miðvikudagur, 27. maí 2009

Hlaupaverkefni Laugaskokks

Miðvikudaginn 27. maí verður lagt fyrir verkefni á æfingu, tilgangur með þessu verkefni er eingöngu til gamans og hvatning til þess að spjalla við aðra hlaupara en þá sem við tölum alltaf við á æfingum. Þetta kynnisverkefni/átak mun standa yfir í viku eða til 3. júní og skal skila niðurstöðum hér í kommentum.

Öll verkefnin fala í sér að finna einstakling sem hefur gert mismunandi hluti og var þeim skipt í A, B, C, og D.


Verkefni A
  • Hefur æft handbolta
  • Er afi
  • Einhvern ættaðan frá Vestfjörðum
  • Einhvern sem hefur gengið Hvannadalshnúk
  • Er með meirapróf

Verkefni B

  • Kann pelastikk
  • Einhvern sem á silfulitaðan bíl
  • Ræktar kartöflur
  • Farið í sjósund
  • Er amma

Verkefni C

  • Hefur búið í útlöndum
  • Fór á sveitarböll í denn
  • Á gæludýr
  • Spilar á hljóðfæri
  • Hefur gengið Horstrandir

Verkefni D

  • Sem prjónar
  • Björgunarsveitarmann
  • Notar skó nr 39
  • Er lofthrædd/ur
  • Getur farið í handahlaup

þriðjudagur, 26. maí 2009

Lokaúrslit Sleppt og Haldið 09 - LOKSINS !!!

Það verður að viðurkennast að það hefur ekki náðst að rífa upp stemmingu í þessari keppni líkt og í Biggest Looser, og það sem meira er, þá er ljóst að sumir keppendur hafa algjörlega misst sjálfa sig og áhugann sem sést best þegar úrslitin eru skoðuð. Þetta vekur upp spurningar um hvort keppnishald með þessum hætti sé gerlegt. Allavega verður sjálfsagt bið til haustsins áður en lagt verður á megrunarkeppnisbrautina á ný.

Annar vandi keppninnar var fjöldi keppenda, en það er erfitt, sérstaklega þegar komið er fram á sumar, að treysta á það að allir getir vegið sig og mælt á sama tíma, svo ekki sé talað um undir eftirliti haukfránna eftirlitsmanna. Þetta hefur gert að verkum að dregist hefur að tilkynna úrslit eins og best sést á þessu úrslitabloggi í dag, rúmri viku eftir að keppni lauk. Auðvitað mætti skrifa það að einhverju leyti á ritara keppninnar sem hélt í heimahagana til að lembgva, en það athæfi skildi ekki nokkurt borgarbarn og satt best að segja olli það nokkrum áhyggjum þar til það var útskýrt. Málið var auðvitað að varamaðurinn stóð sig ekki heldur, því hann glímdi við svínslega flensu og komst fyrst til almennilegrar meðvitundar í fyrradag.

En nóg af tuði í bili. Það sem skiptir máli er að 14 keppendur lögðu á sig 8 vikna þátttöku í keppni þar sem þrautseigja og skynsemi var aðal málið. Það skripluðu margir á skötunni en eins og alltaf þá komu hinar sönnu hetjur í ljós eftir því sem leið á keppnina. Það virðist hafa verið vænlegast til árangurs að þessu sinni að ætla sér ekki um of heldur treysta á að halda fengnum hlut. Þetta átti sérstaklega við þátttakendur í Biggest Looser, sem þrátt fyrir góðan árangur þar, áttu ekki sjéns í þessari keppni með nokkrum skemmtilegum undantekningum þó.

Baráttan um fyrsta sætið var jöfn og spennandi. Má með nokkrum sanni segja að keppendur hafi hagað sér líkt og við gerum á hlaupaæfingum, þ.e. skipuðu sér í hópa og slitu sig frá öðrum keppendum. Þannig leiddu Stefanía og Inga keppnina og í næsta hóp voru Aðalsteinn, Guðrún og Sibba. Þriðji hópurinn var rest utan Bjargeyjar og Eggerts sem reyndu að vinna keppnina neðanfrá, sem auðvitað er veruleikafirring af verstu sort, enda lýsti Bjargey því yfir í vitna viðurvist í gær að hún væri búin að missa tökin á tilverunni en ætlaði sér að treysta tökin að nýju. Eggert er hins vegar kominn skrefi lengra því hann á bókaða tveggja vikna meðferð á Ásbrú að loknu Mývatnshlaupinu og vonandi að það dugi honum til að verða léttari á sér á hlaupunum í sumar.

Fyrst er það röð keppenda í síðustu vigtuninni sem er:

1 Stefanía 0,22%, 2 Aðalsteinn 0,64%, 3 Pétur 0,72%, 4 Inga María 1,10%, 5 Sibba 1,82%, 6 Kolla 1,82%, 7 Gunnhildur 2,11%, 8 Guðrún 2,24%, 9 Corinna 3,02%, 10 Gunni 3,53%, 11 Hrafnhildur 3,68%, 12 Ingigerður 4,33%, 13 Bjargey 4,92%, 14 Eggert 7,65%

Síðan er það endanleg röð keppenda og lokaúrslit:

1. Stefanía 1,38%, 2. Inga María 2,35%, 3. Aðalsteinn 4,47%, 4. Corinna 5,51%, 5. Guðrún 5,78%, 6. Sibba 6,82%, 7. Gunnhildur 7,07%, 8. Pétur 7,73%, 9. Ingigerður 7,82%, 10. Kolla 8,35%, 11. Hrafnhildur 8,57%, 12. Gunni 8,80%, 13. Bjargey, 13,32%, 14. Eggert 20,92%

Úrslitin eru skýr. Stefanía sigrar enn á ný og náði meira og minna að halda sér í ætlaðri þyngd allan tíman. Inga María bítur í hælana á Stefaníu enda ekki nema 0.9% munur á þeim stöllum sem er að meðaltali 0.21% í hverri vigtun sem er varla til að tala um. Til hamingju Stefanía !!!

Í liðakeppninni voru úrslitin afgerandi því sökkurnar í keppninni voru í Bláa og Svarta liðinu. Þess vegna burstar Rauða liðið, það Bláa í öðru og Svartir síðastir. Til hamingu RAUÐIR !!!

Göngudeildin þakkar keppendum samstarfið og lesendum þolinmæðina. Nú verður keppniskröftunum beint að hlaupabrautinni enda tónninn gefinn síðasta laugardag þegar Kolla, Stefanía og Aðalsteinn fóru 32 km eins og að drekka vatn. Þetta var þrátt fyrir að hafa lengst farið 23 km áður. Hvílíkt kjarnorkufólk enda ekki laust við að farið sé að örla á skiptingu innan Göngudeildar líkt og í réttunum þar sem dregið er í dilka, eftir því hversu langt og hratt er farið.

Njótið sumarsins og verið dugleg að hlaupa !!!

þriðjudagur, 12. maí 2009

Súpan hennar Lísu

Hérna kemur hin margumtalaða uppskrift frá Lísu með súpunni góðu. Um leið vill hún og Pétur þakka öllum fyrir komuna og benda á að það eru alltaf hlaupaæfingar frá Úlfljótsskála á laugardagsmorgnum kl. 10 og eru allir velkomnir.

Úlfljótsskála Tómatsúpa að hætti Lísu!
1 laukur
1 hvítlauksgeiri
1 paprika, rauð
2 msk ólífuolía
1 1/2 tsk kummin
1 dós tómatmauk (purée; 250 ml)
1 súputeningur
700 ml vatn, sjóðandi
1 dós kjúklingabaunir
1 msk rauðvínsedik
2 tsk sykur
pipar, nýmalaður
salt

væn hnefafylli spínat
Leiðbeiningar
Saxið laukinn og hvítlaukinn fremur smátt. Fræhreinsið paprikuna og skerið hana í teninga. Hitið olíuna í þykkbotna potti og látið lauk, hvítlauk og papriku krauma við meðalhita í um 5 mínútur. Hrærið kummininu saman við og síðan tómatmaukinu. Myljið kjúklingateninginn út í vatnið og bætið því í pottinn. Setjið kjúklingabaunirnar út í, ásamt ediki, sykri, pipar og salti. Látið malla í6-8 mínútur. Smakkið og bragðbætið eftir smekk ? þessi súpa á að vera vel pipruð. Bætið að síðustu spínati út í, 1-2 mínútum áður en súpan er borin fram.

laugardagur, 9. maí 2009

Byrjendablús

Bakgrunnur þessa pistils er morgunæfing Laugaskokkara sem var frá Turninum í morgun. Þar sem hópurinn lagði af stað þá byrjaði fljótt að teygjast á hinum ýmsu einingum hópsins eftir því sem þrekið sagði til. Bjargey og Eggert urðu strax öftust og varð þeim hugsað til dýralífsþáttanna sem margir hafa séð í sjónvarpinu þar sem hjörðin er á ferð og dýrin sem ekki standa sig dragast afturúr og sjást síðan ekki meir. Varð þeim að orði að þetta væru oftar en ekki örlög byrjenda í skokki. Þegar horft er á hópinn bætast ekki margir við á hverju ári og eðilegt að spurt sé af hverju? Svo hefur það verið gagnrýnt að það sé erfittt að komast inn í skokkhóp eins og okkar því tilfinningin væri sú sama og að ryðjast inn í fjölskylduboð. Þótt þetta geti verið upplifun margra þá þarf að skoða hlutina í samhengi og kannski er lausnin að eiga smá pistil á síðunni okkar um það hvernig er að byrja í skokkhópi eins og Laugaskokk.

Þegar byrjað er í hlaupahóp þarf að athuga að þarna eru hlaupafélagar sem hafa hlaupið saman oft í viku svo árum eða áratugum skiptir. Það þýðir ekki að þeir séu ekki tilbúnir að hlaupa með einhverjum öðrum eða gefa sig á tal við aðra. Þegar lagt er af stað í hlaupin þá er það oftar en ekki hraðinn sem ákvarðar félagana og það er því dagsformið sem segir til um með hverjum er hlaupið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að gefa sig á tal við þá sem maður skokkar með. Síðan er auðvitað gott að geta mætt með einhverjum sem hleypur á svipuðum hraða til þess að vera ekki einn, en þá er líka hætta á að viðkomandi haldi sig sér og blandi ekki geði við hópinn. Auðvitað skiptir máli að mæta á sem flestar æfingar því eftir því sem byrjandinn hittir hópinn oftar þá verður maður ekki byrjandi lengi. Það er því ekki nóg að mæta á eina æfingu og ætla að dæma starfið eftir þá heimsókn.

Það er mikilvægt að skilja að félagarnir í Laugaskokki hafa allir byrjað á einhverjum tíma í hópnum óháð hlaupagetu. Það er mesti misskilningur að félagarnir séu allir þrusu hlauparar frá fyrsta degi. Með iðni og ástundun hafa orðið ótrúlegar framfarir og mörg skemmtileg dæmi þar um. Framfarirnar þurfa ekki aðeins að vera í hlaupunum heldur líka í að eignast góða og skemmtilega félaga.

Loks er að nefna hinn sanna byrjendablús þegar mætt er á æfingu og allir hlaupa af stað og byrjandinn verður aftastur, missir af hópnum og týnist eða villist!!! Það þarf samt ekki alltaf byrjanda til eins og sagan um ferðina á „Heimsenda“ sannar en vissulega hefur þetta oftar en ekki hent margan byrjandann og ekki ólíklegt að þetta hafi haft þau áhrif að viðkomandi lætur ekki sjá sig meir. Hérna mætti bæta innviðina hjá hópnum okkar, bæði í því að vera ákveðnari í að greina byrjendur og fylgja eftir að vera í sambandi við þá og síðan að vera með pistla og reynslusögur á vefnum okkar um það hvernig okkur leið að vera byrjendur í Laugaskokki og ekki hvað síst hvernig við leystum úr „Hans og Grétu, líðaninni að vera skilin eftir á æfingu án þess að hafa steina eða brauðmola til að vísa leiðina aftur niður í Laugar :-)

þriðjudagur, 5. maí 2009

Þriðja vigtun – Sleppt og Haldið 09 – Undanúrslit !!!

Fyrir glögga lesendur þá verður að upplýsa að önnur vigtun leystist upp í lagaflækjur í kjölfar þess að Pétur skilaði ekki inn tölu og fékk á sig 999 kg við litla gleði liðsfélaga sinna. Þess vegna voru úrslitin kærð og eftir munnlegan málflutning var það niðurstaða sérstaks kviðdóms að Pétur fékk að skila inn réttri tölu og þar með var Rauða liðið komið aftur á toppinn en sumir ónefndir keppendur sukku til botns í úrslitatöflunni.

Þegar kom að þriðju vigtun sl. laugardag voru flestir keppendur í heimsókn hjá Pétri og Lísu á Úlfljótsvatni og var skokkað þar utan vega að hluta og síðan boðið til glæsilegrar súpuveislu með öllu tilheyrandi og vert að minnast sérstaklega á þann kalda sem kom með gufubaðinu. Höfðu keppendur á orði að sveitaloftið væri einstaklega „létt“ og þess vegna von um góðan árangur. Ekki varð öllum keppendum að ósk sinni og ljóst að ekki einu sinni kraftaverk geta bjargað þeim keppendum sem verma neðri hluta listans. Þarna er því orðin til mikilvæg og greinargóð heimild um hvaða keppendur eru veruleikafirrtir þegar kemur að því að setja sér markmið um líkamsþyngd átta vikur fram í tímann :-)

Annars voru úrslit þriðju og næst síðustu vigtunar eftirfarandi:
1 Stefanía 1,02%, 2 Inga María 1,07%, 3 Aðalsteinn 1,66%, 4-5 Sibba 1,79%, 4-5 Guðrún , 1,79%, 6 Corinna 2,20%, 7 Pétur 2,23%, 8 Kolla 2,30%, 9 Hrafnhildur 2,34%, 10 Ingigerður ,2,45%, 11 Gunnhildur 3,05%, 12 Gunni 3,38%, 13 Bjargey 3,68%, 14 Eggert 7,60%

Eins og áður hefur komið fram þurfa þeir keppendur sem lenda í 8. sæti og neðar að gjalda syndagjald, kr. 500 og er þetta farið að ganga nærri fjárhag sumra keppenda.

Í liðakeppninni eru línur farnar að skýrast óþægilega vel fyrir Rauða liðið sem sigrar þessa lotu með 1,64%. Bláir eru í öðru sæti með 2,66% og Svartir reka lestina með 3,77%. Þegar þessi úrslit voru kunn þá höfðu svertingjarnir að orði að réttast væri að kalla þá „Svörtu sauðina“

Vegna þess hvernig stigagjöf er háttað þá eru efstu keppendur í sérflokki þegar kemur að endasprettinum og orðið verulega spennandi að sjá hvort Stefanía nær að sigra keppninna og þannig ná „alslemm“, svo notuð sé góð íslenska í vigtunarkeppnum vetrarins. Heildarstaðan er þessi:

1 Stefanía 4, 2 Inga María 6, 3 Corinna 10, 4-5 Ingigerður 20, 4-5 Guðrún 20, 6 Aðalsteinn 21, 7 Gunnhildur 24, 8 Hrafnhildur 26, 9 Sibba 27, 10-11 Kolla 28, 10-11 Gunni 28, 12-13 Bjargey 32, 12-13 Pétur 32, 14 Eggert 35. Til hamingju Stefanía !!!

Eins og sést á stigatölu efstu manna þá munar svo litlu að ekki má misstíga sig við að fagna undankeppni Eurovision til þess að vigtun á úrslitadaginn kosti sigur. Það er því engin tilviljun að keppendur í Sleppt og Haldið 09 skuli vera í sömu spennu og Jóhanna Guðrún þessa vikuna um hvort þau komist áfram og sigri í aðalkeppninni. Dramatíkin er í hámarki næstu vikurnar og lesendur hvattir til að sýna keppendum skilning þegar andlegt atgervi þrýtur á lokasprettinum eins og svo oft gerist þegar langt er hlaupið.

föstudagur, 1. maí 2009

Laugaskokkarar fjölmenntu í Hérahlaupið. Margir þvílíkt að standa sig, fyrir utan að það er nú bara heilmikið að mæta í roki og hlaupa með þessum villingum sem eru margir á kvínandi siglingu. Hérarnir stóðu sig mismunandi vel. Minn sem átti að vera á 5.00 pace fór alltof hratt í byrjun ca 4.30. getur komið sér illa fyrir þá sem ætla að treysta á þá.
Margir voru að bæta sig og aðrir voru fyrstir, nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Munda sem vann kvennaflokkinn. Einnig áttum við fólk í 2.3. o.sfrv. Ég hafði göngudeildar-manninn fyrir framan mig allan tíman. –Orðinn svo góður Eggert ;)
Til hamingju allir þetta var reglulega gaman.
Sjáumst sem flest á Úlfljótsvatni í fyrramálið.