sunnudagur, 30. desember 2007

Frost-ófærð, rok og skemmtilegt fólk.

Lagði af stað í morgunn að heiman og fór strax inn aftur til að fara í auka peysu. Skokkaði svo í Laugar og hitti þar slatta af laugaskokkurum. M.a Mundu kappklædda, ég fékk stuðning félagana í að telja Mundu trú um að hún væri of mikið klædd sem munaði utanyfirbuxunum hennar. Þannig ákotnuðust mér utanyfirbuxur sem björguðu mér alveg á þessari frost-æfingu.
Brunað af stað flestir saman fyrst, leiðin var Sæbrautin og vestur á Nes. Smá saman skildu leiðir margir fóru upp hjá Eiðistorgi.
Tuttugu km. síðar komum við í aftur Laugar. Lengst af hljóp ég með glennum+dúkkulísum+snata og Pétri Ísl. Sem var eins og fyrri daginn betri en enginn. Æfingunni lauk síðan með 2km á brettinu. Þar með lauk æfingu sem sem lagði sig á 5:53meðaltempó samkvæmt garminum. –reyndar dálítið rikkjótt.
Nú er bara að hvíla rosa vel fyrir gamlárs. (á að hlaupa ótrúlega hratt samkv. Prógramminu).
Frostrós dagsins er Agga sem var frosin út við Gróttu en hljóp samt áfram í Laugar.

Léttir sprettir.

28. des. Léttir sprettir.
Átti að vera 3x100 á 4:30 eða 13.4 á brettinu. Reyndist létt, aldeilis munur að vera í skóm.

Kúður vikunnar

27.des. Átti að fara rólegan morgunnhring. Nennti ómögulega á fætur sem varð til þess að hjónakornin Gunni og Munda hlupu ein hálftímann þennan morgunn.
Mætti í Orkuveituhúsið í hádeginu. Ætlaði að taka 6km. á bretti. Rétt komin í hlaupadótið kom í ljós að ég hafði gleymt skónum heima. Hvað gerir maður þá? Athugar hvort nothæfir skór eru í óskilamunum og fer svo á hjólið og hjólar á sokkaleistunum í hálftíma – ótrúlegt hvað er erfitt að hjóla púlsinn upp í svipað og á rólegu skokki.

fimmtudagur, 27. desember 2007

Annar í jólum.

Steikarhlaup hjá Laugaskokki. Sá fram á ófærðarhlaup með tilheyrandi hægagangi. Prógrammið sagði: "Fossvogur jafnt = 13km." Svippaði þessum 13km inná brettið- gerist ekki jafnara. Gekk mjög vel = 69mín. Frétti að Laugaskokks-æfingin hefði verið skemmtileg þar sem Laugaskokkarar sameinuðust Vinum Gullu og hlupu um miðbæ Reykjavíkur m.a. gömlu sprettleiið NFR í Grjótaþorpinu.

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg Jól (gleðileg hlaupajól-Miamifarar)

"mán. 24.des. Fara smá morgunskokk í nýföllnum snjónum ekkert annað betra að gera rólegt recovery 10k"
Þetta er tekið beint upp úr prógramminu góða. Hugsaði til höfundarins þegar ég kom í vinnuna í morgun. Nýfallinn sjórinn, alveg eins og í prógramminu.- sumt klikkar aldrei.
Þannig að þegar ég er búin að vinna mun ég skokka heim úr vinnunni, 10 kílómetra leið. Bara spurning hversu hratt verður farið.
Kæru Hlaupavinir nær og fjær GLEÐILIG JÓL OG HAFIÐ ÞAÐ SEM ALLRA BEST.

laugardagur, 22. desember 2007

Jólakveðja

Kæru Laugaskokkarar!

Óska ykkur öllum góðra og gleðilegra jóla. Takk fyrir frábært hlaupaár!

Mínir km urðu nokkuð (slatti mikið!) færri en Jóhönnu Miami fara í morgun, en voru mér samt dýrmætir, þegar maður er að koma sér í hlaupaform á ný! Og ekki var verra að hlaupa um í éljagangi og vindhviðum, rífur úr manni jólastressið (sem er hvað annars?? ;) (Er maður kannski komin með alvarleg fráhvarfseinkenni frá hlaupum þegar maður er farinn að dásama íslenska veðurfarið??). Þetta var allavega góð byrjun fyrir nýtt hlaupaár.

Hafið það nú verulega gott um jólin og safnið nægum forða fyrir komandi átök ;)

Ferðalag 35.3km

Einn lítill Maiamifari fór í ferðalag í morgunn. Lagði af stað heimanað tæpl. 9. Fyrsti áfangastaður var Hófgerði í Kópavogi. Hitti þar tvo aðra Miamifara, Þá allt í einu varð ferðalagið svo miklu skemmtilegra og við skokkuðum þrjú saman að WC í Hafnarfirði. Slatti af Laugaskokkurum og þar af einn Miamifari voru þar. Nú var þetta orðið hópferðalag. Garpur hans Kalla réði sér ekki fyrir þessum fjölda sem þarna var. Kalli stóð sig eins og hetja við að halda hvutta á mottunni. Smátt og smátt hvarf hópurinn. Við Lísa, Gulla og Summi vorum samferða góðan spotta m.a. í Vaselínbrekkunni og auðvitað var sagður vaselínbrandarinn hahaha.
Þegar nálgaðist Hafnarfjarðabæ kom Ásgeir á móti okkur Ingólfi Sv. og Lísu og lóðsaði okkur um Hafnarfj. “Erum við á leið í Straumsvík spurði Ingófur sv. Já já sagði Ásgeir þetta er leiðin. Ég held að Ingófi hafi ekki litist á. Þegar Ásgeir ákvað að nú skildi taka hraða kaflann, sem átti að vera í þessu hlaupi, stungum við Ingólf af . Hef grun um að hann hafi farið of hratt á brettinu í gær. Vonandi hefur hann skilað sér í World Class í Hafnarfirði. Við Ásgeir hlupum þar framhjá – á hvínandi siglingu og sem leið lá í Hófgerðið. Þar var drykkjarstöð og svo hljóp litli Maiamifarinn aftur orðinn einn beint heim til sín í Skipholtið.
Samtals urðun þetta 35.3km og ég er hin sprækasta hér við tölvuna á leið í heitt nuddbaðið með Stebbaolíunni frá Bibbu á Ásgeiri og kertaljósið frá Evu og co. Getur ekki verið betra. Takk öll sömul fyrir skemmtilegt ferðalag.

fimmtudagur, 20. desember 2007

20.des 2007. 50ára afmælisboð.

Morgunnhlaup kl 6. 20 manns lögðu af stað ýmist hlaupandi eða hjólandi og trússbill flottasti landroverinn á landinu með friðarfána á eftir strollunni.
Komið við í Skipasundi heima hjá afmælisbarninu og sunginn afmælisöngurinn að hætti Trausta en þar sem Trausti var ekki stjórnaði Bibba og við hin sem þekktum lagið hjálpuðum til. Að loknum söng og kampavíni þá var haldið áfram hálftímann og inn í laugar. Hálftímapotturinn beið og blönduðust Garðar og Kári, traustir háftímamenn, saman við afmæisgesti og féllu þeir sérlega vel inní.
Síðan bauð afmælisbarnið uppá morgunnkaffi og meððí í Laugum.
Þetta morgunnskokk verður að vera æfing dagsins sem átti að vera 14k. Hef 100.000.000000( hundrað þúsund miljón) afsakanir.

Fossvogur á 68

Tókst í fyrsta skipti í þessu 12 vikna æfingarprógrammi að gera miðvikudagsæfinguna eins og hún átti að vera. Lagt af stað frá Laugum ásamt slatta af laugaskokkurum (milli 10 og 20) flestir á rólegu nótunum. Hljóp með tveimur Pétrum fossvogshringinn á góðum tíma nema hvað? Við skoðuðun garmsins, sem var með í för, (hans Péturs Ísl.) kom í ljós að hann hafði stoppað eftir 9km. En þessir 9 km. voru á 5:16 meðalhraða eða á 47 mín. Við Pétur erum sammála um að við hægðum ekki á okkur eftir það (frekar bættum í) þannig að þessi hringur var á 68 mínútum og ekki orð um það meir.
Nýtt fólk er á hverri æfingu hjá laugaskokki og ekki séns að læra nöfnin þeirra allra strax. Það kemur. Í gær mætti vinnufélagi minn Kristjana frá Selfossi og býð ég hana hér með formlega velkomna. Það eru 2 ár síðan ég bauð henni á æfingu með okkur og góðir hlutir gerast hægt. Það er ekki nokkur vafi að hún á eftir að sýna hvað í henni býr.

miðvikudagur, 19. desember 2007

5 og 1/2 vika eftir

Í Miamihlaupið góða.
Eins og hlauparar vita þá er það ekki nokkur skapaður hlutur.
Mér sýnist margir miamifarar vera á bullandi siglingu í sínum prógrömmum.
Það stefnir í að níu fari heilt maraþon og þrír hálft. Mikið væri nú gaman ef sem flestir ættu gott hlaup. Eins og við vitum þá er það óreúlega góð tilfinning þegar maður hefur farið gott hlaup. Áslaug Guðjónsdóttir sagði við mig á startlínunni í Búdapest, þegar ég var á leið í mitt fyrsta maraþon árið 2003, " Jóhanna þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert um æfina". Hún átti við Þegar hún hljóp ásamt öðrum námsflokkakonum Lundúnamaraþon fyrir ca 10 árum. Ég hljop mitt fyrsta marþon með þessi orð bak við eyrað og þau hafa fylgt mér í öllum mínum maraþonum síðan. Gott hlaup mun margfalda stemminguna sem verður að stíga um borð í skemmtiferðaskip að hlaupi loknu og sigla um Karabíska hafið í lystisemdum í marga daga.
Jassú reyndist allt að því auðveldur á mánudaginn og hálftíminn í gær líka léttur, þar voru mættir Garðar, Júlíus og Gunni. Potturinn sem tilheyrir hálftímanum er svo nærandi.
Nú er lykilæfing á eftir: Fossvogurinn á 68 mín. Ég skal hafa það af.

mánudagur, 17. desember 2007

Ægifagurt jólahlaup og Kakó hjá Davíð og Ólöfu

Loksins er komin tenging við ykkur aftur. Hef ekki náð inná bloggið eins og venjulega, það var ekki fyrr en ég var búin að ná sambandi við Óla að ég kom auga á augljósa leið til að tengjast aftur.(Einn sonur minn vinnur við tölvur og notar fyrir brandara á kaffistofunni þegar hann þarf að kenna mömmu sinni eitthvað á tölvuna).
En frá því síðast hef ég farið nákvæmlega eftir prógramminu góða (nema bara ekki náð að halda fyrirfram ákv. hraða - ætli það skipti máli?) t.d hljóp ég poveraid á 53mín en ekki 48:30 eins og stóð í prógramminu. Laugardagsæfingin var líka hundhæg vegna hálku fyrstu 10k og skemmtilegs félagsskapar(pottþéttar afsakanir). Kæru laugaskokkarar takk kærlega fyrir laugardaginn, frábært jólahlaup og Davíð og Ólf takk fyrir jólakakóið. Þetta var allt æði.
Í dag bíða svo jassú sprettir og það er ekki spurning um að ég get þá æfingu 10x800m á 13,1 samtals 17km. Fór þessa æfingu síðasta mánudag án þess að drepa mig.
Heæðslukast dagsins: Verkur í vi. hné á laugardaginn og í gær. eins og sé eitthvað laust að hringla í hnéinu sem veldur vondum verk :(

þriðjudagur, 11. desember 2007

Jassú+hálftími (liggur við að æfingarnar nái saman)

Hálftíminn: Mættir Árni, Gunni og Júlíus. Hljóp mjög hægt, mjög notalegt eftir jassú í gær, en sú æfing gerði samtals 18k. Prógrammið segir að ég eigi að njóta þess að hugsa um þessa viku sem fríviku. Kl 7 á þriðjudagsmorgni er ég búin með 23km. Þetta er nú meira fríið.
Alltaf er nú æðislegt og hressandi að fara í hálftímann, ég bara skil ekki af hverju maður gerir þetta ekki oftar.

sunnudagur, 9. desember 2007

28 kvikindi

Rúmlega 20 skokkarar voru mættir í Laugar í morgunn. Alltaf gaman að hitta liðið. Hópurinn lagði af stað í austur, stærsti kjarninn hljóp í grafarvog samtals um 13km. Þá var að byrja ballið, ákvað að fara niður í bæ. Endaði út við flugvöll og svo Réttarholtsveg heim upp á kommu 28km. í Laugum. Ekki mikið mál að fara vegalengdina en sénslaust að halda hraða seinnihlutann. Geypileg vetrarfegurð í bænum sól, snjór og allt.
Skoraði á Davíð í keppni í gamlárshlaupinu, hann tók áskoruninni.
Ráðlegging dagsins: Kom frá Ívari: “ þú skalt bara halda jöfnu tempói og ekki rikkja fram og til baka”. Að hann skuli ekki hafa minnst á þetta fyrr ;)
Krössuðum svoí kaffi hjá Gunna í firðinum, hvað er betra eftir svona æfingu.

laugardagur, 8. desember 2007

Laugardagur

Ég mætti í hlaupið í dag! Gat ekki valið betra veður, logn og smá frost.
Það var ekki orðið alveg bjart þegar við lögðum af stað, en mér tókst að ná í skottið á nokkrum


og sá líka nokkur andlit


Leiðin lá í Grafarvoginn, en í Bryggjuhverfinu var ég sprunginn og þegar fólkið ætlaði lengra snéri við þar. Það var orðið töluvert bjartara þegar ég rölti til baka svo ég tók nokkrar myndir í viðbót




Pétur náði mér


og ég reyndi að halda í við hann í smá stund eða þangað til að hann setti í 2. gír og hvarf. Þessi tvö komu rétt á eftir mér í höfn.


Ég ætlaði að ná myndum af fleirum, en kuldinn sigraði mig. Ég var nokkuð ánægður með þetta hlaup, tæpa 13km. Það er rúmt ár síðan ég hljóp svona langt síðast - þetta er að tosast hjá mér.

föstudagur, 7. desember 2007

Brettastemming

Fimmtudagurinn 6.nóv. átti að vera á bretti: 20k þar af 8k á 11,1 og 8k á 11,5. Lykilæfing segir þjálfarinn.
Gekk og gekk ekki. Þurfti að hoppa af öðru hverju og drekka og pústa. Hef greinilega ekki þetta hraðaúthald. En brettið fór alla leið, duglegt bretti.
Sénslaust að ég geti hlaupið meira en nokkra km. á þessum hraða. Og hér með ákveð ég að ef hraðaúthaldið verður ekki orðið mun betra 15. janúar þá ætla ég ekki að hlaupa þetta maraþon, nenni ekki að eyða mér í maraþon ef ég á ekki séns að bæta mig. Þá breyti ég skráningunni í hálft maraþon.
En ég er vongóð því ég er ekki dauð á æfingunum þótt ég komist ekki hraðar.
Laugardagurinn býður uppá 28 rólega og ég er viss um að ég fer vegalengdina.
Það var stemming á brettunum í gær, svo langt sem það nær að tala um stemmingu á brettaæfingu. Fullt af fjallmyndarlegum laugaskokkurum allir að spreyta sig á vaxandi æfingum.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Lexía

Stundvísi er einn af kostum foringjans og fljótlega eftir að ég byrjaði að hlaupa með Námsflokkum Reykjavíkur, haustið 2000 sá ég að ef maður mætti ekki á réttum tíma var hópurinn farinn. Ekkert sérlega gaman, aleinn niðri í miðbæ og undir hælinn lagt hvort maður fyndi hópinn, stundum vissi Halldór, (ekki kokkur heldur húsvörður) hvert liðið hefði hlaupið.
En sumir læra aldrei sína lexíu og í kvöld sá ég hópinn streyma hjá. Eftir að hafa röflað í foringjanum að einhver klukka í húsinu væri ekki orðin hálf og líka tuðað um hvort garmurinn næði að tengjast á hlaupum þá hundskaðist ég af stað, reyndi að sveifla garmhandleggnum ekki mikið, samkv. fyrirmælum frá Baldri. En ekki tengdist garmurinn. Nóg var að vera hlaupafélagalaus þó ég væri ekki garmlaus svo ég stoppaði í skautahöllinni og plantaði garminum fyrir utan og fór inn í hlýjuna. Loks tengdist garmurinn og við nafnarnir skröltum 15.5 km. löngu búin að gefa skít í fyrirfram hugsaðan hraða. Einhverntíma skal ég hafa það af.
Kosturinn við að missa af hópnum er að maður getur hangsað eins og maður vill. Skoðað í búðaglugga og allt, ótrulega flottur kjóll í glugganum í Max Mara.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Kostirnir við að vera á kafi í maraþonprógrammi

Einn af kostunum við að vera á kafi í maraþonprógrammi
eru recoverydagarnir. Einn slíkur í dag. 6km rólega sem upphaflega voru hugsaðir sem morgunnhringur í hálftímanum voru teknir á bretti í orkuveituhúsinu.
Vona að verði sæmilegt veður og færð á morgunn þannig að ég nái miðvikudagsæfingunni í þessari viku. Þetta er langerfiðasta vikan til þessa.
Þetta er vont fyrst svo smá versnar það ;)

mánudagur, 3. desember 2007

Gaman að finna formið koma

Í dag var Yassu: 9*800 á 3:40 eða 13.1 með 3k. upphitun+3k.niðursk. samtals 16,8km. Ekki létt en ekkert að drepast. Hefði ekki átt séns í þetta fyrir 2 vikum.
Kannast einhver við það hvað er gaman að finnast maður mun betri á heldur en á sambærilegri æfingu vikunni áður?
Mikið er gott að geta tekið svona æfingar á gamla góða brettinu í þessum brunagaddi. Laugaskokkarar voru mjög kuldadegir þegar þeir tíndust inn af útiæfingu.

Eiríkur 23gja ára sonur minn bað mig um prógramm fyrir sig og æfingafélaga sína fyrir hálft maraþon Þeir eru að æfa 4-5 sinnum í viku og aðalega að massast. En nú ætla þeir að bæta hlaupum við. Ælti þeir stefni ekki á að verða eins og Kalli. Þetta eru gaurar sem geta sullast 5-10km á 6mín tempói. Ef einhver veit um svona prógram einhvers staðar á lausu þá væri það vel þegið. Það má ná yfir nokkra mánuði og nægir að komast vegalengdina á innan við 2 tímum. Metnaðurinn er nú ekki meiri en svo ;)

laugardagur, 1. desember 2007

Hugur í Miami-förum

Eftir hvíld(sem var eiginlega rænuleysi í meira en hálfan sólahring) og voltaren-hælnudd var tekist á við 20k æfingurna gekk vel hljóp með nokkrum laugaskokkrurum mest af leiðinni, þeir smá tíndust frá og við Ingólfur Sv. Lukum 20km á nákvæmlega 5,46 meðaltempói(á að vera á 5.45–5.50) má ekki vera betra.
Átta Miamifarar voru mættir í morgunn og eru allir einbeittir ég held að allir stefni á að bæta sig.

Sögulegur viðburður og ísdans

Fimmtudagur 30/12
Sá sögulegi atburður gerðist í dag að aðeins einn karlmaður mætti á æfingu. Það hefur oft komið fyrir að aðeins ein kona mæti á æfingu. En nokkrar konur og einn karl; ekki svo lengi sem elstu menn muna.
Erfiðasta æfing vikunnar átti að vera í dag, þegar ég get hana þá verð ég í því besta formi sem ég hef nokkurntíma verið. En að hún yrði eins hæg og raun varð datt mér ekki í hug. Glerhálka, niðamyrkur og hífandi rok gerði þetta að stanslausum ísdansi. Ljósi punkturinn var: mjög góður dansherra.