þriðjudagur, 29. janúar 2008

Miamimaraþon og hálfmaraþon 27. Janúar 2008

Enn einu sinni sannaðist hið fornkveðna. Það er: “Maður á að njóta þess að æfa vel, komast í og vera í góðu formi, sleppa svo bara að hlaupa skollans maraþonið og vera bara áfram í góðu formi”. Þetta sagði Garðar fyrir mörgum árum. OOO hvað mér hefur oft verið hugsað til þessara orða.

Það voru allir vel upplagðir í þetta hlaup. Vaknað kl 3 um nóttina, veðrið eins og best var á kosið 18 stiga hiti, sólarlaust og andvari. Græað sig til, Hlaupasjúklingarnir og Bryndís Berg. Bryndís kom verulega á óvart, stóð sig eins og hetja ein í stuðningsliðinu, tók myndir til hægri og vinstri. Hún var búin að heyra söguna um Mundu og Kristínu þegar þær trommuðu um Parísarborg með myndavél, koníaksflöskuna góðu o.fl. lest úr lest- koma so. Sem sagt myndataka hvatning og koníaksvarðveisla til mikillar fyrirmyndar hjá Bryndísi, Ekki í eitt skipti tók ég eftir: “þetta eru nú meiri hlaupavitleysingarnir-svip” hjá henni;

Hlaupið sjálft var persónuleg upplifun hvers og eins, eins og alltaf. Mér fannst mjög gaman alveg upp í 30km. náði að halda réttu tempói, þurfti að hafa passlega fyrir því og mílurnar rúlluðu fram hjá. Við Ásgeir hittumst nokkrum sinnum á fyrstu mílunum en svo rúllalði ég ögn hraðar. Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir: að rúlla hvern kílómetrann á fætur öðrum og skilja ekkert hvað þeir eru stuttir, Njóta þess að fá klapp, klappa á móti, gefa five og taka dansspor með músikini (eins og Sirrý gerði) og ímynda sér að svona rúlli maður þonið á enda.

En Adam var ekki lengi í Paradís á kílómetra 30 kom Hérastubburinn 3:40 ásamt nokkrum viðhlæjendum, og ég í einhverju bráðarugli hugsa:”Best að hanga áfram með þeim, fara svo fram úr þeim í lokin, næ þá kannski markmiðinu. Þetta var borin von. Eftir nokkur hundruð metra með þessu liði var öllu lokið. Illt í maganum, hundþreytt og allt. Héraliðið hvarf ótrúlega fljótt. Annar skolli 3:50 hérinn –fór líka ótrúlega stuttu seinna.

Þegar 2 mílur voru eftir kom maðurinn minn á móti. Nú voru góð ráð dýr. Gaf honum merki um að hann skildi bara fara ég væri bara á labbinu og ætlaði að vera það áfram. Ég færi bara að skæla ef hann ætlaði að fara að pína mig eitthvað. “Allt í lagi elskan njóttu þess bara að vera hér skokkandi (takið eftir ekki labbandi) með manninum þínum” og ég labbaði ekki meir í hlaupinu því. Rétt slapp yfir mottuna áður en klukkan sló fjóra tíma og tips tíminn sagði 3:57.

10. Maraþoninu lokið. Alltaf er þetta æðislegt. Þvílík forréttindi að fá að leika sér svona á fullorðinsárum.

Þetta hlaup var okkur flestum erfitt, maraþon er alltaf maraþon.

Halldór er sigurvegarinn, sá eini sem náði draumatímanum sínum . Ívar og Ingófur Sveins. voru báðir á verðlaunapalli í aldursflokki. Ásgeir lenti í svaka endaspretti (þarf ekki að segja hver vann) og náði allri stúkunni með sér í æsing.

Stigum um borð í mb. Liberty seinnipartinn. Smá spurning hvort Bibba og Ásgeir myndu þurfa að taka lóðsinn því þau þurftu að skila bílnum o.fl. En þau náðu að stökkva um borð á síðustu stundu.


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim