laugardagur, 9. maí 2009

Byrjendablús

Bakgrunnur þessa pistils er morgunæfing Laugaskokkara sem var frá Turninum í morgun. Þar sem hópurinn lagði af stað þá byrjaði fljótt að teygjast á hinum ýmsu einingum hópsins eftir því sem þrekið sagði til. Bjargey og Eggert urðu strax öftust og varð þeim hugsað til dýralífsþáttanna sem margir hafa séð í sjónvarpinu þar sem hjörðin er á ferð og dýrin sem ekki standa sig dragast afturúr og sjást síðan ekki meir. Varð þeim að orði að þetta væru oftar en ekki örlög byrjenda í skokki. Þegar horft er á hópinn bætast ekki margir við á hverju ári og eðilegt að spurt sé af hverju? Svo hefur það verið gagnrýnt að það sé erfittt að komast inn í skokkhóp eins og okkar því tilfinningin væri sú sama og að ryðjast inn í fjölskylduboð. Þótt þetta geti verið upplifun margra þá þarf að skoða hlutina í samhengi og kannski er lausnin að eiga smá pistil á síðunni okkar um það hvernig er að byrja í skokkhópi eins og Laugaskokk.

Þegar byrjað er í hlaupahóp þarf að athuga að þarna eru hlaupafélagar sem hafa hlaupið saman oft í viku svo árum eða áratugum skiptir. Það þýðir ekki að þeir séu ekki tilbúnir að hlaupa með einhverjum öðrum eða gefa sig á tal við aðra. Þegar lagt er af stað í hlaupin þá er það oftar en ekki hraðinn sem ákvarðar félagana og það er því dagsformið sem segir til um með hverjum er hlaupið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að gefa sig á tal við þá sem maður skokkar með. Síðan er auðvitað gott að geta mætt með einhverjum sem hleypur á svipuðum hraða til þess að vera ekki einn, en þá er líka hætta á að viðkomandi haldi sig sér og blandi ekki geði við hópinn. Auðvitað skiptir máli að mæta á sem flestar æfingar því eftir því sem byrjandinn hittir hópinn oftar þá verður maður ekki byrjandi lengi. Það er því ekki nóg að mæta á eina æfingu og ætla að dæma starfið eftir þá heimsókn.

Það er mikilvægt að skilja að félagarnir í Laugaskokki hafa allir byrjað á einhverjum tíma í hópnum óháð hlaupagetu. Það er mesti misskilningur að félagarnir séu allir þrusu hlauparar frá fyrsta degi. Með iðni og ástundun hafa orðið ótrúlegar framfarir og mörg skemmtileg dæmi þar um. Framfarirnar þurfa ekki aðeins að vera í hlaupunum heldur líka í að eignast góða og skemmtilega félaga.

Loks er að nefna hinn sanna byrjendablús þegar mætt er á æfingu og allir hlaupa af stað og byrjandinn verður aftastur, missir af hópnum og týnist eða villist!!! Það þarf samt ekki alltaf byrjanda til eins og sagan um ferðina á „Heimsenda“ sannar en vissulega hefur þetta oftar en ekki hent margan byrjandann og ekki ólíklegt að þetta hafi haft þau áhrif að viðkomandi lætur ekki sjá sig meir. Hérna mætti bæta innviðina hjá hópnum okkar, bæði í því að vera ákveðnari í að greina byrjendur og fylgja eftir að vera í sambandi við þá og síðan að vera með pistla og reynslusögur á vefnum okkar um það hvernig okkur leið að vera byrjendur í Laugaskokki og ekki hvað síst hvernig við leystum úr „Hans og Grétu, líðaninni að vera skilin eftir á æfingu án þess að hafa steina eða brauðmola til að vísa leiðina aftur niður í Laugar :-)

2 Ummæli:

Blogger Jóhanna sagði...

Mjög góðar hugleiðingar. Hvetaalla byrjendur til að þreyja þorrann og Góuna. Þetta er svol. spurning um að bera sig eftir björginni en þá skilar það sér líka margfallt ;)

10. maí 2009 kl. 10:53  
Blogger Sveinbjörg M. sagði...

Kannast vel við þessa tilfinningu að týnast og villast og alla þá hluti. Alltaf langsíðust og svoleiðis. Þetta var náttúrulega frekar erfitt fyrst en maður vandist þessu og ég lét þetta snúast fyrst og fremast um sjálfa mig. Þetta mun koma, tekur bara smá tíma:-)

Eina var að ef ég vissi hvert og hvar átti að fara og ég rataði, þá var ég mjöööög ánægð og ef ég kláraði það sem ég setti fyrir að gera eins og að klára 10 km keppnishlaup þó ég væri svo innilega langsíðust, þá var mér alveg sama, ég kláraði sett mark og það var ég rosalega ánægð og mikill plús ef ég toppaði gamla tímann minn:)

Guð veit hvernig ég verð þegar ég fæ hlaupaleyfi aftur hvenær sem það verður. Verð örugglega mjööög mikill byrjandi aftur (er reyndar eilífðarbyrjandi svosem.. hehe.. ;)en það verður að hafa það, þetta hlýtur að koma vonandi aftur;) Vonandi að þetta ökklavesen lagist sem fyrst eftir þessa speglun sem ég er að fara í bráðum og nái að jafna mig alveg svo ég geti hitt á alla þessa yndislegu Laugaskokkara sem ég sakna í botn:*

Jæja, best að hætta þessari löngu ritgerð:o)

Kv. Sveinbjörg

10. maí 2009 kl. 23:57  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim