þriðjudagur, 20. júlí 2010

Stefnumót við Þorvald

Ég hef vitað af Þorvaldi í mörg ár og oft hefur mér dottið í hug að reyna að kynnast honum nánar. Af því varð þó ekki fyrr en í ár. Ég gaf út stórar yfirlýsingar á Facebook og sagði hverjum sem heyra vildi að ég ætlaði norður 3. júlí að hitta Þorvald... Þegar ég fór að afla mér nánari upplýsinga fóru nú reyndar að renna á mig nokkrar grímur en ekki var um annað að ræða en að standa við stóru orðin.

Hlaupið er frá Fornhaga í Hörgárdal niður á Árskógsströnd um 25 km leið í gegnum Þorvaldsdal. Hlaupið er um móa og mýrar og götur eru í mesta lagi þröngar og krókóttar kindagötur þar til komið er á jeppaslóða síðustu 7-8 km. Votviðri undanfarinna daga gerði það líka að verkum að göturnar og moldarbakkar lækja voru sleipir og hált var í blautu grasi og mýrarnar blautar og þungar. Hlaupið hefst að auki á drjúgri hækkun en leiðin fer hæst í um 500 metra ca 7 km frá rásmarkinu.

Ég var mætt tímanlega út á Árskógsströnd að sækja númerið mitt. Fleiri Laugaskokkarar voru mættir í Árskógsskóla, Sigrún Erlends, Agga, Ásta og Stefán Viðar með Spóa áttu eftir að standa sig dæmalaust vel þennan dag (sjá úrslit).

Hópurinn var fluttur með 2 bílum að rásmarkinu við Fornhaga í Hörgárdal og þangað voru fleiri hlauparar mættir. Þar var t.d. Pétur Frantz með gallvaska félaga úr Hveragerði.

Starri hlaupstjóri fór yfir helstu öryggisatriði áður en hlaupið var ræst. Mikilvægt var t.d. að álpast ekki inn í Afglapadal í upphafi hlaups og rétt að passa sig á því að hafa ána á vinstri hönd og halda sig vel til hægri á vatnaskilum til að fá ána aftur á vinstri hönd þegar halla færi undan fæti niður á Árskógsströnd. Við Hrafnagilsá myndu hlauparar eiga kost á bílfari yfir ána en bílstjórinn væri fullkomlega frjáls að því að hafa sína hentisemi við ferjunina og allar hans ákvarðanir og gerðir ókæranlegar!

Þegar hlaupið var ræst þustu þátttakendur af stað en ekki höfðu mörg skref verið tekin þegar brekkan fór að taka í. Ekki var um annað að ræða en ganga og reyna að gera það eins rösklega og kostur var. Að fyrstu drykkjarstöð og rúmlega það náði ég að verða samferða 2 konum sem tilheyrðu Pétri F að því að ég best veit en flestir voru hlaupararnir horfnir í buskann. Þó drægi úr mesta brattanum var langt frá því að leiðin gæti talist greið, engu er logið í nafngiftinni “óbyggðahlaup” og smám saman dró sundur með mér og konum Péturs. Þær voru þó lengst af í sjónmáli.

Á vatnaskilum fór ég frammúr öðrum hlaupara, sem hefði óneitanlega talist meira afrek ef hann hefði ekki snúið sig illa og verið að jafna sig eftir það til að geta hökt af stað aftur. Önnur drykkjarstöð var staðsett neðan við mikið framhlaup sem orðið hafði úr fjallinu og þaðan lá leiðin niður að ánni. Á þessari drykkjarstöð hitti ég Jakobínu frænku mína sem lá þarna í leti og hafði lagt af stað með göngufólkinu. Eftir stutt spjall við frænku og starfsfólkið á drykkjarstöðinni sá ég halta manninn nálgast í fjarska og ákvað að drífa mig til að reyna þó að halda forskoti á slasaðan keppinaut minn. Landið varð aðeins greiðfærara á köflum en þreytan var líka farin að segja til sín.

Næsti áfangi á leiðinni var vatn mikið sem Sveinn á Kálfsskinni mun hafa búið til í dalnum á sínum tíma í óþökk sveitunga sinna til að hita vatnið á Þorvaldsá svo lax gengi betur í ána en bændur sáu eftir góðum reiðgötum sem gott var að skeiða um dalbotninn. Um þetta má lesa í endurminningum Sveins, Vasast í öllu sem komu út árið 2007. Aftur glæddist von í brjóstinu þegar ég sá að ég dró heldur á rauðklædda veru framundan og það sló ekkert á gleðina að þegar ég fór frammúr henni reyndist þetta vera eldri kona, búin til göngu... annar roskinn göngumaður var skilinn eftir í rykinu örstuttu síðar.

Nú var ég komin á jeppaslóðann langþráða og sóttist ferðin aðeins betur. Framundan þekkti ég einn af þátttakendum sem lagt höfðu af stað á sama tíma og ég og var hvorki fjörgamall né sjáanlega laskaður. Það hlýtur að teljast gild framúrför!! Töluverðar áhyggjur hafði ég samt af bílstjóranum óútreiknanlega því ég nálgaðist ána en hafði ekki náð svo verulegu forskoti á keppinautinn að bílstjóranum gæti vel dottið í hug að hinkra og ferja okkur yfir í sömu ferðinni. Sú sálarangist reyndist fullkomlega ástæðulaus. Bílstjórinn var indælispiltur sem bauð mér orkudrykk og ferjaði mig umsvifalaust yfir ána. Varla var ég komin aftur á skrið þegar ég hitti fyrir ljósmyndara sem smellti í gríð og erg, ekki um annað að gera en reyna að rétta úr sér og kreista fram kraft í hreyfingarnar og skella upp einhverju sem vonandi líktist brosi meira en sársaukagrettu. Vegarslóðin vatt sig um melhóla og ég viðurkenni fúslega að allt sem var uppímóti gekk ég en reyndi að lulla áfram á hlaupum þess á milli. Ég var þarna reyndar hætt að hafa áhyggjur af að ná ekki í mark áður en tímatöku yrði hætt en orkan beindist öll að þvi að koma öðrum fæti fram fyrir hinn. Bláklæddur maður virtist í “seilingarfjarlægð” en heldur gekk mér hægt að draga á hann, kannski vegna þess að á síðustu drykkjarstöð hélt ég að sjálfsögðu uppteknum hætti og stoppaði og spjallaði við starfsmanninn sem fullvissaði mig um að úr því ég væri komin þetta langt myndi ég hafa þetta af. Vissulega var ég þarna farin að sjá vel til byggða og átta mig á því hvar markið langþráða hlaut að fyrirfinnast. Þangað komst ég á 3:30 og þáði verðlaunapening úr hendi Ingu konunnar hans Valda frænda míns og samlokur, banana, súkkulaði og ávaxtasafa til hressingar!

Þrem vikum síðar get ég sagt að mér fannst hlaupið skemmtilegt og umhverfið fallegt en óneitanlega flokkast þetta hlaup með því erfiðara sem ég hef tekið mér fyrir hendur (fætur). Undirbúningurinn fyrir hlaupið hefði sennilega mátt vera betri og hugsanlega hef ég lært þá lexíu að láta ekki undan leti og hlaupaleiða vikum og mánuðum saman síðla vetrar. Það er ekki gott veganexti fyrir metnaðarfulla dagskrá sumarsins!

Allt um Þorvaldsdalsskokk.

Hrafnhildur

3 Ummæli:

Anonymous Davíð sagði...

Takk fyrir skemmtilegan pistil. Þið Þorvaldur eruð greinilega bæði sátt eftir fyrsta stefnumótið sem er fyrir öllu.

23. júlí 2010 kl. 12:18  
Blogger EggertC sagði...

Flottur pistill sem staðfestir að þau eru mörg ævintýrin sem verða til á hlaupum :-)

Frábært hjá þér að skella þér á Þorvald !!!

28. júlí 2010 kl. 12:44  
Blogger EggertC sagði...

Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

28. júlí 2010 kl. 12:44  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim