilyrði væru sem allra best fyrir frumraunina og Íslandsmetið. Gælt var við hlaup í Búdapest og Odense áður en ákveðið var að fylgja fleiri félögum Laugaskokks til Frankfurt undir styrkri stjórn Sævars bónda. Þegar ákvörðunin var tekin og hlaupið valið þurfti bara að finna hæfilega auðvelt prógram. Mílanó-módelið þótti heldur krefjandi af fyrri reynslu og útsendari göngudeildar dæmdi Daníelsdagskrána ívið hraðskreiða fyrir meðlimina eftir að hafa hlaupið fyrstu æfinguna, Vatnsmýrarhlaupið, í blóðspreng í örvæntingarfulltri tilraun til að verða ekki að athlægi í hlaupaheimum. Krissa dró þá úr pússi sínu eins og töframaður Tíbetarprógram frá Elínu Reed sem heillaði göngudeildina upp úr skónum og gulltryggði sér þannig sæti í deildinni. Reiknimeistarinn Stefanía taldi vikurnar af öryggi aftur á bak frá 25. október til að finna upphafspunkt miðað við rauntímann 10. ágúst.

Æfingar hófust og gengu framar vonum þó andlegur og líkamlegur leiðtogi göngudeildar hafi því miður verið fjarri góðu gamni undanfarnar vikur. Eitthvað hefur Aðalsteinn síðan orðið einmana í hinum kvenlega félagsskap því hann skellti sér í septemberbyrjun í sjúkradeildina til Eggerts og tók að sér nauðsynlegt hlutverk bílstjóra og butlers á lengstu æfingum. Fjórir "uppistandandi" maraþonkandídatar göngudeildar halda ennþá góðum dampi í prógramminu og heyrast æ oftar stynja andstuttar á æfingum "Við erum að fara alltof hratt, stelpur. Við eigum bara að vera á 5.40"

Rútuhlaupið örlagaþrungna var endurtekið rútulaust, en með þjónustubíl, um síðustu helgi þegar 16 Laugaskokkarar drifu sig upp áleiðis upp á Nesjavallaleið og sannaðist sem oftar að Laugaskokkskonur eru margar vel giftar. Enginn hörgull var á bílstjórum þó Aðalsteinn og Gunni Mundu hafi sýnt mest úthald í að uppvarta liðið með vatn, kók og nammi. Á meðan meirihluti hópsins hvarf í rykmekki fylgdu Rögnvaldur og Gunnar okkur göngudeildarmaraþonkonum og þótti okkur það ekki verra að fá aftur tvo herra í klíkuna, erum enda farnar að sakna karlanna okkar.

sunnudagur, 20. september 2009

Hálfleiðarar hálfeinmana

Það var ekki laust við að Hálfleiðarar væru hálfeinmana þegar þeir mættu galvaskir til laugardagsæfingar. Frankfurtfarar voru flestir komnir langleiðina til Nesjavalla ásamt fríðu föruneyti, rútulausir, New York farar og Ívar höfðu sömuleiðis stefnt til fjalla en þó var það býsna álitlegur hópur sem safnaðist saman við Laugar og beið örlaga sinna í góðviðrinu.

Sumarliði var á svæðinu og var ráðgast við hann um hlaup dagsins. Við þökkuðum honum í hljóði, allir nema Pétur Ísleifss., þegar við heyrðum að áherslan væri ekki á að fara sem lengsta vegalengd heldur að standa sig í hraðanum. Prógrammið góða sagði 18 km. á vaxandi hraða og við svo búið var haldið hina einu sönnu laugardagsríkisleið, vestur í bæ og vonast eftir hinu besta. Fyrstu km. áttu að vera hægir, á ca. 5:50 en fljótlega kom í ljós hve fótfráir Hálfleiðarar eru orðnir og gekk illa að tjónka við þá. Þeir skunduðu brautina eins og óþolinmóðir veðhlaupahestar og var hraðinn fljótlega kominn í 5:20. Varð þá snarlega að skipta um strategíu og stefnt að því að halda þeim hraða hálfa leiðina og gefa svo í seinni hlutann. Sést af því hversu Hálfleiðarar eru sveigjanlegir, auk auðvitað annarra mannkosta.

Við Eiðistorg var ákveðið að halda lengra vestur eftir enda óvenju roklítið á Seltjarnarnesi þennan daginn. Því var hlaupið inn að Lindarbraut, upp heiðina þar og svo til baka Suðurnesið, næsti áfangastaður Nauthóll. Á þessum kafla átti hraðinn að vera um 5:20 og svo átti að gefa í smám saman eftir því sem nálgaðist Laugar. Mun betur tókst að fylgja þessari áætlun en áður og fór hraðinn stigvaxandi og var kominn undir 5:00 við Valsheimilið. Þegar svo meðlimir hópsins voru komnir yfir Hringbrautina var eins og á þá rynni æði og þeir keyrðu niður Snorrabraut eins og þeir mest máttu og var hraðinn á þessum kafla vel yfir því sem stefnt var að, ca. 4:30. Ekki var vikið fyrir neinum, keyrandi, hjólandi eða gangandi, eða numið staðar fyrr en búið var að leggja nokkur hundruð metra að velli líka á göngustígnum við Sæbraut, þar sem heildarkílómetrarnir slógu í 18. Að lokum var skokkað 1,5 km. inn í Laugar og vel heppnaðri laugardagsæfingu þar með lokið.

Fyrstu viku í prógramminu góða er nú lokið og hægt að eyða helginni í að hlakka til mánudagssprettanna, auk þess sem við innum eftir fréttum af þeim Laugaskokkurum sem eyddu laugardeginum í óbyggðum.

fimmtudagur, 17. september 2009

Hálfleiðarar á hlaupum.

Þá er það ákveðið, hópur Laugaskokkara hefur ákveðið að stefna að því að bæta tímann sinn í hálfu maraþoni í hausthlaupi Félags maraþonhlaupara í lok október. Öllu skyldi tjaldað til svo að árangur yrði í samræmi við björtustu væntingar meðlima. Þá er kallað í fagmenn. Eins og hringt er í Gunna Þórðar ef semja á lag sem komast á á toppinn eða talað við Stefaníu ef skipuleggja á fjallgöngu þá er talað við Sumarliða til að redda prógrammi. Og ekki stóð á því, prógrammið skilaði sér hratt og vel og skyldi afhjúpað á æfingu á miðvikudag.

Í feiminni undrun horfðu menn svo á næstu vikur, svartar á hvítu frá Sumarliða, þar sem það lá á borðum í Laugateríunni. Gömlu karlarnir létu á litlu bera og báru harm sinn í hljóði, en tár sást í einstaka hvarmi. Sex æfingar í viku! Hvað heldur Sumarliði eiginlega að við séum? Einhverjir ofurhlauparar? Hvar er prógrammið þar sem menn hlaupa eins lítið og þeir nenna og ná samt Personal Best? Var verið að svindla á okkur?

Hlaupið var frá Laugum á fyrstu æfingu og skyldi hlaupinn Fossvogshringur. Fyrstu 3 km. áttu að vera á spjallhraða en Hálfleiðarar voru samt óvenju þögulir þann tíma. Nafn hópsins að sjálfsögðu tengt því að meðlimir hans ætla að hlaupa hálfa leið í október þegar hinir fara heilt maraþon. Einhverjir bentu á að þetta væri líka eitthvert rafmagnsfræðilegt hugtak en þar sem enginn meðlima er áhugamaður um rafmagn og eðlisfræði létum við það sem vind um eyrun þjóta. Kári veit kannski eitthvað um þetta ef svo ólíklega vill til að einhver vilji fá á því útskýringu.

Eftir að hlaupnir höfðu verið 3 km. á spjallhraða tók við ógnvættur dagsins, 5 km. á 10 km. pace, sem þýddi að flestir meðlimir þurftu að keyra niður á 4:30 í hraða. Hófst þá hatrömm barátta þar sem vart mátti á milli sjá hvor hafði betur, hinn einbeitti hálfmaraþonhópur eða Fossvogurinn. Sér í lagi þar sem fimmti kílómetrinn endaði við brekkuna við kirkjugarðinn, þar sem bæði ku vera reimt auk þess sem brekkan er sögð brött. Engu að síður stóðu hálfleiðarar sig með prýði og var sæst á stórmeistarajafnteli í þessari viðureign hópsins og brautarinnar. Pétur Ísleifss. tók meira að segja kirkjugarðsbrekkuna með trukki og glotti óhræddur framan í örlögin. Er hann nú um stundir talin bjartasta von hálfleiðara en meðlimir hópsins bíða spenntir eftir kosningu næstu viku og ljóst að margir hafa hug á að ræna Pétur nafnbótinni. Má þar t.a.m. nefna Helen, sem sýndi góð tilþrif á annarri æfingu hópsins, þar sem keyrt var á beispeis (þetta er eitthvað sem Sumarliði getur útskýrt fyrir áhugasömum) upp að Elliðaárstíflu og aftur heim í Laugar.

En hálfnað er verk þá hafið er og flestir okkar manna dauðfegnir að prógrammið skuli vera hálfnað, enda strembnara en þetta þægindahlaup sem við höfum stundað undanfarnar vikur eftir að helstu keppnishlaupum lauk. Sé eitthvað til í þeirri kviksögu að árangur taki mið af æfingum ætti hópurinn ekki að þurfa að örvænta enda mun hann eyða drjúgum hluta frítíma síns á hlaupum næstu vikurnar ef prógrammið góða fær einhverju ráðið. Fyrsta skróp hópsins hefur nú verið þaulhugsað. Föstudagurinn segir Recovery hlaup, við verðum á Kaffibarnum. Og sjáumst svo hress á laugardaginn með prógrammið við hendina.

sunnudagur, 13. september 2009

Karlar í krapinu (þrekinu)

Eins og mér finnst gaman að vera í hlaupahóp, þ.e. Laugaskokki, þá er bara eitt sem ég get ekki gert þessa dagana, en það er að hlaupa !!! Alveg frá því að ég asnaðist síðasta vetur að halda að ég gæti haldið í Boggu á sprettæfingu úti í kuldanum, þá hef ég verið að glíma við bólgið hásinaslíður sem minnir á sig öðru hvoru og þegar ég var að ljúka löngu hlaupunum í undirbúningnum fyrir Rvk maraþonið var komið að slíkri áminningu að nýju. Ég hef leitað álits fagmanna og annarra á lausn á þessari raun og öllum ber saman um að ég þurfi að gera þrennt, en það er að styrkja, teygja og kæla.

Ég hef því mætt á æfingar og í stað þess að hlaupa með hópnum hef ég farið á stigvélina, fótapressuna og teygt eins og ég mest má og get. Það er hins vegar þekkt vandamál hjá hlaupurum að þeir gefa alhliða líkamsstyrk ekki nægilegan gaum og þetta er ekki hvað síst ástæðan fyrir endalausum hlaupameiðslum.

Svo ég komi mér að efninu, þá var ég að leita leiða til þess að bæta úr þessu og varð hugsað til þess að Þórir Dan hefur verið í karlaþreki á morgnana og hann hefur látið mjög vel af því. Reyndar hafa öfundarraddir haldið því fram að hann hafi verið duglegastur að byrja en litlum sögum fari af framhaldinu, en ég held að það sé della. Ég innritaði mig því í karlaþrekið með Þóri þetta haustið og þótti sem við værum karlar í krapinu, þótt einhver kynni að segja að við værum frekar á hálum ís. Ég beið spenntur eftir að sjá hvort mér lánaðist að vakna kl. 5:30 til að vera mættur á slaginu sex að morgni því hingað til hef ég haldið að það væru bara þjófar og útigangsfólk á ferli á þessum tíma. Það kom mér því á óvart fyrsta morguninn sem ég mætti að það skyldi vera löng biðröð af fólki á leið í ræktina. Ekki hvað síst að sjá þær stöllur Helgu, Sibbu og Berglindi (þekkt í æsku sem Begga) mættar í einkaþjálfun svona snemma dags. Það eru sem sagt fleiri en ég að gera eitthvað í sínum málum. Ég var nokkuð einamana í fyrsta tímanum þar til Þórir birtist en hann er búinn að vera stoð mín og stytta í þessu ferli. Það kom í ljós að Rósa þjálfari var ekki mætt í fyrsta tímann og þótt ég væri þreyttur á eftir var mér sagt að þetta hefði verið létt. Hafandi mætt í fleiri tíma og þá undir stjórn Rósu var engu logið. Það eru endalausar armbeygjur, uppsetur, dauðagöngur, spinning og ég veit ekki hvað. Það var alveg ótrúlega neyðarlegt eftir þriðja tímann að koma dauðþreyttur í búningsklefann og vera svo kraftlaus eftir armbeygurnar að geta ekki náð íþróttatöskunni ofan af skápnum!!! En þetta lagast með hverjum tíma og þar sem þetta eru bara 8 vikur, fer maður fljótt að sjá fyrir endann á þessu nema ég verði svo húkkt að ég haldi áfram. Það sem er þó mest spennandi er tölfræðin, því Rósa tók niður hinar ýmsu mælingar í fyrsta tímanum s.s. þyngd, fituprósentu, mittismál, tíma á einum km í hlaupum og fjölda af armbeygjum og uppsetum í einni lotu. Vonandi verður einhver framför svo maður þurfi ekki að leita til seglagerðarinnar þegar kemur að fatakaupum :-)

föstudagur, 11. september 2009

Að koma af fjöllum

Þetta er búið að vera viðburðaríkt sumar hjá Göngudeildinni. Líkt og rollur að vori má segja að hún hafi verið meira og minna á fjöllum eða í sveit í sumar. Það hefur heldur ekki spillt fyrir hvað Laugaskokkarar hafa verið duglegir að drífa sig um allar jarðir til að taka þátt í öllum mögulegum og ómögulegum hlaupum. Tjaldborgarstemmingin í Gullsprettinum við Laugarvatn og í Jökulsárhlaupinu var frábær og fleiri að auki. Hápunktur sumarsins var samt 24 tinda gangan hjá Aðalsteini, Kollu, Hrafnhildi og Stefaníu sem gengin var á 28 tímum, auk þess sem Eggert tók hálft, þ.e. 12 tinda. Eftir Jökulsárshlaupið virtist koma los á hópinn og hefur hann hlaupið í ýmsar áttir og er ekki laust við að það eigi við Laugaskokk í heild.

Þegar Hrafnhildur lýsti því yfir að hún myndi missa af smölun þetta árið í Bárðardalnum vegna æfingahlaups mátti með sanni segja að samlíkingin við réttarstemminguna hafi átt vel við hlaupahópinn því það er eins og honum hafi verið smalað að hausti inn í Laugar líkt og í réttina en þetta árið eru dilkarnir sem dregið er í fleiri en venjulega því þótt allir mæti á æfingu á sama tíma, tvístrast hópurinn í hinar ýmsu áttir eins og Frankfurt hóp hjá Daníel Smára, annan slíkan hóp sem æfir eftir námsefni Mílanóskólans og svo þá sem æfa „eins og venjulega“ auk þess sem við erum rík af byrjendum þetta haustið. Má með sanni segja að fjölbreytt úrval hlaupa og áræði skokkara við að sækja þau breyti áferðinni á hlaupahópnum okkar.

Göngudeildin fer ekki varhluta af þessu og og varla að hún standi undir nafni því hún hefur skipt sér í hinar ýmsu áttir eins og hinir. Aðal tíðindin eru þó að Aðalsteinn, Hrafnhildur, Kolla og Stefanía ætla að skella sér til Frankfurt í maraþonið og æfa skv. námsskrá sem er ekki af einfaldari sortinni. Ekki nóg með það heldur hefur þeim bæst góður liðsauki í Krissu. Reyndar varð Aðalsteinn svo spenntur að hann er úr leik í bili vegna hjarsláttaróreglu en hinir halda ótrauðir áfram. Bjargey heldur sínu striki en Eggert sætir sömu örlögum og Þróttur í knattspyrnunni og er fallinn niður um deild, þ.e. í sjúkradeildina eftir að þrálát hásinameiðsli tóku sig upp að nýju. Hann ber harm sinn í hljóði og sækir huggun í karlaþrekið á morgnana með Þóri og vonandi segir hann betur frá því. Það væri gaman ef hin einstöku brotabrot Laugaskokks myndu láta frétta af sér svo Göngudeildin endi ekki á eintali á blogginu okkar.

Koma so !!!