þriðjudagur, 30. júní 2009

Minningarhlaup

Komið þið sæl

Það kom beiðni frá ákveðnum hlaupurum í Laugaskokki um að hlaupa minningarhlaup um Michael Jackson á morgun miðvikudag. Ætlunin er að hlaupa Rocky enda á það vel við. Einnig ætla ég að minna ykkur á sumargleði World Class við sundlaugarbakkana, er ekki um að gera og fjölmenna á það?

Bíð spennt að sjá hvort einvherjir kunni Moonwalk taktana
http://www.youtube.com/watch?v=-SlWIaYkFI4

Kveðja
Bogga

P.s það má vera með einn hanska eða grifflur á æfingu á morgun.

laugardagur, 20. júní 2009

Tempóæfing með kvennahlaupsívafi


Við Elín ákváðum í gærkvöldi að vera svolítið kvennlegar í dag. Tókum skemmtilega æfingu frá WC í Mosfellsbæ. Hituðum upp upp að Varmá, tókum þar Kvennahlaupið á temói, Elín eiginlega bara á hálftemói ;), skokkuðum svo aftur niður heim að WC. Mjög skemmtilegt, vorum langfyrstar 7km en það tók enginn eftri því nema við tvær ;) Til að bæta úr því náðum við að láta ljósmyndara mynda okkur í bak og fyrir- en klikkuðum eitthvað á viðtalainu. Fengum ókeypis líftryggingu uppá eina miljón frá Sjóva í eitt ár -gloss og allskonar dót með. Ég var búin að senda inn mynd af hlaupahópnum ElínJóhanna í einhvern útvarpsþátt sem ætlaði að draga út dekur fyrir heppinn hóp- skil ekkert í að ekki skuli vera búið að hringja í mig ;(
Við Hittum Öggu og Evu með börn og buru og allir brosandi út að eyrum-örugglega líka litli bumbubúinn.
Fín æfing með 7km tempó inní. Svo skemmtilegt- bara eins og maður væri í tómum leikarasakap- sem þetta náttúrulega er alltsaman.

föstudagur, 19. júní 2009

Endanleg áætlun

Jæja

Laugardainn 20. júní þá ætla einhverjir Laugaskokkarar að sameinast í bíla kl. 7:00 við N1 í Ártúnsbrekkunni. Þaðan munum við fara á Skóga og hefja hlaup um 9 leytið og halda uppá Fimmvörðuháls, hlaupa að minnismerkinu og til baka. Eflaust ætla einhverjir að fara alla leið inn í Bása en þeir redda sér sjálfir úr Mörkinni. En allvega hinir sem hlaupa aftur til baka stefna síðan á það að fara í sund á Hvolsvelli þar sem hugsanlegt er að fari fram tímataka í 25m hundasundi.

mánudagur, 15. júní 2009

Meira af Fimmvörðuhálsi

Eftir stuttan fund eftir æfingu var staðan tekin. Niðurstaða var sú að við skyldum koma okkur sjálf á Skóga og byrja hlaup kl. 10:00. Því þarf að leggja
af stað úr bænum eigi síðar en kl.7:00. Í dag hefur einn maki boðist til þess keyra frá Skógum inn í Bása og getur því keyrt fólk til baka að sækja bíla. Fólk þarf því að redda sér sjálft heim. Því er um að gera að tala við aðra eða skoða ferðir áætlunarbíla.

Biðjum fólk að skrá sig ef fleiri bætast í hópinn og segja frá því ef þeir hafa einhvern fararkost eða bílstjóra sem gæti hjálpað okkur.

Á fimmtudagskvöld verður tekið stöðutékk en langtíma veðurspá er ekki góð og því er vissara að skoða það betur þegar marktækari spá er komin.

sunnudagur, 14. júní 2009

Skilaboð frá Sævari

Kæru Laugaskokkarar.



Eins og flestir vita þá ætlum við hjá Ferðaþjónustu bænda - Bændaferðum að bjóða upp á skipulagða maraþonferð til Frankfurt í haust 23-26.október. Frankfurtar maraþonið er eitt elsta borgarmaraþon Þýskalands og fer fram 25. október. Að sögn kunnugra er Frankfurtar maraþonið kjörið hlaup til að ná góðum tíma jafnt fyrir þá sem eru að fara sitt fyrsta maraþon sem og reynda hlaupara.



Allar nánari upplýsingar er að finna á http://www.baendaferdir.is/category.aspx?catID=113



Heyrst hafa kjafasögur um að Mílanóskólinn muni jafnvel bjóða upp á námskeið.



Þeir sem hafa áhuga hafið samband við skrifstofu Ferðaþjónustu bænda eða farið inn á http://www.baendaferdir.is/category.aspx?catID=113



Kær kveðja Sævar

föstudagur, 12. júní 2009

Fimmvörðuháls

Jæja þá er komið að því

Hérna koma margar upplýsingar og pælingar lesið því þennan pistil vel og vandlega og kannski oft til þess að botna eitthvað í honum.

Laugardaginn 20. júní ælta Laugaskokkarar að sameinast og fara saman yfir Fimmvörðuháls. Eftir miklar rökræður og vangaveltur hefur verið ákveðið að hlaupið verður Skógar-Básar en vonandi geta allir sæst á þessa niðurstöðu en hópurinn virðist skiptast til helminga um hvora leið hann vill fara (við förum þá bara hina leiðina á næsta ári).
Stefnt yrði því á að fara úr Rvk kl. 7:00 þeas ef fólk verður ekki búið að koma sér austur og lagt að stað eigi síður en kl. 10:00 frá Skógum.
Ef hægt er förum við á einkabílum.

Það sem við þurfum að vita er:
1. Hverjir ætla með?
2. Hversu margir geta farið á bílum austur og hversu margir eiga bíla sem komast alla leið inní Bása?
3. Er einhver sem hefði bílstjóra sem myndi vilja fara á undan (akandi í Bása) og gæti keyrt fólk til baka til þess að ná í bíla á Skógum?
4. EF að fólk vill ekki gista í Básum eftir hlaup er áætlunarbíll sem fer frá Básum kl. 13:30 og sami bíll úr Húsadal kl. 16:00 í Reykjavík.
Sjá http://www.re.is/Thorsmork/BusSchedule/. Ætlar þú að vera áfram í Básum og tjalda? Ef við erum mörg gæti verið betra að taka frá tjaldstæði.
5. Ef þú gistir í Básum hefðir þú laust pláss heim eða áleiðis í Rvk á sun?

Fólk spyr eflaust afhverju við tökum ekki bara rútu málið er að það er erfitt að panta rútu þegar við vitum ekki hversu margir eru að fara og vitum heldur ekki hversu margir myndu koma með henni til baka á lau ef hún myndi bíða eftir okkur.

Þetta eru fyrstu upplýsingarnar sem koma og eflaust vantar margt í þær endilega hafið þá samband. Ég ætla að biðja fólk að svara okkur á BLOGGINU við spurningu 1-5 eða eftir því sem við á. Upplýsingar verða síðan uppfærðar jafnóðum um leið og hlutirnir skýrast og munu fleiri upplýsingar koma á næstu dögum.

miðvikudagur, 10. júní 2009

Bláalónsþrautin á sunnudaginn

Corinna stofnaði okkur Laugaskokkara sem lið í Bláalónsþrautinni sunnudaginn 14. júní.

Um er að ræða að hjóla 60 km. leið frá Hafnarfirði, eftir einhverjum ófærumalarvegi, í Bláa lónið. Þar er tekið á móti okkur með súpu og með því. Svo fara allir í Bláa lónið að sjálfsögðu (er innifalið).

Kostar kr. 2.500 ef skráð er í síðasta lagi 11. júní (annars 3.500 ef skráð er á keppnisdegi). Svo ef er ekki hjólað til baka, þarf að greiða kr. 1.000 í áætlunarrútuna (hjólin fá frítt far í bæinn með sendibíl).

Nánari upplýsingar eru á http://www.hfr.is/ og velja þar Blue Lagoon Challenge.

Verið endilega með, skráið ykkur og munið að setja LAUGASKOKK sem liðið ykkar.

Þeim sem langar en treysta sér ekki að hjóla 60 km. þá er líka hægt að fara 40 km. (sjá meira um það á vefsíðunni).

Sjá kort: http://www.hfr.is/blaa/myndir/kortblaa2007.jpg

Vonumst til að sjá sem flesta
Corinna og Sibba

p.s. minnum líka á Álafosshlaupið á föstudaginn (9 km) og 7 tinda hlaupið á laugardaginn (17 km. eða 37 km). Fyrir þá sem ætla að vera með á sunnudeginum í hjólreiðakeppninni mælum við með að fari 17 kílómetrana og geymi 37 km. þar til síðar. Sjáumst vonandi sem flest og tjáið ykkur endilega hérna inni eða í athugasemdadálkinum á forsíðu.