sunnudagur, 25. apríl 2010

Laugaskokkarar í Vormaraþoni - fréttaskýring

Þá er blessuðu vormaraþoninu lokið þetta árið. Eins og venjulega létu Laugaskokkarar sig ekki vanta og hlupu tveir heilt maraþon og á þriðja tuginn hálft. Þrátt fyrir að ekki væri beinlínis stafalogn þegar hlaupið var haldið var árangur okkar fólks góður og ljóst að Laugaskokk hefur aldrei verið öflugara. Bæði hefur Laugaskokkurum fjölgað mikið undanfarið misseri og eins er okkar fólk í mikilli framför. Ný nöfn eru farin að troða sér í fremstu röð og gömlu brýnin standa fyrir sínu.

Mætt var úr öllum krókum og kimum Laugaskokks. IP-liðar voru fyrirferðarmiklir sem og Munduvinafélagið, HL-liðar mættu að sjálfsögðu, Glennurnar létu sig ekki vanta né Göngudeildin, auk auðvitað fjölmargra óbreyttra Bogguliða sem létu slag standa í austanrokinu.

Gömlu brýnin stóðu sig vel, Ingólfur skilaði sér þeirra fyrstur og var áttundi maður til að ljúka hlaupinu, sem er vel að verki staðið. Ívar stóð sig vel í skriðstillishlutverkinu og dró sitt lið í mark langt innan við 1:30 sem að hafði verið stefnt. Ævar augljóslega líka í fantaformi og ljóst að annir og annað tilstand í tengslum við giftingar hafa ekki sett neitt strik í reikninginn þar.

Að engum ólöstuðum má segja að IP liðar séu þeir sem komu, sáu og sigruðu í þessu hlaupi af Laugaskokkara hálfu. Eftir að hafa þanið brettin í Laugum svikalaust megnið af vetrinum, svo að mörgum þótti nóg um, var komið að því að sýna afraksturinn. Lögreglustjórinn fór þar fyrir sínu liði og skilaði því öllu á tilsettum tíma, Einar, Baldur, Ævar og Ívar allir ískrandi sprækir. Einar sannaði það þarna að viðurkenningin sem hann fékk á árshátíðinni, Framfarir ársins, var engin tilviljun. Í humáttina á eftir IP-liðum kom síðan Sigurjón Mýrdal á rétt rúmum 1:30 og er hann hér með hvattur til að mæta á brettin strax í næstu viku og taka þetta svo næst með þeim félögum.

HL-liðar stefndu á að skila sér undir 1:40 og gekk sumum það og öðrum ekki. Var fljótlega hafin leit að afsökun fyrir þá sem ekki náðu markinu og var sæst á að nota austanrokið, sem fékk 3 atkvæði meðan gömul ökklameiðsli fengu aðeins eitt atkvæði. Nokkrir HL-liða voru þó fjarverandi í hlaupinu, einn þeirra með læknisvottorð frá miðjum janúar, annar með læknisvottorð frá 23. apríl og einn var að jafna sig eftir góðan sprett í Víðavangshlaupi ÍR á sumardaginn fyrsta. Til að fylla í skörðin var kallaður til málaliði úr þingeyskum hlaupahópum sem stóð sig bærilega að venju. Ókrýndur konungur HL-liða í þessu hlaupi var Guðmundur, sem vantaði 10 sekúndur upp á að ná sínu besta hálfmaraþoni og næsta víst (a la Bjarni Fel) að það takmark fellur á árinu. Agga fór freklega fram úr nokkrum HL-liðum á leiðinni og náði góðum tíma, ljóst er að hún verður til alls líkleg í sumar. Fleiri glennur sáust hlaupandi á stígunum, Ásta áföst við hund en ekki númer og Sigrún sem var skriðstillir fyrir einn föngulegasta hópinn á stígunum þennan daginn.Berglind blandaði sér líka sem fyrr í hóp HL-liða, en Munduvinafélagið gerir þó tilkall til hennar, a.m.k. á æfingum.

Og er þá komið að þætti Munduvinafélagsins, en starfsemi þess hefur eflst og dafnað undanfarna mánuði og stíft verið æft. En eins og IP-liðar geta Munduvinir staðfest að æfingarnar skila sér á endanum. Munda leiddi að sjálfsögðu flokkinn inn á 1:45 og rétt á hæla hennar kom sigurvegarinn úr þessum hópi, Svava með personal best, á rétt rúmum1:45 líka og að bæta sig um 7 mínútur í hálfu að sögn staðkunnugra. Einhverjir Munduvinir voru fjarverandi eins og gengur, m.a. önnum kafnir við að manna drykkjarstöðvarnar. Vel að verki staðið þarna hjá stelpunum.

Kolla og Stefanía voru fulltrúar Göngudeildarinnar í hálfu, en að sjálfsögðu fór Eggert með þeim af stað og gætti þess að allt væri í lagi og liðið andlega rétt stemmt áður en hann sleppti hendinni af þeim.

Síðast en ekki síst ber að geta keppenda Laugaskokks í heilu maraþoni, en demógrafískt má flokka þann hóp í hvíta lútherska karlmenn yfir fimmtugu. Þeir Gottskálk og Ingólfur gerðu það sem gera þurfti og hlupu leiðina tvisvar, sem er auðvitað fantavel gert á þessum árstíma og við þessar aðstæður. Laugaskokkarar eru hvattir til að skála fyrir þeim við fyrsta hentugleika.

Þegar á allt er litið er ljóst að Laugaskokkarar koma vel undan vetri og að streðið hjá Boggu hefur ekki verið til einskis. Og jafnljóst er að það eiga mörg personal best eftir að falla nú í sumar hjá okkar fólki. Til hamingju öll sömul með góðan árangur.

föstudagur, 2. apríl 2010

Þungun í Göngudeild

Það er hægt að skilgreina þungun með ýmsum hætti. Göngudeildin hefur yfirleitt litið á þetta sem ástand, sem skapast þegar matar er neytt í óhófi og endar auðvitað með þyngdaraukningu eða “þungun”. Göngudeildin er mjög upptekinn af því að hugsa um líkamsþyngd og er skemmst að minnast “Biggest Looser” keppninnar í fyrra sem var gerð góð skil á þessu bloggi. Þegar átti að endurtaka leikinn á þessu ári var ákveðið að hafa keppnina í kyrrþey sem gerði það að verkum að hún leystist upp og varð að engu, sem sannar að það þarf opinbera auðmýkingu til að ná árangri í léttun !!!

Þess vegna eru Göngudeildarmeðlimir “þyngri” þessa dagana en þetta viðhorf ásamt öðru líkamsástandi sem sett er í samhengi við þungun getur auðvitað verið misskilið eins og þegar Göngudeildarmeðlimir forðast að ræða þyngdaraukningu sína í kílóum heldur tala um mánuði í meðgöngu. Það er endalaust hægt að misskilja þessa myndlíkingu, sem Göngudeildin notar mikið. Þetta byrjaði síðasta sumar þegar sakleysisleg færsla í Hlaupadagbókina þar sem vitnað var til þekktrar morgunógleði Bjargeyjar varð tilefni upphrópana hjá þeim sem ekki þekktu málið. Eitthvað þótti Laugaskokkurum samt ósennilegt að Bjargey stundaði enn mannfjölgun en vildu þó ekki hafa af henni ánægjuna og spurðu í laumi hvort þetta gæti staðist. Þessi misskilningur var leiðréttur snarlega en með hausti kom í ljós að þungun, í hefðbundun skilningi, var ekki ómöguleg hjá Göngudeildarmeðlimum.

Það var sumsé Hildur sem sagði sig frá hlaupaæfingum frá hausti vegna þungunar og hefur auðvitað verið sárt saknað þótt sambandinu hafi verið haldið á fésbókinni. Eins og Laugaskokkarar, og reyndar fleiri, vita, þá er hefðbundin þungun í kringum 9 mánuði en þyngdaraukning getur staðið mun lengur. Þess vegna varð Eggert órólegur þegar hann lagðist í svínaflensu í október og byrjaði þyngjast í takt við Hildi, og gat að auki ekki stundað æfingar af ýmsum orsökum. Ástæðan fyrir óróleikanum er sú að þegar kom að þyngdaraukningunni þá hefur Eggert haft vinninginn yfir Hildi allan tímann. Er svo komið að núna sex vikum áður en áætlað er að Hildur verði léttari þá er staðan miðað við síðasta sumar sú að Eggert hefur þyngst um 15 kg. en Hildur 14 kg. !!!

Nú er það spurningin. Hvort þeirra verður fyrr til að verða léttari ???