miðvikudagur, 9. júní 2010

Sumarhlaup FH og Atlantsolíu, Skemmtilegt 5km. hlaup í Hafnarfirði

Í þetta hlaup mættu bæði afreksfólk og almenningur vel.
Laugaskokkarar, voru þarna, bæði á keppnisbuxunum, til að héra sitt fólk, og líka til að taka: ” koma ´sér í form æfingu”. Mér sýnist við hafa verið 6 sem hlupum.
Kolla var mætt með fylgdarlið á svæðið að hvetja sitt fólk og stóð sig vel í því, hún æsti unga stúlku í að vera á undan mér sem stúlkan gerði með leik.
Hlaupalöggan stóð við brautina eftir nokkkur hundruð metra og skipaði vinum sínum til og frá, reyndi þannig að stjórna umferðinni. Í bakaleiðinni var löggan mætt annarstaðar og sagði manni að taka betur á sem maður náttúrulega gerði “ löghlýðinn að sjálfsögðu”.
Fjölmenni var og brautin mjó en fljótt teygðist ormurinn þannig að fólk var ekki að hlaupa ofaní hvort öðru- maður gat allvega tekið framúr án þess að troðast ;)
Aðstæður voru glimrandi, pínu gola, mest á móti fyrri helminginn. Sem betur fer var öskuþokan, sem var daginn eftir, ekki mætt á staðinn en þá hefði sennilega þurft að aflýsa hlaupinu. Laugaskokkarar, allavaega þeir sem ég þekki, náðu markmiðum sínum. Héranum tókst að pína sinn mann á tilskyldum tíma. Og einhverjir bættu sig. Ég náði að hlaupa þessa 5 km. á 5mínútna tempói, mín bara í framför enda ágæt spyrna frá botninum. ;) Það er gaman að snúa svona við þótt það hægi pínu á, því þá sést hverjir eru fyrstir og á undan manni og líka hverjir eru á eftir. Það besta við 5km hlaup að það eru bara 5 kílómetrar ;)
Við vorum 6 sem munstruðum okkur við Laugaskokk og sýnsist mér allir geta verið ánægði smeð sig. Eiginkona hans og tengdafólk var á staðnum og náði maður alveg að sækja stuðning þar.
Björn Margeirsson tengdasonur Laugaskokks vann hlaupið með glæsibrag á tímanum 16:05. Eiginkona hans og tengdafólk var á staðnum og náði maður alveg að sækja stuðning þar. Okkar kona Helen Ólafsdóttir var önnur kvenna á flottum tíma: 18:50. Þórir Magnússon var líka á fínum tíma !8:48. Einar hljóp með syni sínum, alltaf gaman þegar tekst að smita afkvæmin af hlaupabakteríunni og Viktor Einarsson hinn nýi laugaskokkari hljóp þarna sitt fyrsta 5km. keppnishlaup, á fínum tíma. Hann fékk að auki 20 manna skúkkulaðitertu í útdráttarverðlaun. Jóna Dóra var þarna líka og hljóp á flottum tíma, perslónulega best held ég.
Þetta var mjög skemmtilegt og hressandi hlaup. Brautin var niður við sjó meðfram Strandgötunni og var því flöt. Mótshaldarar, Ritarinn o.fl. , segja þetta vera bætingabraut framtíðarinnar, einnig hefur heyrst að þetta verði líka vetrarhlaups-sería ekki ósvipað og Powerade, nema 5km og sennilega færri hlaup.
Fjöldi útdráttarverðlauna var í boði. Laugaskokkarar fóru heim með súkkulaðitertur (gjafabréf), drykki og plastsundlaugar o.fl. Ég mæli hiklaust með þessu hlaupi Hafnfirðinga. Það var vel að öllu staðið hjá þeim.
Á leiðinni heim keyrðum við framhjá þremur Gröfu og Kranaköllum þar af einn Laugaskokkara hlaupandi heim eftiri keppnina. Þetta kallar maður að nota almenningshlaup sér til stuðnings í æfingaprógrammi.

Laugaskokkarar á Mývatni

Í Minningunni er Mývatnsmaraþon: Pétur Franzson stormandi með fulla rútu af Námsflokkum á Mývatn, hann keyrir sjálfur og er búinn að redda góðri gistingu fyrir alla (nema kannski sjálfan sig), svo trommuðu allir sem gátu haldiði á vetlingi norður. Ef ekki hefði verið fyrir P.F. þá værum við ekki á Mývatni núna . Við Laugaskokkarar sem vorum á Mývatni þ. 29.mai sl. vorum öll sammála um það.
Við Ívar keyrðum norður á fimmtudgskvöld (ætluðum ekki að missa af neinu), gistum í Vatnsdal (Við Ólafslund þar sem hnífurinn er geymdur). Endalaust pælt í hvernig veðrið yrði og aðstæður til hlaups. Það að fara norður í maí er náttúrulega áhættuatriði. En það leit vel út með hlaupaveður.
Á föstudaginn rákum við inn nefið hjá Pétri Ísleifs, (Einum af okkar noðlensku Laugaskokkurum) sem nú býr á Laugum, fengum góðgerðir og héldum svo áfram.
Um kvöldið lentum við svo á Mývatni ásamt Gunna, Mundu (sem var alveg í gírnum fyrir maraþon daginn eftir) og Loppu. Berglind og Ævar ásamt Hilmi og Frakki voru mætt um morguninn hress og kát að vanda. Þarna voru líka nýr Laugaskokkari Stanislav Bukovski sem ætlaði að hlaupa sitt fyrsta maraþon, ásamt konu sinni og tveimur litlum guttum sem skottuðust um allt og höfðu mjög gaman að eltalst við Loppu og Frakk.

Oft hafa fleiri verið í Mývatnsmaraþoni 12 manns hlaupu af stað og startið lét lítið yfir sér. Við Gunni og Loppa keyrðum á eftir maraþonhlaupurum. Þetta leit mjög vel út. Ívar langfyrstur, við sögðum honum að missa ekki löggubílinn – hvernig missir maður löggubílinn? Jú maður missir einhvern fram úr sér og þar með fer löggubíllinn með honum. Næst Ívari kom Munda þessi uppstilling hélt þangað til ég þurfti að yfirgefa klappliðið og planta mér á startlínuna í 10km. Síðar frétti ég að 2 karlar hefðu troðiið séfr á milli þeirra vinanna. Munda var því 4. í mark í heildina, hún hljóp í markið á tímanum 3.42. 8 mínútna bæting! Þá kom sér vel að vera með pallföt ;)

Í startinu í 10km. sagði ég Berglindi að hún yrði að vera fyrst (engin pressa) og hún sagðist hafa hugsað þessi orð oft á leiðinni, gott að geta verið einhverjum hvatning. 10 km. brautin er erfið fyrst jafnslétt svo svaka brekka (brekkan þar sem maður byrjaði í hálfu á gömlu brautinni.), svo hæðótt upp og niður, svo brekka, svo brekka og svo brekka dauðans upp að jarðböðunum og þá er sagan öll. Það var gott veður og golan meira í bakið.

Laugaskokkarar unnu og unnu á Mývatni. Maraþonpallinn prýddu 1. sæti: Ívar (3.09) og Munda (3.42), þau fengu risa bikara og Blómvendi . Á 10km pallinum voru í 1.sæti hjónakornin Ævar (41) og Berglind (47) þau fengu bikar og blómvendi, nóg af blómum á því heimili. Í hálfmaraþoni vann Stefán Viðar (1.17) og Helga (1.41) var 3 konan, þau voru bæði að bæta sig. Sveitakeppnina í maraþoni vann sveit Laugaskokks , Munda, Ívar og Stanislav. En Stanislav hljóp í markið með strákana sína tvo sem komu á móti honu á tímanum 3.59 og var mjög sáttur.
Persónulega man ég varla eftir að hafa hlaupið svona hægt 10 km. þannig að maður getur kannski farið að skrá PV í hlaupadagbókina ;(


Ýmsir vinir Laugaskokks voru á staðnum, þar voru áberandi Árbæingar sem settu skemmtilegan svip á maraþonið með sínum appelsínugula lit. Þeir fengu á sig uppnefnið ruslakallarnir og náttúrulega borið upp á okkur að við hefðum komið því á sem er náttúrulega bara lygi.

Við Munda og Hilmir leystum svo út vinning síðan í fyrra og fórum í útsýnisflug með Mýflugi. Ekkert smá flott. Sumir voru að drepast úr hræðslu en það var bót í máli að flugmaðurinn þótti mjög töff ;)
Gott fjölskyldu og vina kvöld var framundan með smá eourvision og kosningavöku í Æsufellinu. Kosningavökuna horfði ég reyndar ein á gapandi af undrun meðan hinir fögnuðu ennþá hlaupasigrunum.

þriðjudagur, 8. júní 2010

Laugaskokkarar á Úlfljótsvatni

Laugaskokkarar fjölmenntu sem fyrr í Úlfljótsvatnshlaupið sl. laugardag og áttu góðan hlaupadag. Enda allt sem mælir með hlaupinu, sem staðið er að af miklum myndarskap að hætti Péturs Frantzsonar. Hlaupaleiðin er bæði fjölbreytt og skemmtileg, um vegi, stíga, slóða, móa, mýrar og skurði sem á vegi manna verða við Úlfljótsvatn og í nágrannasveitum.

Tuttugu Laugaskokkarar skelltu sér austur, fimmtán þeirra til að hlaupa og fimm til að starfa við hlaupið. Um 80 manns gerðu sig tilbúna fyrir startið og fljótlega varð ljóst af búnaði þeirra að vænst var molluhlaups. Enda sól og blíða á Úlfljótsvatni og stuttbuxurnar og stuttermabolirnir allsráðandi. Auk Laugaskokkara mátti sjá þarna stóran hóp Hamarsskokkara frá Hveragerði, en síðan dreifðust þátttakendur á hina ýmsu hlaupahópa.

Hlauparar voru ræstir af stað kl. 11 og lá leiðin frá bústöðunum og niður að Úlfljótsvatni og síðan veginn meðfram skátamiðstöðinni og í átt að Þingvöllum. Fljótlega teygðist á hópnum, enda menn í hlaupinu með mismunandi markmið, ýmist að taka vel á því eða að taka langt og rólegt laugardagshlaup í góðu veðri og góðum félagsskap, en tíðindamaður Laugaskokks var einmitt á þeim buxunum.

Því var það að Helen, Baldur, Sigmar og Steinar hurfu fljótlega í rykmekki en fyrstu kílómetrana fyldust IP-liðar, HL-liðar og MV-liðar að. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og eftir ca. 4 km. hlaup kom styggð að IP-liðum og þeir gáfu í og sáust ekki meira á því ferðalagi. Bætti ekki heldur úr skák að MV-liðar voru ekki þeir þolinmóðu og skilningsríku hlustendur sem IP-liðar höfðu e.t.v. vænst og .því fór sem fór. Samhlaup HL-liða og MV-liða gekk hins vegar það vel lengst af að rætt var um það í fullri alvöru að hefja sameiningarviðræður hópanna. Þannig fylgdust hóparnir að yfir móana, niður meðfram læknum og yfir báða fjandans skurðina sem þarna eru ennþá og engum dettur í hug að brúa.

Eins og menn þekkja þá líður tíminn hratt á hlaupum og eftir gott útsýnishlaup um sveitina komu menn sólbrenndir og sveittir furðu fljótt aftur inn í Úlfljótsskála. Sumir þó fljótar en aðrir eins og gengur og þeim eru hér færðar hamingjuóskir fyrir góðan árangur. Þeim voru líka færðar verðlaunaplöntur sem þeir þágu úr höndum mótshaldara, auk hefðbundinna vinninga fyrir góðan árangur sem voru ekki af verri endanum.

Af góðum árangri Laugaskokkara ber hæst að Helen var fyrsta kona í mark Af karlpeningi Laugaskokks sást fyrst til þeirra Sigmars, Baldurs og Steinars í markinu og IP-liðar komu svo í humáttina á eftir þeim. Munda kom fyrst í mark frá sameinuðu liði MV- og HL-liða, greinilega í fantaformi eftir Mývatnsmaraþon. Laugaskokkarar komu sterkir til leiks í eldri flokkunum og þannig voru þeir Gunni Geirss. og Baldur Jónsson í 1. og 3. sæti í sínum aldursflokki.

Laugaskokkarar voru líka margir að vinna við hlaupið eins og áður sagði. Kristján sá um að menn færu ekki villur vegar í sveitinni og var jafnframt ljósmyndari hlaupsins ásamt Sumarliða. Elín, Ingólfur og Kristín mönnuðu drykkjarstöðvar ásamt fleirum og verður þeim seint fullþakkað enda hlýtt í veðri og sólríkt og mikið vökvamagn sem þar þurfti að endurnýja.

Súpan hjá Lísu sveik ekki frekar en fyrri daginn, og svolgruðu menn hana í sig eftir hlaupið, og skoluðu svo brauðinu niður með Gatorade, besta máltíðin sem flestir höfðu aflað sér þann daginn. Pétri og Lísu eru færðar bestu þakkir fyrir skemmtilegan dag í sveitinni.

Myndir frá hlaupinu: http://blafell.123.is/album/default.aspx?aid=181122