þriðjudagur, 5. maí 2009

Þriðja vigtun – Sleppt og Haldið 09 – Undanúrslit !!!

Fyrir glögga lesendur þá verður að upplýsa að önnur vigtun leystist upp í lagaflækjur í kjölfar þess að Pétur skilaði ekki inn tölu og fékk á sig 999 kg við litla gleði liðsfélaga sinna. Þess vegna voru úrslitin kærð og eftir munnlegan málflutning var það niðurstaða sérstaks kviðdóms að Pétur fékk að skila inn réttri tölu og þar með var Rauða liðið komið aftur á toppinn en sumir ónefndir keppendur sukku til botns í úrslitatöflunni.

Þegar kom að þriðju vigtun sl. laugardag voru flestir keppendur í heimsókn hjá Pétri og Lísu á Úlfljótsvatni og var skokkað þar utan vega að hluta og síðan boðið til glæsilegrar súpuveislu með öllu tilheyrandi og vert að minnast sérstaklega á þann kalda sem kom með gufubaðinu. Höfðu keppendur á orði að sveitaloftið væri einstaklega „létt“ og þess vegna von um góðan árangur. Ekki varð öllum keppendum að ósk sinni og ljóst að ekki einu sinni kraftaverk geta bjargað þeim keppendum sem verma neðri hluta listans. Þarna er því orðin til mikilvæg og greinargóð heimild um hvaða keppendur eru veruleikafirrtir þegar kemur að því að setja sér markmið um líkamsþyngd átta vikur fram í tímann :-)

Annars voru úrslit þriðju og næst síðustu vigtunar eftirfarandi:
1 Stefanía 1,02%, 2 Inga María 1,07%, 3 Aðalsteinn 1,66%, 4-5 Sibba 1,79%, 4-5 Guðrún , 1,79%, 6 Corinna 2,20%, 7 Pétur 2,23%, 8 Kolla 2,30%, 9 Hrafnhildur 2,34%, 10 Ingigerður ,2,45%, 11 Gunnhildur 3,05%, 12 Gunni 3,38%, 13 Bjargey 3,68%, 14 Eggert 7,60%

Eins og áður hefur komið fram þurfa þeir keppendur sem lenda í 8. sæti og neðar að gjalda syndagjald, kr. 500 og er þetta farið að ganga nærri fjárhag sumra keppenda.

Í liðakeppninni eru línur farnar að skýrast óþægilega vel fyrir Rauða liðið sem sigrar þessa lotu með 1,64%. Bláir eru í öðru sæti með 2,66% og Svartir reka lestina með 3,77%. Þegar þessi úrslit voru kunn þá höfðu svertingjarnir að orði að réttast væri að kalla þá „Svörtu sauðina“

Vegna þess hvernig stigagjöf er háttað þá eru efstu keppendur í sérflokki þegar kemur að endasprettinum og orðið verulega spennandi að sjá hvort Stefanía nær að sigra keppninna og þannig ná „alslemm“, svo notuð sé góð íslenska í vigtunarkeppnum vetrarins. Heildarstaðan er þessi:

1 Stefanía 4, 2 Inga María 6, 3 Corinna 10, 4-5 Ingigerður 20, 4-5 Guðrún 20, 6 Aðalsteinn 21, 7 Gunnhildur 24, 8 Hrafnhildur 26, 9 Sibba 27, 10-11 Kolla 28, 10-11 Gunni 28, 12-13 Bjargey 32, 12-13 Pétur 32, 14 Eggert 35. Til hamingju Stefanía !!!

Eins og sést á stigatölu efstu manna þá munar svo litlu að ekki má misstíga sig við að fagna undankeppni Eurovision til þess að vigtun á úrslitadaginn kosti sigur. Það er því engin tilviljun að keppendur í Sleppt og Haldið 09 skuli vera í sömu spennu og Jóhanna Guðrún þessa vikuna um hvort þau komist áfram og sigri í aðalkeppninni. Dramatíkin er í hámarki næstu vikurnar og lesendur hvattir til að sýna keppendum skilning þegar andlegt atgervi þrýtur á lokasprettinum eins og svo oft gerist þegar langt er hlaupið.

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Hún heitir Jóhanna Guðrún ;o)
kv.Hildur

5. maí 2009 kl. 12:17  
Blogger Göngudeildin sagði...

Point taken. Búið að leiðrétta. Ekki viljum við rangnefna stúlkuna :-)

5. maí 2009 kl. 22:39  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim