miðvikudagur, 25. mars 2009

Auðragagnagleði / staðfesta komu með greiðslu kostnaðar

Sæl öll, núna eru 49 manns búnir að skrá sig á gleðina á laugardaginn. Það verður semsé húsfyllir og bullandi stemming.

Við ætlum að biðja ykkur um að staðfesta komu ykkar með því að greiða kostnaðinn, kr. 2.500 pr. mann inn á reikning 515-26-5649 kt. 230165-5649 og senda kvittun í tölvupósti á behh@simnet.is (Baldur).

Greiðslan þarf að hafa borist fyrir kl. 13:00 fimmtudaginn 26. mars, en þá verður maturinn pantaður. Það er því mjög mikilvægt að búið sé að ganga frá greiðslu fyrir þennan tíma.

Maturinn kemur frá NINGS og er samansettur af:
Djúpsteiktar rækjur með súrsætri sósu
Svínakjöt með drekasósu
Steiktar eggjanúðlur með grænmeti og kjúklingi
Snöggsteikt lambakjöt með grænmeti í ostrusósu

Ef einhverjir sem ekki hafa skráð sig en langar að koma, drífið í að senda Kristni póst um að þeir ætli að koma og greiða kostnaðinn inn á reikninginn hans Baldurs.

Kveðja: Sibba, Baldur og Kristinn

p.s. skemmtiatriði óskast ......

miðvikudagur, 18. mars 2009

Ný keppni hjá Göngudeild - Sleppt og Haldið '09

Þrátt fyrir að skammt sé liðið frá lokum Biggest Looser keppninnar þá er Göngudeildin að fara af stað með nýja keppni og nú geta fleiri verið með. Ástæðan fyrir nýju keppninni er ósköp einföld. Þegar keppendur sluppu úr sveltinu varð fjandinn laus og þegar ástandið var orðið þannig að það var búið að kalla út aukavakt hjá Gunnars majonesi og Nóa Síríus til að anna eftirspurn, þá var kominn tími til að hemja átið. Keppendur voru samt sammála um að þeir vildu ekki fara í harða megrunarkeppni aftur heldur finna eitthvað fyrirkomulag þar sem keppendur gætu ýmist verið að tapa fyrirfram ákveðnum kílóum eða halda fengnum hlut. Einnig fannst okkur sem þetta fyrirkomulag gæti freistað fleiri, þannig að við myndum fá fleiri í keppnina og jafnvel náð fleiri liðum en síðast.

Það var erfitt að finna keppnisfyrirkomulag sem er spennandi fyrir alla en grunnurinn er sá að keppendur setja sér markmið og keppnin felst í því að vera sem næst markmiðinu og frávik mæld sem hlutfall af þyngd. Sá keppandi sem er með lægsta frávikshlutfallið sigrar.

Keppnin nær yfir átta vikur, þar sem vigtað er formlega á tveggja vikna fresti. Þannig verða til fjögur úrslit sem gera okkur kleift að raða í sæti og safna sektarfé sem er notað í verðlaun. Sektarreglan er sú að þeir keppendur sem lenda í neðri helmingi úrslitatöflunnar í hverri vigtun þurfa að greiða 500 ISK. Þetta gæti gerst fjórum sinnum meðan á keppninni stendur.

Keppendur þurfa að ákveða hvert er átta vikna markmiðið. Þetta markmið er ýmist að léttast um tiltekinn fjölda kg. eða halda sér í tiltekinni þyngd. Okkur finnst ómóralskt að leyfa að keppendur ætli sér að þyngjast !!!

Þeir Laugaskokkarar sem vilja taka þátt í keppnni þurfa að senda tölvupóst á ritara keppninnar, hennar Hrafnhildar á hrafnhildurt@lv.is, helst um helgina, eða þann 21. mars nk. þar sem þið gefið upp BMI (body mass index) stuðulinn ykkar (notaður til að raða í lið) og síðan vigtarmarkmið fyrir vigtanir sem verða þann. 4. apríl, 18. apríl, 2. maí og síðan verða úrslit þann 16. maí svo keppendur geta sleppt sér daginn eftir á þjóðhátíðardegi Norðmanna !!!

Við höldum að þetta geti verið skemmtilegur leikur til að halda aftur af okkur við eldavélina og ísskápinn. Vonandi vilja sem flestir vera með :-)

mánudagur, 16. mars 2009

Auðragatnagleði Laugaskokkarans

28. mars 2009, kl. 20:00 í Gömlu borgum

Sjá auglýsingu á vefslóðinni: http://sibba.is/laugaskokk/28mars2009.pdf

Eftir Flóahlaup, hlaðborð, akstur til höfuðborgarinnar, sturtu með tilheyrandi snyrtingu og almennri yfirhalningu er komið að langþráðri stund í lífi allra Laugaskokkara, þe. Auðragatnagleðinnar, en það þýðir að allir Laugaskokkarar (líka þeir sem ekki komast í Flóahlaupið) hittast og gleðjast yfir að núna eru göturnar orðnar auðar og því von á enn meiri skemmtun í hlaupum næstu mánuða. Við ætlum að hittast kl. 20:00 í Gömlu borgum í Kópavogi (fyrir neðan Kópavogskirkjuna). Sjá nákvæmt kort í auglýsingunni.

Áætlaður kostnaður fyrir húsnæði og mat er kr. 2.500 (verður staðfest eftir að skráningu lýkur). Drykki verða Laugaskokkarar að mæta sjálfir með en áætlað er að vera í Gömlu borgum til ca. miðnættis en þá verður gengið yfir á barinn Catalínu í Hamraborginni en þar er hægt að dansa við lifandi tónlist fram á morgun.

Skráning er til 22. mars hjá Kristni á netfanginu krishrei@simnet.is. Taktu fram fjölda, þe. getur tekið gesti með þér.

Auðnagatnaskipulagsgleðihópur Laugaskokks
Baldur, Kristinn og Sibba


p.s. Skemmtiatriði og hljóðfæraleikarar óskast, einnig einhver til að stýra söng og búa til litla söngbók .... sendið póst á Kristinn eða meldið ykkur hér inn með athugasemdum.

p.s. Þið megið endilega tjá ykkur hér í athugasemdunum um hvernig þetta leggst í ykkur .... koma með ráðleggingar og hugmyndir, þetta nefnilega er okkar kvöld og við ætlum öll að skemmta okkur vel í frábærum félagsskap hvers annars. Ef við leggjumst öll á eitt við undirbúning þá munum við örugglega eignast skemmtilegt minningarbrot til að gleðjast yfir.


Flóahlaupið - 28. mars 2009. Allir Laugaskokkarar að mæta !!!!

Flóahlaup, 28. mars 2009

Laugaskokkarar ætla að flykkja liði á Flóahlaup UMF Samhygðar, 28. mars kl. 14 frá Félagslundi, Gaulverjarbæjarhreppi og stefna að besta tímanum sínum til þessa í 10 km. hlaupi.

Nú er um að gera að fara að hópa sig saman í bíla til að komast á staðinn. Skráning fer fram á staðnum og er skráningargjaldið kr. 1.500 með inniföldu flottu hlaðborði þeirra Flóamanna.

Hægt er að skrifa athugasemdir hér inn. Melda sig í hlaupið / auglýsa laus pláss í bílnum / auglýsa eftir sæti í bíl... tilvalið að deila eldneytiskostnaðinum niður.

fimmtudagur, 12. mars 2009

Poweraid er æði.

Í kvöld var síðastapoweraidið í þessari Vetrar-hlaupa-séríu. Fjöldi Laugaskokkara var á staðnum. Ég veit ekki um gengi allra en gaman væri ef þeir segðu það í nokkrum orðum í athugasemdum. Ég veit að ég hljóp á 51 eitthvað, hélt 2. sætinu í aldurflokknum, bara verð að fara partíið annað kvöld að taka á móti verðlaununum;) Það eru margir aðrir í sömu stöðu: Þórólfur, Eva, Trausti, Gunnar Geirs, Ingólfur Sveinsson. og örugglega margir fleiri. Endilega setjið það í aths.
Sigurvegararnir voru Göngudeildin, þrír af þeim að bæta sig. um nokkrar mínútur hver, geri aðrir betur. Rögnvaldur var líka mjög ánægður hlóp 2 mínútum hraðar en hann hafði ætlað sér.
Aðstæður voru allar hinar bestu, smá vindur að NA = á móti í byrjun og í lokin. og smá hlákublettir, Allavega 15 sekúdur ;)

miðvikudagur, 4. mars 2009

Vika 8 – Úrslitastundin

Það voru einbeittir keppendur sem mættu snemma á æfingu í dag því nú var að duga eða drepast. Það voru allir inni nema Pétur og Hrafnhildur sem héldu út í frostið til að léttast. Fyrr um daginn höfðu keppendur farið að huga að tæknilegri útfærslu á því að sleppa við vigtun en hönnuður keppninnar var fljótur að senda póst á keppendur og benda á að ekki dygði að nota tölur síðustu viku því nú væri upphafsþyngdin notuð til grundvallar svo það væri affarasælast að mæta í vigtun. Svitinn bogaði af þeim sem voru í salnum og sást til Eggerts og Aðalsteins þar sem þeir læddust í gufu til að reyna að kreista fram síðustu svitadropana á meðan Gunnhildur, Kolla og Stefanía hömuðust á brettunum eins og þær væru göngunum í Kringlunni rétt fyrir útsölulok.

Ólíkt fyrri vikum þá var blásið til verðlaunahátíðar í Laugacafé og var mættur fjöldi Laugaskokkara til að fylgjast með verðlaunaafhendingunni. Spennan lá í loftinu en samt var fljótur að berast orðrómurinn úr kvennaklefanum að Stefanía hefði verið búin að léttast svo mikið að venjulega vigtin hefði ekki dugað heldur hefði þurft að sækja bréfavigt til að geta náð tölu hjá henni. Eggert var sestur með tölvuna og tók við tölum um leið og þær bárust og fyllti út eyðublað fyrir úrslitin. Hann tók reyndar til máls í byrjun og bauð gesti velkomna og sagði keppendur klökka yfir mætingu Laugaskokkara. Það væri gaman að tilheyra svona góðum hóp, en útskýrði jafnframt að Göngudeildin hefði séð það fljótt að ekki dygði að keppa í hlaupum heldur hefði hún mesta möguleika í léttunarkeppni sem þessari. Nú væri komið að lokum og vildu keppendur minnast þess með veglegum hætti með verðlaunaafhendingu og kökum. Ekki nóg með það heldur rifjaði hann upp að meiningin hefði verið að fá forsetann og frú til að afhenda verðlaun og kynnti á sviðið Ólaf og Dorrit okkar Laugaskokkara, nefnilega Ívar og Jóhönnu.

Ívar tilkynnti fyrst um úrslitin í liðakeppninni, en þar sigruðu Bláberjabökurnar með minnsta mun 28,3% gegn 27,75% eða 0,57%. Tæpara gat það varla orðið. Jóhanna afhenti sigurliðinu gullpening og Kirsuberin fengu silfur. Þá var komið að einstaklingskeppninni og var tilkynnt um sætin í öfugri röð, þ.e. byrjað á áttunda sætinu en þar var Pétur með 3.06%, sjö var Kolla með 3.66%, sex var Gunnhildur með 4.39%, fimm var Hrafnhildur með 5.54%, fjögur var Aðalsteinn með 7,82%, þrjú var Eggert með 9.84%, tvö var Bjargey með 9.86%, þannig að sigurvegari Biggest Looser 2009 var Stefanía með 11.87%, sem er hreint ótrúlegur árangur því hún fékk einnig aukaverðlaun fyrir að vinna flestar vikur og hún léttist líka mest eða 9,35kg sem var meira í kg. en hjá þyngri keppanda eins og Eggert sem nartaði í hælana á henni með 9.30 kg svo keppnin var æsispennandi á allan hátt eins og sést á tölunum.

Síðasta tölfræðin vakti nokkra kátinu viðstaddra en það var sú staðreynd að keppendur misstu 45.2 kg. sem telst vera 0,95 þjálfari þegar notaður er Borghildarkvarðinn !!!

Göngudeildin vill nota tækifærið og óska Stefaníu til hamingju með verðskuldaðan sigur og ekki hvað síst þakka öllum sem komu og fögnuðu úrslitunum með okkur í dag. Það er okkur mikils virði að eiga svona góða félaga. Einnig viljum við þakka keppendum fyrir hreint ótrúlega keppnishörku og úthald. Eins og sést á tölunum hafa keppendur heldur betur lagt inn fyrir hlaupin í sumar og verður spennandi að sjá hvort að bilið milli Göngudeildar og annarra Laugaskokkara styttist eitthvað :-)