laugardagur, 24. október 2009

Hálfa leiðin hlaupin

Þá eru Hálfleiðarar búnir að ljúka októberverkefni sínu, en því lauk við Rafstöðina í dag í blíðskaparveðri. Hópinn skipuðu Laugaskokkarar sem nenntu ekki að hlaupa heilt maraþon nú í haust en ákváðu í staðinn að reyna að komast aðeins hraðar í hálfu maraþoni en þeir eru vanir.

Átta Laugaskokkarar skipuðu æfingahópinn lengst af en 25% afföll urðu af hópnum, sem skrifast á hinn alræmda meiðslalista, en á honum voru Pétur Ísleifs og Halla. Því voru það sex Hálfleiðarar sem renndu sér í Fossvoginn í morgun, þ.e. Einar, Friðrik, Guðmundur, Pétur Sig, Davíð og Þorvaldur, auk fleiri Laugaskokkara og annara þátttakenda.

Flestir Hálfleiðara voru að bæta sig, náðu ýmist besta árangri ársins eða personal best svo að meðlimir hópsins voru kampakátir í leikslok. Sá óljósi grunur sem lengi hefur nagað huga einhverra okkar um að það kunni að vera samhengi milli ástundunar og árangurs hefur nú fengið byr undir báða vængi. Og þó að við getum þakkað sjálfum okkar ástundunina bera þó fleiri ábyrgð á þessu verkefni og hefst nú sú upptalning, sem verður í Óskarsverðlaunastílnum:

Við þökkum að sjálfsögðu hinum mikla prógrammsmið, Sumarliða Óskarssyni, en ljóst er orðið að þetta prógramm getur fengið ólíklegustu menn til að hlaupa hraðar. Auk þess að bera ábyrgð á prógramminu fylgdist Sumarliði með æfingum og ástundun hópsins úr fjarlægð á sinn föðurlega hátt og tryggði að menn héldu sig við efnið. Hafa Hálfleiðarar ákveðið að skála a.m.k. einu sinni fyrir Sumarliða í kvöld, auk þess sem við að sjálfsögðu óskum honum og öðrum Laugaskokkurum góðs gengis í Frankfurtarmaraþoni á morgun.

Við þökkum jafnframt frábærum skriðstilli hópsins, Ingólfi Arnarssyni, sem stjórnaði hraða og keppnisstrategíu Hálfleiðara eins vel og á verður kosið. Enda var leitað lengi að rétta manninum í verkið og hann sóttur alla leið til Hafnarfjarðar. Það var okkur mikið gleðiefni, en reyndar líka nýnæmi, að geta hlaupið við hlið Ingólfs í keppnishlaupi. Við munum því að sjálfsögðu jafnframt skála fyrir Ingólfi í kvöld.

Þá er ónefndur Ívar sjálfur Adolfsson, sem hvatti hópinn til dáða á sinn einstaka hátt. Ekki endilega að hann hafi látið hlý orð falla til hópsins, en hvatningarorð voru það engu að síður eins og honum einum er lagið. Oft er talað um gulrótina og prikið, og við þekkjum það að Ívar er minna gefinn fyrir gulrótina. En skítt með það ef það virkar, og því verður líka skálað fyrir Ívari í kvöld, helzt í góðu koníaki.

Við þökkum Pétri Ísleifs og Höllu fyrir góðan félagsskap á æfingatímabilinu og vonumst til að vera þeirra á meiðslalistanum verði skammvinn.

Að ógleymdi henni Boggu okkar, hvar værum við nú stödd án hennar? Hús verður ekki byggt á sandi, segir í fornri bók. Því að til að Sumarliðaprógramm á 2. level sé mögulegt, og menn jafnvel að teygja sig einstaka sinn á 3. level, þarf grunnurinn auðvitað að vera í lagi og Bogga hefur tryggt að svo sé.

Eðli málsins samkvæmt taka Hálfleiðarar sér hlé á næstunni og verða aftur óbreyttir Laugaskokkarar. Þó er aldrei að vita nema Hálfleiðarar eða afsprengi þeirra vakni af dvala einhvern tíma síðar, enda koma alltaf ný tilefni fram á sjónarsviðið. Rætt hefur verið um að leggja fleiri hlaup að velli, hér á landi sem erlendis. Þannig hefur Newcastle Half Marathon verið nefnt til sögunnar, en það ku vera bæði fjölmennt og sögufrægt. Tíminn einn leiðir í ljós hvað verður úr en hugurinn stefnir hærra, það er gefið.

En sem sagt, Hálfleiðarar halda sig til hlés í bili, yfir og út.

föstudagur, 23. október 2009

Reebok hlaupaskór á góðum prís

Kiddi (Kristinn) í Reebok er með hlaupaskó á góðu verði.
Reebok er staðsett í Drangahrauni 4 í Hafnarfirði.
Það er best að hringja fyrirfram, en síminn hans er 898 4321.

sunnudagur, 18. október 2009

Hálfleiðarar hálf þreyttir

Nú sér fyrir endann á 6 vikna brambolti Hálfleiðara, en því lýkur næsta laugardag með því að Fossvogurinn verður hlaupinn fram og til baka með viðhöfn. Hópurinn hefur æft af mikilli samviskusemi undanfarnar vikur samkvæmt forskrift Mílanóskólans og hefur skólastjóri hans haft veg og vanda af æfingaáætluninni auk þess sem hann hefur litið með okkur þessar fáu vikur til að kanna hvort ekki væri verið að fylgja áætluninni af kostgæfni.

Það kom Hálfleiðurum mjög á óvart hversu mikil efnahagsleg áhrif æfingaáætlunin hafði, en sú hefur orðið raunin. Þannig hefur því verið skotið að okkur að rekstrarafkoma Lauga hafi versnað verulega á tímabilinu, sem einkum ætti sér skýringar í óeðlilega miklum kostnaðarhækkunum. Þannig hefði þurft að þvo töluvert fleiri handklæði en venjulega, óeðlilega mikil sápa hefði verið notuð í stöðinni og þar fram eftir götum. Hálfleiðarar játa hér með að þetta er að hluta til þeim að kenna, enda hafa þeir margir hverjir mætt í stöðina jafnoft og Ívar og Dóri, þ.e. allt að 6 sinnum í viku. Að hluta viljum við hins vegar kenna Frankfurtarförum um þetta, sem okkur sýnist að hafi líka verið iðnir við að mæta í Laugar í tíma og ótíma, þó að þeir hafi reynt að minnka skaðann með því að halda æfingar fjarri stöðinni, s.s. á Klambratúni.

En eins dauði er annars brauð, þannig er það alltaf. Meðan eigendur World Class horfðu hnípnir í gaupnir sér tók við mikill búhnykkur í stétt sjúkraþjálfara. Það er nefnilega þannig að fæstir Hálfleiðarar höfðu heyrt, hvað þá tekið sér í munn, orðið álagsmeiðsli á áralöngum hlaupaferli sínum. Einhverjir þeirra höfðu kannski orðið varir við þetta hugtak í amerískum hlaupablöðum en ekki látið það sig neinu varða. Því kom það eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar álagsmeiðsli tóku að stinga sér niður meðal Hálfleiðara þegar leið á prógrammið. Þannig er t.a.m. allsendis óvíst hvort þeir ná að tefla fram helstu vonarstörnu sinni í hlaupinu góða, þó auðvitað voni þeir hið besta. Aðrir munu vonandi mæta á staðinn galvaskir, með bros á vör og bólgueyðandi innvortis.

Þeir Hálfleiðarar sem ekki hafa komist á sjúkradeildina eru orðnir hálf þreyttir, enda töluverð fótavinna sem þeir hafa þurft að legja af mörkum undanfarnar vikur. Vel hefur samt tekist til með að beina skiljanlegri bræði þeirra frá Sumarliða og er nú um það almenn sátt meðal Hálfleiðara að ekki beri að skjóta sendiboðann í þessu tilviki.

Jafnframt hefur hugur Hálfleiðara beinst að útrás og hafa þeir kunnáttusömustu þeirra náð að googla heimsfræg hálfmaraþon í Bretaveldi, sem augu hópsins hafa að sjálfsögðu beinst að. Vinna við útrásina er, enn sem komið er, á algjöru byrjunarstigi, en þó er búið að festa tvo mikilvæga þætti. Í fyrsta lagi: Útrásarnafn Hálfleiðara er HL-Group. Í öðru lagi: Birmingham Half Marathon, gúglið þið það! Þannig eru Hálfleiðarar í raun löngu búnir að ná hógværum markmiðum sínum hérlendis í huganum og í raun bara formsatriði að mæta í gallanum á laugardag við rafstöðina.

Eða þannig.

föstudagur, 16. október 2009

Að keppa

Til Frankfurt-fara og haustmaraþonfara - Gangi ykkur vel !!!

"Racing teaches us to challenge ourselves. It teaches us to push beyond where we thought we could go. It helps us to find out what we are made of. This is what we do. This is what it's all about." -PattiSue Plumer, U.S. Olympian

þriðjudagur, 13. október 2009

Áhugaverðar greinar fyrir sum okkar

Sæl Laugaskokkarar

Ég rakst á tvær áhugaverðar greinar fyrir hlaupara:

Þrjár góðar jógastellingar fyrir hlaupara

Góð ráð fyrir fyrsta maraþonhlaupið (fyrir ykkur sem eruð að fara fyrsta maraþonið í Frankfurt)

kveðja
Sibba

mánudagur, 5. október 2009

Nokkrir Laugaskokkarar í hópeinkaþjálfun hjá Lindu

Við vorum þrjár (Helga, Berglind og Sibba) úr Laugaskokki sem ákváðum í lok ágúst sl. að það væri ekki nóg að hlaupa, við þyrftum að bæta við prógrammið og lyfta lóðum líka. Niðurstaðan var að við ákváðum að drífa okkur í hópeinkaþjálfun hjá Lindu einkaþjálfara í World Class. Tíminn sem varð fyrir valinu var kl. 6 að morgni, þrisvar í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Fyrsta skiptið kom alltof fljótt og það voru vægast sagt tuðandi og blótandi Laugaskokkarar sem rifust við vekjaraklukkuna kl. 5 á mánudagsmorgni. Þrjú úldin andlit mættu í Laugar og hittu Lindu og prógrammið var hafið. Einkaþjálfarinn kominn með þrjá hlaupara í ágætis formi í tækjasalinn og hún keyrði okkur áfram. Þennan fyrsta morgun var einungis lyft á efri búk, kvið og bak, en eitthvað voru æfingarnar lúmskar fyrir neðri partinn því við fengum allar þvílíkar harðsperrur í lær- og rassvöðva, svo mikla að við gátum varla gengið í heila viku á eftir. En strax eftir fyrstu vikuna eða voru það fyrstu tvær vikurnar, þá hættu að koma harðsperrur og það varð auðveldara að vakna. Raunar er sannfæring okkar sú að þetta sé ekki spurning um hversu erfitt sé að vakna, heldur hversu erfitt er að fara nógu snemma að sofa.

Æfingarnar hjá Lindu eru flestar mjög lúmskar, vöðvahóparnir eru teknir markvisst fyrir og meðan maður einbeitir sér að ákveðnum vöðvahópi þá er maður að þjálfa aðra vöðva einnig. Í hverri viku er hverjum vöðvahópi gerð góð skil, virkilega tekið á ákveðnum vöðvum og í leiðinni eru alltaf æfðir fleiri vöðvar, bara með ákveðinni beitingu líkamans, jafnvægi, boltum o.s.frv. Mikil áhersla er á kvið og bakvöðva. Við tökum vel á því en lyftum ekki því allra þyngsta, gerum í staðinn fleiri endurtekningar sem Linda segir að sé nauðsynlegt fyrir hlaupara. Það henti ekki hlaupurum fáar endurtekningar með rosa þyngdir, það vinnur á móti hlaupaþjálfuninni.

Við teljum að svona styrktarprógram eins og Linda er að hjálpa okkur við, styrki okkur í hlaupunum. Sjálf finn ég mikinn mun á mér, þe. minni verki í mjóbaki og mjöðmum sem voru farnir að há mér ansi mikið í hlaupunum. Og það sem mér þykir skrítnast og ég bjóst ekki við, er að ég finn mikinn mun í teygjunum, get beygt mig betur saman og þar af leiðandi teygt miklu betur en áður. Svona prógram virðist því henta vel stirðum hlaupurum.

Félagsskapurinn er að sjálfsögðu frábær og svo hittum við reglulega fleiri árrisula Laugaskokkara, þ.e. Eggert og Þóri, sem eru í karlaátakinu, hrikalega flottir báðir tveir og skemmtilegir, alltaf jafn gaman að hitta þá og spjalla við þá. Það væri gaman að sjá ennþá fleiri Laugaskokkara í salnum á þessum tíma.

Hópeinkaþjálfun hjá Lindu byggist á því að fjórir æfa saman. Það er því laust pláss ef einhver hlaupafélagi okkar vill koma sér af stað í frábæru styrktarprógrammi. Ef þú hefur áhuga, hafðu þá samband við mig (sibba@lhi.is) eða settu athugasemd hér á blogginu.

(Myndin hér að ofan er af Lindu einkaþjálfara að sýna mér hvernig eigi að gera æfinguna).

Kveðja
Sibba

laugardagur, 3. október 2009

Á slóðum Rocky.,

Flestir Laugaskokkarar lenda fyrr eða síðar í því að hlaupa Rocky hringinn á frostköldum laugardagsmorgni og velta því fyrir sér, hlaupandi andstuttir upp Skólavörðustíginn, hvaðan nafnið sé dregið. Þeirri vanþekkingu er hér með skolað út í hafsauga þar sem hulunni verður lyft af leyndardóminum.

Það þykir nefnilega grunsamlega margt líkt með Rocky í æfingaham og Laugaskokkurum sem rúlla upp Bankastrætið og Skólavörðustíginn upp að Leifi heppna. Rocky tók sínar æfingar að vísu í Philadelphiu, í hnausþykkum, gráum bómullarjogginggalla, sem tískulöggur Laugaskokks myndu í snarhasti dæma óíveruhæfan. Æfing Rocky Balboa endaði í upphalla sem svipar til Skólavörðustígsins og þaðan kemur samlíkingin. Þá var þessi heimilisvinur Laugaskokkara reyndar að þeysast upp tröppurnar við Listasafnið í Philadelphiu.

Síðan er það að sjálfsögðu sigurdansinn, þegar tröppurnar hafa verið lagðar að velli, eða Skólavörðustígurinn í tilviki okkar Laugaskokkara. Sigurdansinn hefur kannski ekki enn unnið til sérstakra fegurðarverðlauna en allt annað er með honum. Það hleypur enginn Rocky án þess að taka sigurdansinn við fótstall Leifs Eiríkssonar, með sama hætti og Rocky vinur okkar gerði efst á tröppunum hér um árið og steytti svo hnefann framan í örlögin. Til að létta mönnum róðurinn við æfingar fyrir Rockydansinn er hér ágæt slóð á nokkur sýnishorn frá þeim sem lagt hafa í tröppurnar góðu.

http://www.youtube.com/watch?v=8oZvU6L4Xf0