föstudagur, 27. júní 2008

Skógarhlaupið á “Skógardaginn Mikla og mannabörnin sprikla”

Í ár var Skógarhlaupið um síðustu helgi, laugardaginn 21.júní. Þetta var algjörlega frábært og ég gat ekki stillt mig um að skrifa nokkur orð um upplifun mina á hlaupinu og þessari hátíð. Eins og þið sjáið þá mæli ég hiklaust með hlaupinu.

Passaði mig á því að vera með yfirlýsingar fyrirfram til öryggis ef ég gæti kannski neitt í eins og venjulega því ef maður gerir það ekki þá er ekki víst að maður geti nokkuð ybbað sig. Var búin að segja við vini mina og ættingja að ég vonaðist til þess að það kæmu engar konur í hlaupið (nema þá bara voða hægar) því mig langaði svo í verðlaunin sem ég var búin að lesa um á hlaup.is og á síðu skógardagsins mikla á heradsskogum.is, að væru útskorið listaverk frá Eik ehf. á Miðhúsum.
Í starti var samankomið starfsfólk við hlaupið sem dróg ekki dul á að þetta væri erfitt hlaup. Sum okkar hlauparana vorum nokkuð kotroskin og þóttumst ýmsa fjöruna hafa sopið í hlaupunum, aðrir voru hógværari.
Ég sá strax að þarna var komin kona sem yrði á undan mér. Maður einhvernveginn bara sér stundum svona á fólki. Klæðnaður og garmin græja gáfu til kynna að hún væri ekki byrjandi enda lýsti hún því yfir að hún væri vön að hlaupa í fjallinu heima. Ég giskaði þá á að hún væri frá Sauðárkróki en þaðan koma margar vaskar hlaupakonur ( En það reyndist ekki rétt) Einnig var þarna önnur kona sem var ekki ólikleg heldur til að vinna mig svo eiginlega strax þarna gaf ég skógarverðlaunin upp á bátinn.
Starfskona skógardagsins fór í gegn um leiðina með okkur sem var þarna uppstillt á staur Þetta sýndist mest allt upp í móti. En þar sem hlaupið endaði þar sem það byrjaði þá hlaut líka eitthvað að vera undan fæti.
Stúlka sem býr á Egilsstöðum var þarna í hlaupinu, við könnuðumst við hvor aðra úr Mývatnshlaupinu fyrir þremur vikum, hún og spurði hvort ég færi bara svona um landið og tæki þátt í hlaupum, hm ég afsakaði mig og þóttist aðallega vera að heimsækja son minn sem er nýfluttur í Fellabæ. Stelpan hafði verið í 10km á Mývatni. þá sá ég að ég hlyti að hafa verið á undan henni þar og ætti því möguleika að hafa hana í skóginum, þarna eygði ég ennþá kannski annað eða þriðja sæti.
Í fyrra höfðu verið unnin skemmdarverk á leiðarmerkingunum og hlauparar villtust út og suður í skóginum, Það hefði nú verið eitthvað fyrir rata eins og mig. En þar sem þetta var í fyrra, græddum við hlauparar á því að umsjónarmenn voru reynslunni ríkari, höfðu þeir yfirfarið allt um morguninn.
Hlaupinu var startað og fólk þaut af stað, alltaf sama startstressið, Hlaupakonan (þessi sem sagðist vön að hlaupa í fjallinu heima) tók strax forystuna og Brynja frá Hornafirði fylgdi henni þétt eftir. Annað hvort voru þær að fara allt of hratt af stað eða ég átti bara engan séns í þær. Seinni möguleikinn reyndist réttur eftir ca. einn km. voru þær horfnar og ég sá þær ekki meir í hlaupinu. Fyrstu km. sá ég engan hlaupara fyrir framan mig en það kom ekki að sök því leiðin var öll vel merkt, ýmist skikuð merkt m. gulum merkjum á trjánum, spreyjað á jörðina eða starfsmaður sem vísaði veginn. Eftir nokkra km. heyri ég þrusk fyrir aftan mig og er ekki komin stúlkan frá Mývatni Ohh. Ef hún ynnni mig líka þá væri þriðja sætið farið líka. Hún spurði hvað við værum komnar langt og ég heyrði á talandanum að hún var ekkert að reyna á sig, bara spjallaði. Ég sem var alveg að springa úr áreynslu reyndi að “fiffa lúkkið” og vera ekki sprengmóð þegar ég svaraði svo hún vissi ekki að ég væri að springa úr áreynslu því þá hefði hún örugglega spænt fram úr mér strax
Í miðju hlaupi fór ég að sjá hlaupara fyrir framan mig og af gamalli reynslu þá grunaði mig að þessum mundi ég ná. Því fyrst ég fór að sjá hann þarna hlaut ég að vera að fara aðeins hraðar en hann nú. Við drykkjarstöðina náði ég manninum en hann tók aftur forystuna í ca einn km. þá skokkaði ég fram úr honum og greinilega Mývatnsvinkona mín líka því fljótlega var hún komin alveg við öxlina á mér aftur. Þegar fór að halla undan fæti þá gat ég gefið svolítið í og brunað niður en stelpan var ábyggilega betri upp brekkurnar. En seinniparturinn er meira niður í móti þannig að ég reyndi eins og ég gat að bruna niður án þess að missa fótana. Þetta gekk vel og þegar voru ca 200m eftir í mark og virtist komin á beinu brautina þá tókst mér að fljúga á hausinn, fálmaði efti húfunni og skreið á fætur, alltaf að búast við að Mývatnsstelpan hlypi fram úr en það tókst að vera aðeins á undan og við komum á sömu mínutunni í mark.
Nú tók við að njóta annars sem í boði var á skógardaginn mikla svo sem barnaleikþátt og tónlist þar sem lag Skógadagsins mikla þar sem mannabörnin sprikla var frumflutt, gæða sér á heilsteiktu nauti, lummum, ketilkaffi og fl.góðgæti.
sem Edda frænka mín á Miðhúsum var að skera nautið sagði mér að það væru verðlaun fyrir fyrstu 3 sætin, þar aldeilis hlóp á snærið hjá minni og endaði með því að ég trommaði upp á svið og tók við þessum líka flotta verðlaunagrip sem er útskorið laufblað á koparlaufi, nú er bara að bæta sig og stefna á að næst verði það gulllauf. Allavega þakka ég kærlega fyrir mig. Mjög eftirminnilegt og skemmtilegt allt.
Mjög góð fótvissuæfing.
Ég þarf greinilega að æfa betur og bæta mig fyrir Skógahlaupið 2009 sem ég vona svo sannarlega að verði því þetta er einstaklaega skemmtilegt og krefjandi hlaup í ægifögru umhverfi- þið vitið það gerist ekki fegurra en á Austurlandi.

sunnudagur, 22. júní 2008

Suður Fimmvörðuháls

Laugardaginn 21. júní lögðum við (Frikki, Gulla, Rikki, Óli og Þórir) af stað frá Básum í Goðalandi (sem er við hliðina á Þórsmörk) áleiðis til Skóga með viðkomu á Fimmvörðuhálsi. Klukkan var rúmlega 9 að morgni, sól og hlýtt. Í fyrstu brekkunum mættum við þeim seinustu úr 180 manna hópi Útivistar sem lagði af stað frá Skógum kvöldið áður.

Fyrstu brekkurnar


Kattahryggirnir afstaðnir (iss, ekkert mál!)


Útsýni frá Foldunum í austur, Krossárjökull og Múlatungur til hægri, Rjúpnafell til vinstri


Á Morinsheiði


Útigönguhöfði. Valahnúkur til vinstri og Tindfjöll fjærst


Morinsheiði eftir Heljarkamb.


Fimm fræknu


Skaflinn fyrir ofan Fúkka

Það var farið að þykkna upp þegar við komum að Fúkka eftir tæpa 2 tíma. Framundan var skýjað og farið að kólna.


Á veginum frá Fúkka óð landslagið í skýjum. Á leiðinni niður að Skógum skiftist á með skini og skúrum. Við mættum 3 glennum, Öggu, Evu og Sigrúnu og einni sem ég veit ekki hvað heitir, þegar 6 km voru eftir en þá voru þær búnar að vera að í tæpan klukkutíma.
Við einn af óteljandi fallegum fossum í Skógá.
Skógárgil er ekki síður stórfenglegt.
Við enn einn flottan foss.


Það tognaði aðeins úr hópnum þegar nær dróg Skógum, og tímarnir voru frá 3 tímum og eitthvað í rúma 4 tíma. Þegar nálgaðist Skóga var komin grenjandi rigning, en það var tiltölulega hlýtt og logn. Við enduðum frábæran túr í heita pottinum á Hótel Skógum. Síðan var brunað inn í Bása í grill og góðar veigar.


Leiðin eins og Garmurinn mældi hana, 21,8 km.

Efnisorð:

miðvikudagur, 18. júní 2008

Ítalska Bætingahlaupið

Okkur Elínu til mikillar gleði hefur Ítalska Bætingahlaupinu okkar verið sýndur áhugi. Hér á eftir er linkurinn ( bara svo þið skráið ykkur ekki í Brekkuhlaupið mikla ;) Ef þið viljið vera okkur samferða í pælingum þá höfum við ákveðið að leggja áherslu á að auka hraðann fram að því að alvöru maraþonprógram byrjar ( sem Elín er að mixa og þýða og allt. ( Ekki slæmur hlaupafélagi) Og þá ætlum við að hlaupa 10k Eins hratt og við getum taka svo þann tíma, sem verður vonandi sá besti á hlaupaferlinum, og setja hann inn í prógrammið, upp á hvað æfingarnar eiga að vera hraðar. Voða faglegt.
Ekki fresta of lengi að skrá ykkur því hámark 7000 hlauparar komast að og við Elín þegar búnar að taka 2 þar af.
http://milanocitymarathon.gazzetta.it/
og svo eru fleiri upplýsingar hér:
http://milanocitymarathon.gazzetta.it/2007/en_programma.shtml

laugardagur, 14. júní 2008

Laugardagur til lukku


Enn og aftur mætti fríður hópur frá Laugum í Árbæjarlaug til að hlaupa í kringum Elliðavatn og upp í stígana í Heiðmörk (flestir ef ekki allir ómeiddir eftir gærdaginn)


þriðjudagur, 10. júní 2008

Heiðmörk og áskorun á þjálfarann

Frábært veður og stelpustemming í mörkinni: Bogga, Munda, Gulla, Ólöf, Arndís, Svava og undirrituð mættar ásamt Eggerti og Þóri. Hlupum öfugan hring sem er eiginlega orðin réttur núna. Við gatnamótin þar sem brekkan (bílvegurinn) byrjar sáust tvær koma hlaupandi, hélt fyrst að það væru systurnar, en það voru Sigrún og Agga alveg eins klæddar að hlaupa sína 3 slaufu (held ég) þvílíkt sprækar, lofar aldeilis góðu fyrir Laugaveginn. Efitr teyjur og rabb yfirgáfum við stelpurnar svæðið. Strákarnir voru ekki komnir til baka, hafa sennilega tekið nokkrar lykkjur eins og Sgirún og Agga. Allavega- vonandi ekki villst ;)
Við Elín vorum að enda við að skrá okkur í bætingarhlaupið okkar. Mílanó City maraþon þann 23. nóvember n.k. Hlaupið lofar flatri og hraðri braut, hérum og ýmsu fleiru spennandi. Nú er bara að finna prógram sem við föllum fyrir, jafna sig eftir hlaupaævintýri vorsins og setja svo í gang. Nú reynir á nýja þjálfarann okkar (að hluta) :) Hún byrjaði með að segja mér að hlaupa með byrjendum á næstu æfingu. Sjáum til.

Sól og sumar á Mánudegi

Frábær mæting í Laugum í gær, enda mánudgur, sól og sumar. Ég taldi 40 manns. Eftir að allir höfðu óskað Elínu til hamingju með frábært afrek (eitt hundarað kvikindi á þessum fína hraða- bara skil ekki hvernig þetta er hægt) fór Bogga galvösk með liðið í pýramídaspretti í túnunum. Allskonar vegavinnur og framkvæmdir til að þyngja æfinguna, við erum að sjálfsögðu eins og Keneyja-hlauparar, tökum öllu fagnandi sem þyngir æfingarnar. Sigruvegari æfingarinnar var Rósa Jónsd.,nýjasti byrjandinn, Sem hefur ráð undir rifi hverju (eins og hún á kyn til) og finnur liðið aftur og aftur eftir að vera stungin af ítrekað. Tapari æfingarinnar var Jóhanna Eiríksd. Sem gafst upp í Hátúninu og hljóp beina leið heim, þetta voru bara 200 metrar –gat ekki staðist það, eru ekki freistingar til að falla fyrir þeim?

laugardagur, 7. júní 2008

100 kílómetra dagur


Þegar föngulegur hópur hljóp frá Laugum voru 100 hlaupararnir búnir að vera að í tvo og hálfan tíma.


Veðrið var fínt, en spáin var ekki góð. Þegar við komum inn í Elliðaárdal fórum við að hitta 100 hlaupara og við beygðum í átt að Bryggjuhverfinu. Þar mættum við - og slógumst í för með - Elínu og Kalla.



Í Fossvogsdalnum var snúið við upp í veðrið, rigninguna og rokið. Hvílíkur dugnaður í þessum 100 hlaupurum að gera þetta 10 sinnum.



Vonandi gengur þeim öllum vel.