mánudagur, 29. september 2008

Mánudagur til mæðu

Fjölmenni var á æfingu í dag að vanda taldi ég amk 38 manns á æfingu. Farin var Brúnavegurinn í dag og var greinilegt að fólk var virkilega að taka að því. Ætla að hrósa sérstaklega nýliðunum í hópnum sem komu og sýndu það þetta eru algjörir jaxlar. Kíktum síðan aðeins í stigann rétthjá Áskirkju (er það ekki rétta nafnið?). Eftir það var haldið aftur niður í Laugardal með smá armbeygju stoppi við þvottarlaugarnar.

Á miðvikudag verður Fossvogurinn eflaust mörgum til mikillar gleði. Síðan skylst mér að Mílanóhópurinn sé að fara rúmlega 6 km rólega og veit ég að það er sjálfsagt mál að fá að fylgja þeim.

Á fimmtudag, nú er það komið á hreint að ég mun verða á fimmtudögum. Í samráði við World Class höfum við ákveðið að tileinka fimmtudögum byrjendum og þeim sem vilja koma sér að stað. Þannig ef þið þekkið einhverja sem hafa áhuga á að koma sér að stað hægt og rólega endilega látið vita af fimmtudögunum. En að sjálfsögðu hvet ég aðra líka til þess að mæta þó svo að það sé ekki fast einsog áður var að fara t.d Elliðárdalinn, en það er alltaf gaman að koma og hitta félagana og gera eitthvað annað eða bara það sem manni langar til (t.d. skoða nýjar leiðir eða prufa hópatíma). Svo er auðvitað alltaf ákveðið aðhald að mæta þegar maður hefur mælt sér mót við einhvern hóp.

Að lokum langar mig að benda á vefslóð um Rathlaup eða orienteering. En það er verið að starta þessu á Íslandi núna. Sjálf hef ég prufað svona ratleikjarhlaup erlendis og mæli ég eindregið með að prufa þetta því þarna reynir bæði á að geta lesið í kort, skynsemi, hlaup o.fl auk þess að það er alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt.
http://www.rathlaup.is/

Kveðja
Bogga

miðvikudagur, 24. september 2008

Fimmtudagsréttur

Á fyrsta aðalfundi Laugaskokks lofaði einhver uppí ermarnar á Gullu og Mundu að þær kæmu fram með meinhollar hlaupauppskriftir á fimmudögum. Nú líður að fimmtudegi svo að hér er fyrsta sending frá þeim.


Þetta er indónesískur lambkjötsréttur. Hann er fyrir 6 og hver skammtur inniheldur 393 hitaeiningar og 14 g af fitu, þar af 9 g ómettaða.


800-1000g beinlaust lambakjöt í bitum
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, pressað
matarolía til steikingar
1 dós tómatsósa (tomato sauce, 400g)
1 lítil dós tómatmauk
1,25 l vatn
2 msk púðursykur
2 tsk sterkt karrý
1/2 til 1 tsk salt
1 kjúklingateningur
2 epli, afhýdd og í bitum
1 appelsína, í þunnum sneiðum með berki
1,25 dl rúsínur


1. Hitið olíuna og brúnið kjötið, lauk og hvítlauk í potti

2. Setjið allt sem er í réttinum út í pottinn og sjóðið við vægan hita í um 45 mínútur eða þar til kjötið er soðið og gott bragð komið úr ávöxtunum í sósuna. Hrærið af og til.

3. Kryddið eftir smekk. 

Verði ykkur að góðu.

mánudagur, 22. september 2008

Laugaskokk NÞ

Áhvað að setja inn nokkrar línur frá Laugaskokks útibúinu í Norðurþingi. Við sættum okkur við og munum styðja af bestu getu nýja stjórn Laugaskokks. Okkur sveið að vísa aðeins að koma ekki neinum héðan frá að í stjórnina en það gengur bara betur næst. :) Við ráðum okkur að mestu sjálf hérna hvort eð er. Hlaupum allt of langt, allt of mikið, allt of hratt og allt of oft...

Hópurinn með laugina í baksýn
En sem sagt við erum en bara 2 í hópnum hérna, þrátt fyrir glæsilega tilburði og öfundsverðan hlaupastíl niður á þjóðvegi þá hefur ekki en tekist að glebja bændur og búalið í hópinn. En hver veit, hver veit hvað sveitungarnir gera eftir að hlauparaparið flytur lögheimilið í Kelduhverfið og fær póstáritunina "671 Kópasker". Þá er ég viss um að NÞ útibúinu vaxi ásmegin og næsta sumar verði hér (Laugaskokks) hlauparar um alla vegi ;) Annars eru bændur sunnan heiða alltaf velkomnir í heimsókn hingað norður eftir. Hér liggja hlaupaleiðir til allra átta og utanvegabrautirnar sérstaklega heillandi!


Látum fylgja með nokkrar myndir frá æfingum haustsins......

úr vesturdal og típísk laugaskokks teygja :)






sunnudagur, 21. september 2008

Mosóæfing og hádegissamsæti.

Mættum í WC í Mosó í gærmorgunn. Lögðum öll saman af stað og e. nokkra km. skildu leiðir, Mílanóar+Kalli fórum upp í Molfellsdal (veit ekki hvað hin gerðu, t.d. þess vegan þarf fleiri penna á síðuna) vel uppfyrir Gljúfrastein snnérum þar við á 12km. Og nú átti að bæta í og hlaupa seinni helminginn hraðar og enda á hálfmarþontempói. Byrjaði voða vel niður brekku og tókst í 2-3km. svo búið spil og ekki var farið hraðar seinni helming. Heldur streðað móti roki og stundum rigninu. M-liðið var á undan mér en ég hef grun um að þau hafi ekki heldur haldði sjó.
Eftir pott bauð þjálfarinn okkur í Katlagil í Mosfellsdal. Það er yndisleg sveit og kósí gamalt hús. Bogga er búin að hafa í huga lengi að kjósa stjórn Laugaskokks. Þarna tókst það og ef ég tók rétt eftri þá eru stjórnarmenn: Sigrún, Sævar, Bjargey ritari, Davíð gjaldkeri og Ívar formaður. Það er ekki vafi að stjórnin mun standa sig. Ef ekki gengur að tjónka við formannin þá þekkiði vana mannekju sem þið megið leita til.
Annað mál á dagskrá var heimasíðan okkar. Það væri synd að segja að við værum dugleg að skrifa á hana. Fólk vill gjarnan hafa síðuna lifandi, helst einver skrif á hverjum degi. Bogga ætlar að endurnýja sinn lykil svo kannski eigum við von á línum frá þjálfaranum okkar á næstunni. Einnig kom frábær hugmynd um að Munda kæmi með fimmtudagsfréttir. Ég held að þær stöllur Gulla og Munda hafi ákveðið að verða við þessari uppástungu gjaldkerans, ekki verra að hafa gjaldkeran góðan. Þá er bara að hlakka til fimmtudagsins. Það er mikilvægt að á síðunni okkar sé jákvæður tónn og alveg er bannað að skrifa nafnlausar spælingar.
Meistaramót Ármanns sem var frestað til mánudags verður á morgunn 5000m. kv. Og 10.000kk. á Laugardalsvellinum kl 18.30kv. og 19.00kk. upplagt tækifæri til að taka stöðuna á sér og taka almennilega á.
Takk kærlega fyrir gærdaginn.
ps. Var loksins að tengjast netinu og sjá það er komin tjáning frá þjálfaranum.

Hlaupið frá Mosó og Brunch

Jæja þá er komin loksins tími á að þjálfarinn tjái sig hérna aðeins.
En fyrir þá sem ekki komu á laugardagsæfingu þá var hlaupið frá Mosó. En góð mæting var og var í upphafi hlaups ákveðið að fara sama hring og í sumar sem að er um 13.5 km þar sem við hlupum í kringum Helgafell, framhjá kartöflugörðunum, fengum m.a. að stökkva yfir lækjarsprænu á leiðinni og bleyta skóna örlítið á leiðinni en það er bara gaman.
Eftir sturtu eða pottaferð var haldið í Katlagil þar sem hver lagði eitthvað til í sameiginlegt brunch. Eftir að hafa raðað ofaní sig allkyns kræsingum var ákveðið að negla það niður að búa til stjórn Laugaskokks. En í stjórn Laugaskokks eru:
Formaður: Ívar
Gjaldkeri: Davíð
Ritari: Bjargey
Meðstjórnendur: Sigrún Erlends og Sævar

Flottur hópur að leggja í hann á laugardagsmorgni í ágúst.

sunnudagur, 14. september 2008

Hugleiðingar eftir laugardaginn 13. September.

Fjölmenn Laugaskokksæfing.
Ég taldi ca 50 manns. Því fleiri því meiri fjölbreytni og meiri möguleiki að finna hlaupafélaga við hæfi. Við lögðum af stað öll saman (held ég ) og stefndum á Rokkí. Síðan skiptist hópurinn eftir hraða og vegalengd sem fólk ætlaði að fara.

Mílanóskólinn.
Á Stundaskránni var 26km. úthaldsæfing. Elín stakk uppá að fara Rokkí og kíkja svo á 6tíma hlauparana í Elliðarárhólmanum. Ég fann strax á Skólavörðustígnum að þessi æfing mundi ekki verða hrist fram úr erminni. Eftir að hafa blásið hjá Leifi Eiríks. virtist þetta léttara og ég hélt í liðið í 1-2km. Þá sigu þau fram úr(ef það erþá hægt að tala um að síga framúr) Sævar, Elín, Davíð, Ólöf og Helgi (Summi var þá þegar horfinn enda hann mun hraðari) þegar við vorum komin í Fossvoginn var ákv. að fara hring í Kópavogi og svo í Jónshlaupið. Fljótlega missti ég sjónar af liðinu og á einum göngustígsgatanamótum ákvað ég að fara styðstu leið í hólmann svo ég næði allavega einum hring með okkar fólki. Þarna var ég orðin þreytt og komin á það stig að það væri bara mjög gott hjá mér að labba allar brekkur.

Jónshlaupið.
Í hómanum var hörkustemming, þótt hefði verið meira gaman að fleiri hefðu tekið þátt í hlaupinu. Hitti Gunnlaug og flélaga við tjaldið, Hann sagði að Ívar væri sprækur. Ég lagði af stað öfugan hring og fljótlega hitti ég minn mann sem var búinn að hlaupa í tvo tíma og átti eftir fjóra. Ekki var nú sérstaklega sprækt í honum hljóðið. Trausti búinn að stinga hann af og Ingólfur líka á undan. Agga var þarna og bar af, virkaði sterk og létt. Eftir að hafa hlaupið með einn og hálfan hring var minni æfingu lokið. Fékk skutl heim í Laugar hjá Berki. Hann var í voða flottu rauðu vesti sem þeir Ásgeir fengu fyrir að hafa lokið Mont Blanc hlaupinu (getum kallað það Montvesti) Gaman að hitta hann og fá smá viðbót við ferðasöguna þeirra.
Mætti svo aftur rúmum klukkutíma fyrir lok Jónshlaupsins. Staðan var svipuð nema Trausti hafði hætt eftir eitt maraþon. Seigur strákurinn svona viku eftir Járnkarlinn.
Ívar var orðinn fyrstur í 6 tímunum og Agga enn sterkleg. Þau Ívar með rúml.67km. og Agga með rúml.58km. stóðu uppi sem sigurvegarar í Jónshlaupinu (6 tímunum) í ár. Ég var mjög stolt af okkar fólki þarna. Auk sigurvegarana og Trausta (6t) fóru Ingóllfur (sem hafði vit á því að fara langa æfingu í hlaupinu)tæpl.36km. og Gunni Geirs fór rúml. 30.5km. Flottir karlar. Sjá nánnar í skilaboðaskjóðunni hans Gunnlaugs: http://www.gajul.blogspot.com/ þar eru líka flottar myndir af þátttakendum og ýmsar tölulegar upplýsingar um hvað við eigum góða hlaupara. (Sigurvegararnir bera af voða krúttleg með verðlaunagripina sína).

Tökum þátt í hlaupaviðburðum.
Við áttum því láni að Fagna að hafa Pétur Franzson hlaupaleiðtoga í mörg ár, Að öðrum ólöstuðum var hann yfirsnillingur í að drífa fólk með í ýmsa hlaupaviðburði. Nú þegar hann er öðrum hnöppum að hneppa verðum við að vera dugleg að halda stemmingunni og drífa okkur með, halda áfram að gera ýmsar skemmtilegar hlaupagloríur.
Ég dauðsá eftir að hafa ekki skráð mig í hlaupið 3-tímana og notað þessa flottu þjónustu sem var samkvæmisttjaldið hans Jóa var og trakteringar til hægri og vinstri. Þá hefði ég bæði styrkt hlaupið með minni táttöku og fengið stuðning á erfiðri æfingu. En það er gott að vera vitur eftirá.
Þetta er orðið þannig að við erum farin að hafa áhrif með því að taka ekki þátt. Það getur verið spurning um að viðkomandi atburður falli niður vegna þess að ekki fæst næg þátttaka. Tökum þátt í því sem er í boði bæði til stuðnings okkur sjálfum og Hlaupunum.
Haustlita hlaupið í Reykhóasveitinni og Jónshlaupið voru bæði mjög skemmtilegir hlaupaviðburðir með allt of fáa þátttakendur. En það er of seint að iðrast eftir dauðann, og við sem höfðum ekki vit á að notfæra okkur 3 tíma hlaupið og fyrir ykkur sem mistuð af Reykhólasveitnni, Flókalundur-Bjarkalundur! Nú er tækifæri til að bæta um betur. Það er:
Meistaramót Íslands í boði frjálsíþróttadeildar Ármanns. Miðvikudaginn n.k. þ. 17. sept. 5000m. kv.kl 18.30 og 10000m. kk kl 19. Ekki spurning um að nýta sér þetta, keppa og ná sínu besta fyrir þá sem eru í því stuði, eða sem bestu tempoæfingu sem hægt er að fá. Eva vakti athygli mína á þessu í gær og eftir að hafa nagað mig í handbökin yfir því að hafa ekki farið í 3-tíma hlaupið ákvað ég að láta þetta ekki fram hjá mér fara og vera með. Ég þarf aðeins að mixa í Mílanóprógramminu en vona að ég fái leyfi hjá yfirkennaranum til þess.
Í fyrra var Eva ein á brautinni í þessu móti og aðeins fimm karlar í 10k. þetta nær náttúrulega engri átt. Í þessari uppsveiflu sem er í hlaupunum. “Kæru systur, kæru skystur” mæturm allar á á meistaramótið. Verum nú í fyrsta skipti fleiri en strákarnir. Linkurinn á mótið er: http://fri.is/pages/articles6/motaskra/
Kær kveðja. Jóhanna Eiríksd. Íslandmeistari kv. í aldurfl. 40-49 ára árið 2006

miðvikudagur, 10. september 2008

Stórir miðvikudagar.

Alltaf vel mætt á miðvikudögum. Í dag taldi ég 40 manns. Í boði var Fossvogur og 6 rólegir m. Mílanóum. Elín stjórnaði og tókst það svo vel að það var bara eins og maður hefði skroppið fyrir horn þegar æfingin var búin. Ekki spilltu fyrir pilsklæddu skotarnir og fótboltaáhorfendur í feikna stuði. Maggi Sig, Árni og Þórir hlupu með okkur og nú bíðum við bara eftir að þeir skrái sig í M-maraþonið. Það eru 74 dagar til stefnu svo tími er ekki vandamálið. Helgi kom í leitirnar og að sjálfsögðu búinn að standa sig og hlaupa gærdags-sprettina, þóttist hafa getað alla á tilsettum hraða. Davíð þorði ekki annað en að mæta í dag því í gær missti hann af hópnum og ekki nóg með að hann þyrfti að taka refsispretti á bretti heldur fékk hann refsiþjálfara í þokkabót. En allir sprækir á endurnæringaræfingu í dag og fínar styrktaræfingar uppi á eftir.
Gott að heyra frá landvörðunum (um að gera Helga að nýta sér hlaupasnillinga eins og þinn mann til að læra eitthvað af) fyrir þau og aðra sem vilja taka á því á morgunn þá er 7km á 10km-keppnishraða, ca 2,5 upphitun+niðurskokk.
Sjáumst á morgunn

mánudagur, 8. september 2008

Nýir Mílanófarar og Hvar var Helgi?

Eftir því sem mér skildist á athugasemdinni frá Helgu þá eru þau Norðanparið okkar hún og Stebbi búin að skrá sig í Mílanó. Ekki slæmur liðsauki þar.Velkomin í Mílanóstemminguna. Bara svo þið vitið þá eru 1000m sprettir á morgunn fjórir á ca 10km.keppnishraða með 3 mín í hvíld á milli. Helga þú getur allavega tekið þessa æfingu til handagagns. Ég reikna með að Stebbi fari sínar eigin leiðir í æfingarmálum eins og hinir hröðustu sem ég þekki.
Vel mætt á laugaskokksæfingu í dag og ýmislegt í boði. Mílanóar buðu uppá 13km. jafnt. Nokkrir þóttust ætla með en við vorum 7 allt Mílanóar sem fóru æfinguna, Hvert fóru Bogga og co? Hraðinn á mér átti að vera á ca 5.25-5.30 tempói og var það nokkurnvegin. Þau hin fóru ör-ör lítið hraðar. Upp við brúna í Garavarvogi var drykkjarstopp. Þar dúkkaði upp Ingólfur Sveinsson og spurði hvort við værum bara í pásu. Við hlaupum svo í humátt á eftir hópnum og pældum í hvernig við gætum stutt við nokkur almenningshlaup sem eru enn fámenn. Þetta eru eru mjög spennandi hlaup og eiga sannarlega skilið að eflast. Þetta eru t.d. Skógarhlaupið, Hausthlaupið í Reykhóasveit og Kötluhlaupið. Hitt umræðuefnið var áhugi okkar á heilsueflingu. Í smíðum er grein um hvernig hægt er að bæta heilsu og líðan skólabarna með því að efla skólaheilsugæslu. Þar erum við ekki síst með í huga of þungu skólabörnin sem þurfa stuðning. Þetta ræddum við í nokkra kílómetra án þess að slá hið minnsta af hraðanum.
Sem sagt afar ánægð með æfinguna. Þið heðuð átt að sjá drillurnar hjá okkur á eftir á grasinu f. utan Laugar. Það er ekki fyrir spéhrædda að taka þátt.
Þar sem það er 100% mætingarskylda á æfingar hjá Mílanó… þá er spurnig dagsins Hvar var Helgi??

sunnudagur, 7. september 2008

Selfoss margar bætingar + Kaffihlaðborð og huggulegheit hjá Pétri og Lísu.

Mílanófarar skiptu sér í dag. Sumir voru í Laugum og tóku nákvæmlega rétta æfingu, frétti að þeim hefði gengið ótrúlega vel og Frikki hefði hlaupið á þvílíkum hraða í lokin. Aðrir kepptu á fullu blasti á Selfossi. Einn lá í þursabitskasti. Ég reyndi að hafa æfinguna rétta og fara hlaupið vaxandi tókst það sæmilega.
Flestir voru mjög ánægðir með sig á Selfossi og voru að bæta sig eða “jafna sig”. Ólöf sem var í sínu öðru 10km keppnishlaupi og hljóp á 46 mín. Ótrúlega gaman að fylgjast með henni bruna áfram á hlaupabrautinni. Munda var líka að bæta sig í 10 og kom hlaupandi á móti okkur til að hvetja okkur og tjá gleði sína v. þessa. Fjóla vinkona voða ánægð með sína bætingu, eins og Ívar sem var að bæta sig í hálfu e.11 ára hlaupaferil. Bogga aldeilis flott og ánægð með þvílíka bætingu í hálfu. Davíð var að “jafna sig” í hálfu. Þeir sem ég gleymi endilega skrifiði ykkkur og bætingarnar ykkar í Athugasemir hér fyrir neðan.
Eftir Verðlaunaafhendingu og heitann pott þáðum við heimboð á Úlfljótsvatn, veitingar +(afmælisterta) og frábærar móttökur eins og alltaf á þeim bæ. Takk kærlega fyrir mig.

föstudagur, 5. september 2008

Saumaklúbbur og endurnæring.

Takk fyrir síðast saumaklúbbssystur þetta var mjög gaman eins og alltaf. Hnetukakan hennar Eddu var Geggjuðust af öllu geggjuðu, verð að fá uppskriftina, verst fyrir Helga að hún kláraðist alveg, enginn afgangur handa honum. Berglind var með frábært innlegg, boxer, G-strengi o.fl. Nú er bara eftir að sjá hverjir fá eitthvað fallegt frá sínum konum fljótlega.

Endurnæringar-æfing með styrktarívafi.
Ég Var að tala við Fjólu vinkonu og segja henni að allir væru betri en ég í Mílanó-liðinu og hún sagði: ” heppin þá græðir þú mest”. Einmit eins og talað út frá mínu hjarta.
Ég fékk að stjórna æfingunni í dag,ekkert smá stolt. Sýndi þeim Reykjavíkur-æskuslóðir og gæsluvöllinn minn. Hressandi eftir tempóæfinguna í gær. Ég þurfti aldeilis að hafa fyrir henni en var svo stálheppin að vera ekki með neitt mælitæki, þannig að ég sá ekki hvort og hversu mikið of hægt ég hljóp. Okkur finnst svo gaman hjá okkur og við svo æðisleg að Glennurnar virðast hógværar og hlédrægar í þeim samanburði.
Selfoss á morgunn þá eru vaxandi 22km. Ég ætla að nota keppnishlaupið til að gera æfinguna skemmtilegri og vonandi léttari.

miðvikudagur, 3. september 2008

Mílanó-Bætingahlaupið slær í gegn

Snemmsumars ákváðum við Elín að finna gott hausthlaup og bæta tímann okkar í maraþoni. Vera í góðu formi við upphaf prógrams og æfa faglega frá 1.degi í prógrammi.
Í dag var þriðji dagur í prógrammi og ég get svo svarið það að ég hef getað allar æfingarnar 100% en á morgunn er tempóæfing sem ég er dauðhrædd við það eru 6.5km á 10km hraða sem er 4.40 hjá mér. En ég skal hafa það af. Ef ein æfing klikkar þá er hlaupið ónýtt.
Til að gera langa sögu stutta(þarf að fara snemma að sofa til að safna kröftum fyrir æfinguna á morgunn, nú sitja maraþonæfingar fyrir ÖLLU öðru í lífinu) þá erum við orðin 10-13 sem erum ákveðin í að fara og ég veit um 8 sem eru búnir að skrá sig. Ég var að enda við að skrá vin okkar sem ætlar að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Mjög gaman að fá hann með, vonandi nær hann að mæta sem oftast með okkur á æfingar því það er ótrúlega góður mórall í Mílanóhópnum. Ég held að prógrammið fólkið bak við það sé að gefa okkur gott pepp.
Ég ætlaði að skrifa um Haust-hlaupið okkar Ingólfs Sveinssonar og Gunnlaugs Júlíussonar ásamt Ívari og Stefáni Viðari. Það var meiriháttar ævintýri. En verð að bíða með það og fara að sofa fyrir morgunnæfinguna. Bendi ykkur bara á síðuna hans Gunnlaug í bili. Þar eru bæði myndi og skemmtileg frásögn.