þriðjudagur, 26. maí 2009

Lokaúrslit Sleppt og Haldið 09 - LOKSINS !!!

Það verður að viðurkennast að það hefur ekki náðst að rífa upp stemmingu í þessari keppni líkt og í Biggest Looser, og það sem meira er, þá er ljóst að sumir keppendur hafa algjörlega misst sjálfa sig og áhugann sem sést best þegar úrslitin eru skoðuð. Þetta vekur upp spurningar um hvort keppnishald með þessum hætti sé gerlegt. Allavega verður sjálfsagt bið til haustsins áður en lagt verður á megrunarkeppnisbrautina á ný.

Annar vandi keppninnar var fjöldi keppenda, en það er erfitt, sérstaklega þegar komið er fram á sumar, að treysta á það að allir getir vegið sig og mælt á sama tíma, svo ekki sé talað um undir eftirliti haukfránna eftirlitsmanna. Þetta hefur gert að verkum að dregist hefur að tilkynna úrslit eins og best sést á þessu úrslitabloggi í dag, rúmri viku eftir að keppni lauk. Auðvitað mætti skrifa það að einhverju leyti á ritara keppninnar sem hélt í heimahagana til að lembgva, en það athæfi skildi ekki nokkurt borgarbarn og satt best að segja olli það nokkrum áhyggjum þar til það var útskýrt. Málið var auðvitað að varamaðurinn stóð sig ekki heldur, því hann glímdi við svínslega flensu og komst fyrst til almennilegrar meðvitundar í fyrradag.

En nóg af tuði í bili. Það sem skiptir máli er að 14 keppendur lögðu á sig 8 vikna þátttöku í keppni þar sem þrautseigja og skynsemi var aðal málið. Það skripluðu margir á skötunni en eins og alltaf þá komu hinar sönnu hetjur í ljós eftir því sem leið á keppnina. Það virðist hafa verið vænlegast til árangurs að þessu sinni að ætla sér ekki um of heldur treysta á að halda fengnum hlut. Þetta átti sérstaklega við þátttakendur í Biggest Looser, sem þrátt fyrir góðan árangur þar, áttu ekki sjéns í þessari keppni með nokkrum skemmtilegum undantekningum þó.

Baráttan um fyrsta sætið var jöfn og spennandi. Má með nokkrum sanni segja að keppendur hafi hagað sér líkt og við gerum á hlaupaæfingum, þ.e. skipuðu sér í hópa og slitu sig frá öðrum keppendum. Þannig leiddu Stefanía og Inga keppnina og í næsta hóp voru Aðalsteinn, Guðrún og Sibba. Þriðji hópurinn var rest utan Bjargeyjar og Eggerts sem reyndu að vinna keppnina neðanfrá, sem auðvitað er veruleikafirring af verstu sort, enda lýsti Bjargey því yfir í vitna viðurvist í gær að hún væri búin að missa tökin á tilverunni en ætlaði sér að treysta tökin að nýju. Eggert er hins vegar kominn skrefi lengra því hann á bókaða tveggja vikna meðferð á Ásbrú að loknu Mývatnshlaupinu og vonandi að það dugi honum til að verða léttari á sér á hlaupunum í sumar.

Fyrst er það röð keppenda í síðustu vigtuninni sem er:

1 Stefanía 0,22%, 2 Aðalsteinn 0,64%, 3 Pétur 0,72%, 4 Inga María 1,10%, 5 Sibba 1,82%, 6 Kolla 1,82%, 7 Gunnhildur 2,11%, 8 Guðrún 2,24%, 9 Corinna 3,02%, 10 Gunni 3,53%, 11 Hrafnhildur 3,68%, 12 Ingigerður 4,33%, 13 Bjargey 4,92%, 14 Eggert 7,65%

Síðan er það endanleg röð keppenda og lokaúrslit:

1. Stefanía 1,38%, 2. Inga María 2,35%, 3. Aðalsteinn 4,47%, 4. Corinna 5,51%, 5. Guðrún 5,78%, 6. Sibba 6,82%, 7. Gunnhildur 7,07%, 8. Pétur 7,73%, 9. Ingigerður 7,82%, 10. Kolla 8,35%, 11. Hrafnhildur 8,57%, 12. Gunni 8,80%, 13. Bjargey, 13,32%, 14. Eggert 20,92%

Úrslitin eru skýr. Stefanía sigrar enn á ný og náði meira og minna að halda sér í ætlaðri þyngd allan tíman. Inga María bítur í hælana á Stefaníu enda ekki nema 0.9% munur á þeim stöllum sem er að meðaltali 0.21% í hverri vigtun sem er varla til að tala um. Til hamingju Stefanía !!!

Í liðakeppninni voru úrslitin afgerandi því sökkurnar í keppninni voru í Bláa og Svarta liðinu. Þess vegna burstar Rauða liðið, það Bláa í öðru og Svartir síðastir. Til hamingu RAUÐIR !!!

Göngudeildin þakkar keppendum samstarfið og lesendum þolinmæðina. Nú verður keppniskröftunum beint að hlaupabrautinni enda tónninn gefinn síðasta laugardag þegar Kolla, Stefanía og Aðalsteinn fóru 32 km eins og að drekka vatn. Þetta var þrátt fyrir að hafa lengst farið 23 km áður. Hvílíkt kjarnorkufólk enda ekki laust við að farið sé að örla á skiptingu innan Göngudeildar líkt og í réttunum þar sem dregið er í dilka, eftir því hversu langt og hratt er farið.

Njótið sumarsins og verið dugleg að hlaupa !!!

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk fyrir bloggið. Og til hamingju Stefanía. Algjörtlega að rusta þessu!
Kv. Corinna

26. maí 2009 kl. 16:17  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim