sunnudagur, 14. febrúar 2010

Seinni hálfleikur Hálfleiðara

Déskoti eru Laugaskokkarar orðnir margir varð einhverjum að orði. Fjölmenni var saman komið í teríunni í Laugum að morgni laugardags og beið þess að leiðarstjóri gerði upp hug sinn. Loks gall úrskurðinn við; Fossvogurinn og lengja vestur eftir. Leiðarstjóri að þessu sinni Ívar sjálfur Adolfsson, nýkominn heim brúnn og sællegur úr kuldanum í Florida. Hátt á fimmta tug hlaupara skeiðaði frá Laugum, flestir haldnir einbeittum hlaupavilja þrátt fyrir rigninguna, sem þó var sem betur fer lóðrétt að þessu sinni. Ljóst varð fljótlega af umræðum manna að þeir ætluðu mislangt og hratt yfir, einhverjir ætluðu að beygja við Öskjuhlíð, en flestir ætluðu vestur úr. Ýmist að Eiðisgranda en þó heyrðist á þeim allra hörðustu að þeir hygðust fara út að golfvelli og meðfram sjónum til baka í Laugar, 25 km. leið. Enda Laugaskokkurum einboðið á laugardögum að fara 20 km. hið minnsta ellegar að komast í kladda formanns.

Þegar út á maraþonleið Félags maraþonhlaupara var komið rifjaðist það upp fyrir Hálfleiðurum þegar þeir hlupu hálfa leiðina í október sem leið. Síðan þá hefur margt á daga HL-liða drifið og þeir farið út og suður og einn norður. Flestir HL-liða hafa hlaupið sem almennir Laugaskokkarar á tímabilinu, en þeir urðu einnig IP-liðum góður liðsauki, sem og LH-liðum, auk þess sem einn þeirra telst nú orðinn Sjúkra-liði. Loks er bjartasta von okkar til langs tíma orðinn mála-liði í einum fremsta hlaupahópi Þingeyjarsýslna og er hópnum hér með óskað til hamingju með öflugan liðsauka. Eins dauði er annars brauð í þeim efnum sem öðrum.

Hálfleiðarar hafa flestir orðið heldur værukærari yfir svartasta skammdegið og leyft sjálfum sér að njóta vafans ef minnsti vafi hefur komið upp um að hlaupafært sé, ýmist sökum hálku, myrkurs, almennra leiðinda eða einhvers þaðan af verra. Af þeim sökum sitja bæði jólasteikin og konfektið enn sem fastast á Hálfleiðurum og líta ekki út fyrir að ætla að gefa sig á næstunni. Þetta gæti orðið langt stríð þar sem báðir aðilar hafa komið sér þægilega fyrir í skotgröfum að baki víglínunnar og bíða þar sallarólegir.

En eins og allir alvöru herforingjar vita er bara ein leið út úr slíkri stöðu. Leiftursókn. Þess vegna var það fastmælum bundið í laugardagshlaupinu að safna saman þeim HL-liðum sem rólfærir væru með það að leiðarljósi að skottast þetta hinn helming leiðarinnar í apríl þegar hið margrómaða vorhlaup Félags maraþonhlaupara fer fram.

Að sjálfsögðu verður sem fyrr notast við prógramm frá Sumarliða, sem hentar jafnt fyrir vana HL-liða sem ný-liða. Prógrammið verður sem fyrr miðað við að leiðin sé hlaupin á tímanum 1:35 til 1:45. Ný-liðar geta tilkynnt þátttöku í leiftursókninni með því að nota kommentin hér fyrir neðan og eins má ræða við þá Hálfleiðara holdi klædda á einhverri æfingunni. Eins og Sumarliða er siður gerir prógrammið góða ráð fyrir 6 æfingum í viku, alltaf frí á sunnudögum. Hefðbundið er þó að Hálfleiðarar skrópi á annaðhvort þriðjudags- eða föstudagsæfingum og æfi því 5 sinnum í viku.

Og nú er bara að sjá hvernig seinni hálfleikurinn gengur. Og hverjir bætast í hópinn. Og hvort málaliðinn kemur suður til að veita okkur andlegan stuðning á leiðinni góðu í apríl.

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Er hægt að vera part-time HL-liði?

14. febrúar 2010 kl. 18:56  
Blogger Jóhanna sagði...

Þetta líst mér á. Ég verð með svo framalega sem þið ábyrgist undir 1.45 í hálfu í vor.

Hvað þýðir LH?

15. febrúar 2010 kl. 13:57  
Blogger Hálfleiðarar sagði...

HL-liðar sem verða voða latir verða LH-liðar, sem einhverjir vilja meina að standi fyrir LetiHaugar. Part-time hálfleiðarar þekkjast frá fyrri tíð og eru velkomnir í hópinn, prógrammið góða látum við liggja frammi í teríu fyrir æfingu í dag.

15. febrúar 2010 kl. 15:40  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Prógramið er að detta inná dagbókina okkar góðu.

16. febrúar 2010 kl. 12:57  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim