miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Vika 7 – Endaspretturinn hafinn !!!!

Það var ekki sönglað Saltkjöt og baunir - Túkall, heldur Túkíló þegar keppendur mættu á æfingu í dag til vigtunar. Merkisdagar eins og Bolludagur og Sprengidagur hafa greinilega náð að heilla því tölurnar báru þess greinilega merki auk þess sem það er greinileg þreyta farin að gera vart við sig hjá sumum keppendum. Það þýðir auðvitað bara tækifæri fyrir þá sem hafa ekki hafa náð að sýna sitt besta fram að þessu. Bæði Eggert og Pétur voru erlendis í síðustu viku og reyndu erlendar megrunaraðferðir með hæpnum árangri eins og sást á tölunum þeirra. Pétur prófaði agúrkukúrinn sem er að skera agúrku í bita og setja í fullt vodkaglas. Pétur sleppti reyndar gúrkunni en kvartaði ekki undan áhrifunum. Eggert nærðist á Haggish, viskýi, kartöflumús og rófustöppu og því fór sem fór. Annars voru úrslitin þessi.

Hrafnhildur 2,16%
Kolla 1,20%
Gunnhildur 0,12%
Bjargey 0,00%
Pétur 0,00%
Eggert -0,29%
Aðalsteinn -0,89%
Stefanía -1,12%

Óvæntur sigurvegari vikunnar er Hrafnhildur og óskum við henni hjartanlega til hamingju. Hennar tími er greinilega kominn og fróðlegt að fylgjast með endasprettinum hjá henni. Annars má að mörgu leyti líta svo á að höfð hafi verið endaskipti á listanum því þau heiðurshjón og hörku keppnisfólk, Stefanía og Aðalsteinn, stungu sér á bólakaf, en illa þenkjandi keppinautar þeirra velta nú fyrir sér hvort þetta sé eitthvert megaplott af þeirra hálfu.

Í heildarkeppninni var Stefaníu loksins velt af stalli og staðan þessi: Bjargey 8,47%, Stefanía 8,32%, Eggert 7,20%, Aðalsteinn 5,81%, Hrafnhildur 4,76%, Kolla 3,66%, Gunnhildur 3,55%, Pétur 2,47%.. Það má greina þarna tvo hópa en munurinn ekki meiri en svo að vikusvelti getur ýmsu breytt.

Í liðakeppninni höfðu Bláberin betur þessa vikuna eða 1,88% gegn -,69% og Bláberin leiða líka heildarkeppnina gegn Kirsuberjunum með 22,90% gegn 21,33% svo minna getur það varla verið.

Spennan er orðin gríðarleg. Eins og sést á tölunum getur allt gerst og ekki spillir að búið er að skipuleggja verðlaunahátíð á síðasta vigtunardeginum á miðvikudag í næstu viku. Áætlað er að gleðin hefjist 19:10 í LaugaCafé og verður þessi fína marengskaka í boði fyrir gesti auk þess sem glæsileg verðlaun verða veitt keppendum og skálað í eðalveigum. Keppendur skora hér með á Laugaskokkara að fjölmenna og fagna með þeim úrslitum í þessari ótrúlega erfiðu en spennandi keppni. Sjáumst !!!!!

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Vika sex, og ekkert kex!

Það er ekki laust við að keppendurnir í Biggest Looser séu orðnir þreyttir á aðhaldinu enda allt fólk sem kann vel að meta góðan mat og mikið af honum. Þess vegna er það oft sem dagsetningin 4. Mars heyrist í samræðum hjá göngudeildinni en það er dagurinn sem síðasta vigtunin fer fram og keppnin endar. Til þess að halda uppá það munum við í göngudeildinni hafa smá verðlauna afhendingu á eftir æfingu miðvikudaginn 4. Mars í Laugum og vonum við að sem flestir Laugaskokkarar mæti. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun að öllum líkindum afhenda verðlaunin það er að segja ef hann verður á landinu. Ef hann hefur ekki tök á að mæta munum við fá einhvern í hans stað.

Eins og sagt hefur verið frá áður þá er eina reglan í þessari keppni sú að það eru engar reglur, allt er leyfilegt til þess að vera léttur á vigtinni á miðvikudögum. En þegar keppendur hafa ekki getað mætt á vigtina vegna veikinda eða vegna fjarveru erlendis, hefur tala síðustu viku verið látin standa. Þessa vikuna eru Eggert og Pétur báðir staddir erlendis (?) og voru því tölurnar þeirra þær sömu og í síðustu viku. Keppnin hefur verið mjög hörð hingað til en nú þegar endalokin eru í sjónmáli hefur enn aukið á keppnishörkuna. Örþrifaráð eins og detox í útlöndum eru orðin vikulegur þáttur hjá mörgum og heyrst hefur að Sif Arnars hafi fengið nokkrar beiðnir um aðstoð við aflimun enda er hún starfsmaður hjá stoðtækjaframleiðndanum Össuri. Göngudeildin er að skoða gagnkvæmt samstarf við fyrirtækið og hafa nokkrir göngudeildar meðlimir látið sig dreyma um að komast á Ólympíuleikana með aðstoð Össurar.

En þá að úrslitunum þessa vikuna. Aðalsteinn er afgerandi sigurvegari vikunnar með 2,29% og kemur Stefanía kona hans næst með 1,24%. Þau hjónin hafa greinilega stuðning hvort af öðru þessa vikuna og eru samstíga í sínu hjónabandi. Í þriðja sætinu er Bjargey með 0, 87% og Gunnhildur í því fjórða með 0,12%. Pétur og Eggert eru saman í fimmta og sjötta sæti með 0,0% hvor og lestina reka Hrafnhildur í sjöunda með -0,12% og Kolla í áttunda sæti með –0,48%. Eftir vigtun heyrðist Kolla muldra eitthvað um að hún hefði átt að sleppa kökunum um síðustu helgi, kökukúrinn sem Bláberjabökurnar sendu henni með óskum um gott gengi í keppninni hefur greinilega ekki virkað eins og þau lofuðu.

Þrátt fyrir það eru Kirsuberin sigurlið vikunnar og óskum við þeim til hamingju með frábæran árangur. Í heildarkeppninni hafa Kirsuberin nú skriðið framúr Bláberjabökunum þótt mjótt sé á muninum milli liðanna eða aðeins 0,83% en einstaklings staðan er núna þessi:

Stefanía 9,33%
Bjargey 8,47%
Eggert 7,46%
Aðalsteinn 6,64%
Gunnhildur 3,43%
Hrafnhildur 2,65%
Kolla 2,49%
Pétur 2,47%


Fram að þessu hafa samtals 34,55 kíló horfið af göngudeildinni og enn eru tvær vikur eftir af keppninni. Ná keppendur að losa sig við meira en 40 kíló samtals? Hver verður sigurvegarinn og hvaða lið vinnur? Fylgist með framhaldinu á miðvikudaginn í næstu viku.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Vika Fimm - Simsalabimm

Hungrið er farið að sverfa svo að keppendum í biggest looser að titillinn á bloggi vikunnar er hættur að skiljast. Það voru samt einbeittar Bláberjabökur sem mættu í Laugar í dag því niðurstaða síðustu viku sat í þeim. Svo voru líka kát Kirsuber mætt, sem voru enn í sigurvímu. Eftir að hafa lent í bakaríinu í síðustu viku höfðu bökurnar hver um sig ákveðið að svona gengi þetta ekki lengur og höfðu í huga meginreglu keppninnar. „Það eru engar reglur“ um það til hvaða ráða má grípa til að létta sig !!! Bjargey tók nýja trú sem gengur út á að afneita fæðu þegar hún býðst og Eggert tók fyrstu vél til Akureyrar og lét innrita sig á helgardetox námskeið á Mývatni. Pétur og Hrafnhildur fóru hálfa leið, þ.e. Pétur át bara helminginn af namminu í skálinni hjá Lísu og Hrafnhildur borðaði bara hálfa skammta. Kirsuberin þurftu ekki á neinu slíku að halda og héldu uppteknum hætti nema Gunnhildur sem stóð sig svo vel í síðustu viku að hún varð lasin og mætti ekki í dag. Þess vegna þurfti að búa til nýja reglu sem segir að ef keppandi nær ekki mæta í vigtun eða láta vita nýja tölu þá gildir tala síðustu viku. Meira seinna því við skulum snúa okkur að úrslitum vikunnar.

1. Eggert 2,35%, 2. Bjargey 1,94%, 3. Stefanía 1,09%, 4. Kolla 1,03%, 5. Hrafnhildur 0,92%, 6. Pétur 0,36%, 7. Gunnhildur 0,00%, 8. Aðalsteinn -0,19%.

Semsagt, Eggert er sigurvegari vikunnar og óskum við honum til hamingju. Það er rétt að óska honum líka til hamingju með annan titil, sem reyndar var ekki hugsað fyrir í upphafi en Eggert er rétt nefndur Jójó keppninnar því hann sveiflast vikulega úr neðstu sætum keppninnar í það efsta. Greinilegt að líkamsbygging hans er þrepaskipt. Það vekur líka athygli að Bjargey kemur grimm til baka og hafa Laugaskokkarar á orði að hún sé farin að líta út eins og strá, og velta fyrir sér hvar hún ætli að finna eitthvað af kílóum til að missa á næstu vikum. Svo verður að hrósa Stefáníu fyrir hversu jöfn og stöðug hún er í léttuninni en auðvitað vekur athygli að Aðalsteinn hefur eitthvað sloppið að heiman því hann færðist í ranga átt.

Svo hugað sé að liðakeppninni þá náðu Bláberjabökurnar að safna vopnum sínum og sigra Kirsuberin í vikukeppninni með 5.57 gegn 1.94. Í heildarkeppninni er staða efstu þriggja keppenda sú sama, þ.e. Stefanía, Bjargey og Eggert, en Aðalsteinn, Gunnhildur, Kolla, Hrafnhildur og Pétur fylgja í kjölfarið.

Þar sem þetta er fimmta vikan eru keppendur farnir að sjá endamarkið í hillingum. Þess vegna var ákveðið á fundi keppnisstjórnar að eftir síðustu vigtun í viku 8 verða úrslitin tilkynnt samdægurs eftir æfinguna og besta bollan krýnd. Þetta verður ígildi beinnar útsendingar og Laugaskokkarar beðnir að fylgjast með tilkynningum um stað og stund. Það verða örugglega allir Laugaskokkarar, auk keppenda, fegnir að fá þessu oki aflétt og getað byrjað aftur að lesa blogg frá Jóhönnu :-)

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Þá er það vika 4

Tíminn flýgur. Það lá spenna í loftinu þegar keppendur mættu í Laugar í dag. Frosthörkur neyddu flesta til þess að æfa inni og var hangið í tækjunum og svitnað í þeirri veiku von að tapa einhverjum grömmum fyrir vigtun. Var augljóst á látbragði sumra að umskipti síðustu viku höfðu ekki dugað og fyrirsjáanlegt að breytingar yrðu á ný. Var ekki laust við að örvænting væri farin að grípa suma og þess vegna var svo uppörvandi að heyra söguna hennar Evu okkar í Laugaskokki, en þótt ótrúlegt sé, þá var hún einu sinni með BMI vísitölu sem hefði dugað til þess að opna offitudyrnar. Ótrúlegt, ekki satt? Fyrir þá sem vilja vita meira um þetta er bent á umfjöllun í Fréttablaðinu sem hægt er að skoða með því að fylgja eftirfarandi hlekk http://vefblod.visir.is/index.php?s=2715&p=68349=2715&p=68349.

Síðan hefur Ívar verið að benda sumum keppendum á svitahlaupaaðferð á bandinu með því að hlaupa brekkuhlaup dauðans. Ein bláberjabakan reyndi þetta en þeyttist af bandinu svo það er ekki alveg ljóst hvort keppendur treysta sér til þess að nýta þetta heillaráð. En til þess að lífga upp á umfjöllun um keppnina er Kolla farin að koma með myndavélina á æfingar og taka myndir að keppendum og birta á fésbókarsíðunni sinni. Þrátt fyrir hungurverkina er ekki annað að sjá en að keppendum takist að töfra fram gleðisvip og bros á myndunum sem segir að félagsskapurinn er frábær. En hér koma úrslitin:

Stefanía 1,22%
Aðalsteinn 1,17%
Gunnhildur 0,80%
Pétur 0,48%
Kolla 0,32%
Bjargey 0,15%
Eggert -0,11%
Hrafnhildur -0,25%

Úrslitin eru að mörgu leyti óvænt. Keppnisharka Stefaníu er aðdáunarverð og Aðalsteinn heldur sig skrefinu fyrir aftan. Til hamingju Stefanía. Fyrir þá keppendur sem vilja skilja leyndarmálið á bak við velgengni þeirra hjóna þá væri athyglisvert að vera fluga á vegg heima hjá þeim. Eggert, sem var stjarna síðustu viku er stjörnuhrap þessarar, en hástökkvaranafnbótin færist til Gunnhildar enda hennar tími kominn. Kirsuberin raða sér samviskusamlega í efstu sætin enda tóku þau Bláberjabökurnar í bakaríið í þetta sinn. Pétur heldur uppi heiðri Bláberjabakanna en þær verða greinilega að herða sig ef þær ætla að eiga roð við Kirsuberjunum. Heildarkeppnin stendur þannig: Stefanía, Bjargey, Eggert, Aðalsteinn, Gunnhildur, Pétur, Kolla, Hrafnhildur.

Nú er keppnin rúmlega hálfnum og ljóst að það eru nokkrir keppendur orðnir nokkrum fimmhundruð krónunum fátækari. En skyldi örvænting grípa um sig á botninum? Hvað taka keppendur til bragðs? Lesendur eru hvattir til þess að líta á bloggið í næstu viku til að sjá hvernig málum vindur fram.

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Þríþraut hjá Þrír

Inni þríþraut verður haldin á vegum Þrír í Laugum fimmtudaginn 19. febrúar klukkan 20.00. Keppt verður í 400m sundi, 10km hjólreiðum og 2,5km hlaupi. Sundið fer fram í innilauginni í 25m langri laug. Hjólreiðarnar fara fram á efri hæðinni í Laugum á spinning hjólunum og síðan verður hlaupið á brettum á neðri hæðinni. Hægt verður að skrá sig í afgreiðslu Lauga fyrir keppni.Nánari upplýsingar um þrautina verður að finna á vefsíðu Þrír http://www.triceland.net/ þegar nær dregur keppninni.

Heyrst hefur að þónokkrir Laugaskokkarar ætli að taka þátt í þríþrautinni að þessu sinni enda hafa margir verið að æfa sund með Þrír í vetur. Laugaskokkarar hafa átt marga fulltrúa í þessari árlegu keppni og hafa þeir jafnvel komist í verðlaunasæti. Göngudeildin mun eiga þarna nokkra kvenkyns fulltrúa í ár. Þeir hafa reyndar áhyggjur af minnkandi getu til að halda sér á floti í vatni vegna ört lækkandi BMI stuðuls en við vonum samt að þeir hafi gaman af og verði reynslunni ríkari af því að taka þátt í svona keppni.