miðvikudagur, 21. janúar 2009

Vika 2 í keppni Göngudeildar

Það voru trekktar taugar Kirsuberja og Bláberjabakna sem mættu í Laugaskokk í dag til þess að fá fram úrslit í annarri viku „Biggest Looser“ keppni Göngudeildar. Það var reynt að hanga sem lengst á skokkinu í dag til þess að losa sem mest af vatni en allt kom fyrir ekki. Það hafði mikið gengið á í vikunni. Dramatískar lýsingar af heimiliserjum vegna matargerðar og félagslegri einangrun á vinnustöðum voru áberandi og skyggðu á annað sem gekk á í þjóðfélaginu. Hápunkturinn var þó frásögnin af Bláberjabökunni sem grét við eldhúsvaskinn þegar hún hellti niður kókflöskunni og setti restina af jólakonfektinu í ruslafötuna. Jafnvel hinir hörðustu Laugaskokkarar komust við þegar þeir heyrðu af þessu.

Á samráðsfundi Göngudeildar sl. laugardag var ákveðið að refsigjald þeirra sem væru í 5-8 í hverri viku væri ISK 500 sem yrði safnað og ráðstafað í lok keppni til þeirra sem eftir yrðu. Einnig var ákveðið að tapliðið í rauða vs. bláa slagnum myndi kaupa máltíð handa vinningsliðinu. Reyndar urðu nokkrar umræður um hvort þetta væri viðeigandi því þetta samsvaraði því að fagna 8 vikna edrúmennsku með því að detta í það, en niðurstaðan var sú að ef þetta væri hollustumáltíð myndi það sleppa!!!

Glöggir lesendur taka eftir því að nú er Pétur F kominn inn í töflur og útreikninga. Einnig er birt núna staðan í heildarkeppninni því þótt það séu úrslit í hverri viku þá verður bara einn„Biggest Looser“ í restina. Til þess að teygja ekki lopann lengur þá koma hér úrslit annarrar viku.

Úrslit viku 2
1. Bjargey.............. 2,34%
2. Stefanía ............ 1,98%
3. Hrafnhildur ......... 1,03%
4. Aðalsteinn .......... 0,98%
5. Eggert ............... 0,91%
6. Kolla ................. 0,79%
7. Pétur ................ 0,59%
8. Gunnhildur .. ...... 0,49%

Sigurvegari að þessu sinni er Bjargey og óskum við henni til hamingju. Bjargey hefur verið einbeitt og viljaföst og veitir ekki af þar sem hún á við ramman reip að draga því Stefanía lætur ekki deigan síga. Eru þær stöllur í nokkrum sérflokki þessar fyrstu tvær keppnisvikur. Rétt er að vekja líka athygli á hástökkvara vikunnar henni Hrafnhildi sem stekkur úr sjöunda sætinu í það þriðja. Það getur því allt gerst.

Í liðakeppninni urðu straumhvörf þessa vikuna því Bláberjabökurnar sigruðu Kirsuberin, reyndar með minnsta mun, 4.87 gegn 4.24. Engu að síður athyglisvert því Kirsuberin möluðu andstæðinga sína í fyrstu vikunni.

Í heildarkeppninni er staðan þannig: 1, Stefanía-5,65%.., 2. Bjargey-5,55%.., 3. Aðalsteinn-3,14%.., 4. Kolla-2,41%.., 5. Gunnhildur-1,75%.., 6. Eggert-1,69%.., 7. Hrafnhildur-1,51%.., 8. Pétur-0,59%.

Göngudeildin hvetur lesendur til þess að líta á bloggið í næstu viku og sjá hvort Bjargey og Stefanía ná að halda uppteknum hætti. Hverjir verma botnsætin og borga? Spennan er gífurleg!!!

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Óska sjálfri mér til hamingju með bronsið!!!

Og náttúrulega Bjargeyju með gull og Stefaníu með silfur!

Hrafnhildur

21. janúar 2009 kl. 23:25  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég nötra! Mun að sjálfsögðu fylgjast með áfram. Komaso!
Kv. Eva

22. janúar 2009 kl. 09:21  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta er gríðarlega spennandi og greinilega mikill keppnisandi þarna í gangi enda mætti Gunnhildur í rauðum fötum á æfingu til þess að sína stuðning við sitt lið.

Kv Bogga

22. janúar 2009 kl. 11:06  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Meðan maður stendur vaktina fyrir framan Alþingi sér maður suma keppendurna vera að taka x-tra kílómetra (ekki á laugaskokksæfingum) til að taka þetta örugglega..Ég nefni engin nöfn en viðkomandi er sigurvegari síðustu viku!!! Ég er að spá í stofna þriðja liðið og það mun kallast eggjarliðið!!Hef aldrei fengið aðrar eins harðsperrur eins og eftir síðustu daga, er farin að æfa fyrir að standa kyrr!!!
Kv.Eggið

24. janúar 2009 kl. 18:21  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim