þriðjudagur, 8. júní 2010

Laugaskokkarar á Úlfljótsvatni

Laugaskokkarar fjölmenntu sem fyrr í Úlfljótsvatnshlaupið sl. laugardag og áttu góðan hlaupadag. Enda allt sem mælir með hlaupinu, sem staðið er að af miklum myndarskap að hætti Péturs Frantzsonar. Hlaupaleiðin er bæði fjölbreytt og skemmtileg, um vegi, stíga, slóða, móa, mýrar og skurði sem á vegi manna verða við Úlfljótsvatn og í nágrannasveitum.

Tuttugu Laugaskokkarar skelltu sér austur, fimmtán þeirra til að hlaupa og fimm til að starfa við hlaupið. Um 80 manns gerðu sig tilbúna fyrir startið og fljótlega varð ljóst af búnaði þeirra að vænst var molluhlaups. Enda sól og blíða á Úlfljótsvatni og stuttbuxurnar og stuttermabolirnir allsráðandi. Auk Laugaskokkara mátti sjá þarna stóran hóp Hamarsskokkara frá Hveragerði, en síðan dreifðust þátttakendur á hina ýmsu hlaupahópa.

Hlauparar voru ræstir af stað kl. 11 og lá leiðin frá bústöðunum og niður að Úlfljótsvatni og síðan veginn meðfram skátamiðstöðinni og í átt að Þingvöllum. Fljótlega teygðist á hópnum, enda menn í hlaupinu með mismunandi markmið, ýmist að taka vel á því eða að taka langt og rólegt laugardagshlaup í góðu veðri og góðum félagsskap, en tíðindamaður Laugaskokks var einmitt á þeim buxunum.

Því var það að Helen, Baldur, Sigmar og Steinar hurfu fljótlega í rykmekki en fyrstu kílómetrana fyldust IP-liðar, HL-liðar og MV-liðar að. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og eftir ca. 4 km. hlaup kom styggð að IP-liðum og þeir gáfu í og sáust ekki meira á því ferðalagi. Bætti ekki heldur úr skák að MV-liðar voru ekki þeir þolinmóðu og skilningsríku hlustendur sem IP-liðar höfðu e.t.v. vænst og .því fór sem fór. Samhlaup HL-liða og MV-liða gekk hins vegar það vel lengst af að rætt var um það í fullri alvöru að hefja sameiningarviðræður hópanna. Þannig fylgdust hóparnir að yfir móana, niður meðfram læknum og yfir báða fjandans skurðina sem þarna eru ennþá og engum dettur í hug að brúa.

Eins og menn þekkja þá líður tíminn hratt á hlaupum og eftir gott útsýnishlaup um sveitina komu menn sólbrenndir og sveittir furðu fljótt aftur inn í Úlfljótsskála. Sumir þó fljótar en aðrir eins og gengur og þeim eru hér færðar hamingjuóskir fyrir góðan árangur. Þeim voru líka færðar verðlaunaplöntur sem þeir þágu úr höndum mótshaldara, auk hefðbundinna vinninga fyrir góðan árangur sem voru ekki af verri endanum.

Af góðum árangri Laugaskokkara ber hæst að Helen var fyrsta kona í mark Af karlpeningi Laugaskokks sást fyrst til þeirra Sigmars, Baldurs og Steinars í markinu og IP-liðar komu svo í humáttina á eftir þeim. Munda kom fyrst í mark frá sameinuðu liði MV- og HL-liða, greinilega í fantaformi eftir Mývatnsmaraþon. Laugaskokkarar komu sterkir til leiks í eldri flokkunum og þannig voru þeir Gunni Geirss. og Baldur Jónsson í 1. og 3. sæti í sínum aldursflokki.

Laugaskokkarar voru líka margir að vinna við hlaupið eins og áður sagði. Kristján sá um að menn færu ekki villur vegar í sveitinni og var jafnframt ljósmyndari hlaupsins ásamt Sumarliða. Elín, Ingólfur og Kristín mönnuðu drykkjarstöðvar ásamt fleirum og verður þeim seint fullþakkað enda hlýtt í veðri og sólríkt og mikið vökvamagn sem þar þurfti að endurnýja.

Súpan hjá Lísu sveik ekki frekar en fyrri daginn, og svolgruðu menn hana í sig eftir hlaupið, og skoluðu svo brauðinu niður með Gatorade, besta máltíðin sem flestir höfðu aflað sér þann daginn. Pétri og Lísu eru færðar bestu þakkir fyrir skemmtilegan dag í sveitinni.

Myndir frá hlaupinu: http://blafell.123.is/album/default.aspx?aid=181122

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim