miðvikudagur, 28. janúar 2009

Vika 3 í Biggest Looser

Það er greinilegt að Göngudeildin hefur hertekið bloggið, en það er margir sem bíða spenntir eftir úrslitum vikunnar. Í dag voru það grá og guggin Kirsuber og Bláberjabökur sem mættu í Laugaskokk til að skokka af stað í hríðarmuggunni í þeirri veiku von að tapa síðustu grömmunum fyrir vigtun vikunnar. Nú eru komnar fjórar vikur frá því fyrsta vigtun fór fram og því keppnin hálfnuð. Eins og allir maraþonhlauparar vita, þá segir ekkert að vera komin í hálft, hlaupið hefst ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 30K. Þess vegna má segja að margt úr hlaupaherfræðinni eigi við í þessari megrunarkeppni. Það er ekki spretturinn sem gildir, heldur að komast í mark. Þetta verður keppendum hugleikið næstu fjórar vikurnar.

Keppnin hefur greinilega vakið athygli því meðfylgjandi mynd birtist af nokkrum keppendum í Morgunblaðinu síðasta sunnudag. Reyndar voru Hrafnhildur og Kolla ekki ánægðar því þær voru á fljúgandi ferð á undan hinum og fannst að þær hefðu frekar átt heima í myndinni.

En nóg um það. Við skulum huga að úrslitunum.

1. Eggert 3,71%
2. Pétur.. 1,07%
3. Gunnhildur 0,80%
4. Hrafnhildur 0,61%
5. Stefanía ... 0,40%
6. Aðalsteinn 0,37%
7. Bjargey ... 0,15%
8. Kolla ....-0,80%

Úrslit þessarar vikur voru heldur betur óvænt og má með sanni segja að keppendur hafi haft endaskipti á sætum sínum. Afgerandi sigurvegari að þessu sinni er Eggert og óskum við honum til hamingju. Hann var heldur betur hástökkvari vikunnunar þótt þeir sem þekkja hann eigi erfitt með að skilja hvernig sú myndlíking getur passað. En tölurnar tala sínu máli og hafði Eggert á orði að nú hefði honum loksins tekist að losa sig við svínalærið sem hann keypti handa fjölskyldunni í jólamatinn. Þá er árangur Péturs einnig frábær og stekkur hann reyndar upp um fleiri sæti á listanum og hafði að eigin sögn ekki gert annað en að loka konfektkassanum. Hvað aðra keppendur varðar þá er keppnisálagið greinilega farið að segja til sín því Kolla hreyfist í ranga átt en það má búast við slíkum hreyfingum þegar líður keppnina. Í liðakeppninni mössuðu Bláberjabökurnar Kirsuberin með miklum mun eða 5,55 gegn 0,77.

Í heildarkeppninni eru þær stöllur Stefanía og Bjargey með ógnarhald á toppsætunum en Eggert blandar sér óvart í baráttuna með því að ýta Aðalsteini úr þriðja sætinu. Önnur sæti eru á fleygiferð. Aðal tíðindin eru að Bláberjabökurnar eru komnar með forystu í liðakeppninni í fyrsta sinn. Annars er röðin í heildarkeppninni þannig: Stefanía 6,03%, Bjargey 5,70%, Eggert 5,34%, Aðalsteinn 3,50%, Gunnhildur 2,53%, Hrafnhildur 2,11%, Pétur 1,65%, Kolla 1,63%.

Göngudeildin hvetur lesendur til þess að líta aftur á bloggið í næstu viku og sjá hvort nýja staðan heldur og það sem skipir öllu máli: Hverjir verma botnsætin og borga?

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Vika 2 í keppni Göngudeildar

Það voru trekktar taugar Kirsuberja og Bláberjabakna sem mættu í Laugaskokk í dag til þess að fá fram úrslit í annarri viku „Biggest Looser“ keppni Göngudeildar. Það var reynt að hanga sem lengst á skokkinu í dag til þess að losa sem mest af vatni en allt kom fyrir ekki. Það hafði mikið gengið á í vikunni. Dramatískar lýsingar af heimiliserjum vegna matargerðar og félagslegri einangrun á vinnustöðum voru áberandi og skyggðu á annað sem gekk á í þjóðfélaginu. Hápunkturinn var þó frásögnin af Bláberjabökunni sem grét við eldhúsvaskinn þegar hún hellti niður kókflöskunni og setti restina af jólakonfektinu í ruslafötuna. Jafnvel hinir hörðustu Laugaskokkarar komust við þegar þeir heyrðu af þessu.

Á samráðsfundi Göngudeildar sl. laugardag var ákveðið að refsigjald þeirra sem væru í 5-8 í hverri viku væri ISK 500 sem yrði safnað og ráðstafað í lok keppni til þeirra sem eftir yrðu. Einnig var ákveðið að tapliðið í rauða vs. bláa slagnum myndi kaupa máltíð handa vinningsliðinu. Reyndar urðu nokkrar umræður um hvort þetta væri viðeigandi því þetta samsvaraði því að fagna 8 vikna edrúmennsku með því að detta í það, en niðurstaðan var sú að ef þetta væri hollustumáltíð myndi það sleppa!!!

Glöggir lesendur taka eftir því að nú er Pétur F kominn inn í töflur og útreikninga. Einnig er birt núna staðan í heildarkeppninni því þótt það séu úrslit í hverri viku þá verður bara einn„Biggest Looser“ í restina. Til þess að teygja ekki lopann lengur þá koma hér úrslit annarrar viku.

Úrslit viku 2
1. Bjargey.............. 2,34%
2. Stefanía ............ 1,98%
3. Hrafnhildur ......... 1,03%
4. Aðalsteinn .......... 0,98%
5. Eggert ............... 0,91%
6. Kolla ................. 0,79%
7. Pétur ................ 0,59%
8. Gunnhildur .. ...... 0,49%

Sigurvegari að þessu sinni er Bjargey og óskum við henni til hamingju. Bjargey hefur verið einbeitt og viljaföst og veitir ekki af þar sem hún á við ramman reip að draga því Stefanía lætur ekki deigan síga. Eru þær stöllur í nokkrum sérflokki þessar fyrstu tvær keppnisvikur. Rétt er að vekja líka athygli á hástökkvara vikunnar henni Hrafnhildi sem stekkur úr sjöunda sætinu í það þriðja. Það getur því allt gerst.

Í liðakeppninni urðu straumhvörf þessa vikuna því Bláberjabökurnar sigruðu Kirsuberin, reyndar með minnsta mun, 4.87 gegn 4.24. Engu að síður athyglisvert því Kirsuberin möluðu andstæðinga sína í fyrstu vikunni.

Í heildarkeppninni er staðan þannig: 1, Stefanía-5,65%.., 2. Bjargey-5,55%.., 3. Aðalsteinn-3,14%.., 4. Kolla-2,41%.., 5. Gunnhildur-1,75%.., 6. Eggert-1,69%.., 7. Hrafnhildur-1,51%.., 8. Pétur-0,59%.

Göngudeildin hvetur lesendur til þess að líta á bloggið í næstu viku og sjá hvort Bjargey og Stefanía ná að halda uppteknum hætti. Hverjir verma botnsætin og borga? Spennan er gífurleg!!!

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Göngudeildin tapar sér !!!

Göngudeildin líkt og aðrir landsmenn telur það sjálfsagðan hlut að setja sér markmið á nýju ári. Það var samt ekki alveg ljóst hvaða sameiginlega markmið það gæti hentð. Eftir miklar vangaveltur varð niðurstaðan sú að grípa til aðhaldssemi svo hægt væri að hemja aðdráttarafl jarðar, en það eru einmitt þeir kraftar sem toga félagsmenn Göngudeildar til sín af þvílíkri hörku, að það hægir verulega á þeim á hlaupum.

Til þess að ná upp spennu var ákveðið að koma þessum markmiðum á keppnisform og skyldi styðjast við „Biggest Looser“ fyrirkomulagið sem allir þekkja frá sívinsælum sjónvarpsþáttum. Þetta var ekki auðvelt því eins og allir vita þá er drjúgur hluti göngudeildar ekki nógu miklar bollur til þess að það skipti ekki máli hvernig þyngdartap er mælt. Engu að síður var ákveðið að fara í liðakeppni auk einstaklingskeppni.

Einstaklingskeppnin
Upphaflega var hugmyndin að hver og einn myndi setja sér markmið og síðan mæld prósentuleg breyting í átt að þessu markmiði. Gallinn við þetta var að það náði ekki að gera keppnina þannig að allir væru að keppa á sama grundvelli. Þess vegna er fylgt erlenda fordæminu og mælt hlutfallslegt þyngdartap, þ.e. hvað ný þyngd er í hlutfalli við síðustu mælingu og svo í síðustu vikunni hvað lokaþyngd er í hlutfalli við upphafsþyngd. Í einstaklingskeppninni er þetta erfitt fyrir þá sem eru nálægt kjörþyngd (sem er ekki allra vandamál). Í hverri viku er einstaklingskeppnin þannig að þrír neðstu (af átta) eru „taparar“ vikunnar og greiða refsigjald. Sigurvegari hverrar viku er auðvitað bara einn og hann fær verðlaun. Svo er auðvitað einn sigurvegari í lokin.

Liðakeppnin
Hér var öllu erfiðara að finna sanngjarna lausn en niðurstaðan var sú að raða meðlimum eftir BMI vísitölu hvers og eins. Síðan voru mynduð tvö lið, rautt og blátt, þar sem númer eitt, fjögur, fimm og sjö eru í „Rauða“ liðinu og númer tvö, þrjú og sex í „Bláa“ liðinu. Númer sjö, sem væri næst kjörþyngd, myndi því ekki telja nema viðkomandi stæði sig betur en einhver liðsfélaga sinna. Þetta er auðvitað óhemju flókið en engu að síður talið sanngjörn lausn.

Liðsmenn Rauða liðsins (Red Cherries - Kirsuberin) eru :
Aðalsteinn, Gunnhildur, Stefanía og Kolla


Liðsmenn Bláa liðsins (Blueberry Pies – Bláberjabökurnar) eru:
Bjargey, Eggert og Hrafnhildur (gæti verið að Pétur gangi í liðið)

Keppnistímabil
Hófst með upphafsmælingu í síðustu viku en fyrsta keppnismæling var í gær. Þetta verður 8 vikna leikur þar sem birt verða 7 vikuúrslit og síðan heildarúrslit. Þess vegna hvetjum við Laugaskokkara til þess að fylgjast með í hverri viku þegar úrslitin verða birt.

Úrslit fyrstu keppnisviku
Niðurstaðan í einstaklingskeppninni í viku 1 er sem hér segir:

Í liðakeppninni höfðu Kirsuberin betur svo um munaði eða 7,56% gegn 4,56% svo það munaði þremur prósentum. Það er því "þungt" hljóð í Bláberjabökunum þessa viku.

Í einstaklingskeppninn voru óvænt úrslit og greinilegt að þeir liðsmenn Göngudeildar sem mestan eiga forðann hafa náð að halda fengnum hlut og hafa því ekki áttað sig á því að keppnin snýst um annað. Þess vegna má búast við miklum framförum þegar líður á keppnina. Annars var röð keppenda sem hér segir:

1. Stefanía 3,75%
2. Bjargey 3,29%
3. Aðalsteinn 2,18%
4. Kolla 1,63%
5. Gunnhildur 1,26%
6. Eggert 0,79%
7. Hrafnhildur 0,48%

Til hamingju Stefanía. Þú ert hörku keppniskona.

Pétur náði ekki fyrstu vikunni en vonandi skilar hann sér í töfluna í næstu viku.

Rétt er í lokin að minna á einkunnarorð keppninnar, en þau eru:

Megi besta bollan sigra“

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Góð byrjun hjá Laugaskokki.

Jæja það er víst komin tími á að þjálfarinn tjái sig eitthvað hér enda hefur hann verið frekar latur undanfarið við skrif hér.

Nýtt hlaupaár hjá Laugaskokk byrjar vel. Nú þegar eru 4 Laugaskokkar (Ívar, Jóhanna, Siggi og Inga) búnir að hlaupa heilt maraþon á þessu ári og Inga tók það með trompi og bætti sig um hálftíma, til hamingju Inga. Einnig höfum við verið dugleg að fjölmenna í Poweradehlaupið telst mér til að það hafi verið amk 22 Laugaskokkarar í janúarhlaupinu. Á mánudaginn fengum við endurskinns vesti frá VÍS og erum við óskaplega þakklát fyrir þau. Það er ekki leiðinlegt að sjá þennan föngulega hóp og allir í áberandi vestum, fyrir utan það hvað við sýnum gott fordæmi með því að vera vel upplýst.
Það er greinilegt að fólk ætlar sér stóra hluti í hlaupunum í ár því mæting hefur verið með eindæmum góð og fer varla undir 40 manns á æfingum. Einnig er ánægjulegt hversu mikið er af nýjum andlitum á æfingum og við sem erum vanari pössum að sjálfsögðu uppá það að taka vel á móti öllum og peppa þau áfram því öll höfum við einhvern tímann verið byrjendur og vitum hvað hvatning getur verið mikilvæg. En svo vonandi hafa flestir sett sér einhver hlaupamarkmið fyrir árið 2009 hvort sem þau eru í keppni að ná undir xx tíma í ákv veglengd eða bara æfingalega séð því ef að maður hefur að einhverju að stefna er svo mikið auðveldara að halda fókus í æfingum. Mæli með að fólk skrifi niður markmið sín og kíki á þau reglulega til þess að minna sig á.

Annars bíð ég verulega spennt eftir pistlinum frá göngudeildinni því þar er að byrja keppni og veit ég að það verða blátt og rautt lið og Eggert er víst búin að búa til svakalegt exel skjal til þess að halda utanum þessa keppni. Er nú frekar svekkt yfir því að vera ekki gjaldgeng í þessa keppni.

sunnudagur, 11. janúar 2009

Göngudeildin mætt !!!

Um leið og við óskum Disney hlaupurum til hamingju með daginn langar okkur að rifja upp skrifin hennar Jóhönnu hér á blogginu þegar hún skrifaði: "........ það er svo margt að gerast í Laugaskokki sem ég hef ekki hugmynd um. Því þurfa fleiri að blogga. Eins og Garðar sagði svo spekingslega hér um árið, þá setur sá svip á söguna sem ritar hana. Því fleiri sögumenn, því fleiri svipir, því skemmtilegra og gefur betri mynd af því sem laugaskokkarar eru að gera. Við erum svo mörg að gera ýmislegt skemmtilegt, hlaupatengt. Hvernig væri t.d. að einhver frá göngudeildinni myndi blogga annað slagið, því þar er aldeilis verið að gera góða hluti."

Við í Göngudeildinni erum auðvitað upp með okkur með svona meðmæli og skorumst ekki undan. Þess vegna var það niðurstaða kaffispjalls eftir hlaupin í gær að sækja um skrifleyfi á bloggið og var það góðfúslega veitt umsvifalaust. Við vonumst því til þess að geta sagt Laugaskokkurum eitthvað frá því sem gerist aftast í hlaupahópnum og ekki væri verra að þið ykkar sem alltaf eruð á undan séuð jafn dugleg að segja frá svo við séum öll upplýst á skokkinu.

Hlaupakveðja, :-)

föstudagur, 9. janúar 2009

Skyrterta

Fyrsta uppskrift ársins er skyrterta, fínn desert eftir holla máltíð.

Botn:
LU kanilkex (einn pakki)
Smjör eða smjörva eftir þörfum, ca. 140 g
Myljið kexið í botn á fati, ca. 30 cm í þvermál, og bleytið í með bræddu smjöri/smjörva. Pressið vel.

Fylling:
1 stór dós af KEA skyri, eftir smekk (vanilluskyr passar mjög vel með kanilkexinu)
1 peli (1/4 l) rjómi, þeyttur
1 dós 18% sýrður rjómi
Sýrði rjóminn settur í skál, losað um hann og þeytta rjómanum blandað saman við og að lokum skyrinu. Skyrkreminu dreift yfir kexið. Kælt.
Skyrterta geymist vel í ísskáp í nokkra daga. Gott er að bera hana fram með ferskum ávöxtum, t.d. jarðaberjum, bláberjum og kiwi.