fimmtudagur, 17. september 2009

Hálfleiðarar á hlaupum.

Þá er það ákveðið, hópur Laugaskokkara hefur ákveðið að stefna að því að bæta tímann sinn í hálfu maraþoni í hausthlaupi Félags maraþonhlaupara í lok október. Öllu skyldi tjaldað til svo að árangur yrði í samræmi við björtustu væntingar meðlima. Þá er kallað í fagmenn. Eins og hringt er í Gunna Þórðar ef semja á lag sem komast á á toppinn eða talað við Stefaníu ef skipuleggja á fjallgöngu þá er talað við Sumarliða til að redda prógrammi. Og ekki stóð á því, prógrammið skilaði sér hratt og vel og skyldi afhjúpað á æfingu á miðvikudag.

Í feiminni undrun horfðu menn svo á næstu vikur, svartar á hvítu frá Sumarliða, þar sem það lá á borðum í Laugateríunni. Gömlu karlarnir létu á litlu bera og báru harm sinn í hljóði, en tár sást í einstaka hvarmi. Sex æfingar í viku! Hvað heldur Sumarliði eiginlega að við séum? Einhverjir ofurhlauparar? Hvar er prógrammið þar sem menn hlaupa eins lítið og þeir nenna og ná samt Personal Best? Var verið að svindla á okkur?

Hlaupið var frá Laugum á fyrstu æfingu og skyldi hlaupinn Fossvogshringur. Fyrstu 3 km. áttu að vera á spjallhraða en Hálfleiðarar voru samt óvenju þögulir þann tíma. Nafn hópsins að sjálfsögðu tengt því að meðlimir hans ætla að hlaupa hálfa leið í október þegar hinir fara heilt maraþon. Einhverjir bentu á að þetta væri líka eitthvert rafmagnsfræðilegt hugtak en þar sem enginn meðlima er áhugamaður um rafmagn og eðlisfræði létum við það sem vind um eyrun þjóta. Kári veit kannski eitthvað um þetta ef svo ólíklega vill til að einhver vilji fá á því útskýringu.

Eftir að hlaupnir höfðu verið 3 km. á spjallhraða tók við ógnvættur dagsins, 5 km. á 10 km. pace, sem þýddi að flestir meðlimir þurftu að keyra niður á 4:30 í hraða. Hófst þá hatrömm barátta þar sem vart mátti á milli sjá hvor hafði betur, hinn einbeitti hálfmaraþonhópur eða Fossvogurinn. Sér í lagi þar sem fimmti kílómetrinn endaði við brekkuna við kirkjugarðinn, þar sem bæði ku vera reimt auk þess sem brekkan er sögð brött. Engu að síður stóðu hálfleiðarar sig með prýði og var sæst á stórmeistarajafnteli í þessari viðureign hópsins og brautarinnar. Pétur Ísleifss. tók meira að segja kirkjugarðsbrekkuna með trukki og glotti óhræddur framan í örlögin. Er hann nú um stundir talin bjartasta von hálfleiðara en meðlimir hópsins bíða spenntir eftir kosningu næstu viku og ljóst að margir hafa hug á að ræna Pétur nafnbótinni. Má þar t.a.m. nefna Helen, sem sýndi góð tilþrif á annarri æfingu hópsins, þar sem keyrt var á beispeis (þetta er eitthvað sem Sumarliði getur útskýrt fyrir áhugasömum) upp að Elliðaárstíflu og aftur heim í Laugar.

En hálfnað er verk þá hafið er og flestir okkar manna dauðfegnir að prógrammið skuli vera hálfnað, enda strembnara en þetta þægindahlaup sem við höfum stundað undanfarnar vikur eftir að helstu keppnishlaupum lauk. Sé eitthvað til í þeirri kviksögu að árangur taki mið af æfingum ætti hópurinn ekki að þurfa að örvænta enda mun hann eyða drjúgum hluta frítíma síns á hlaupum næstu vikurnar ef prógrammið góða fær einhverju ráðið. Fyrsta skróp hópsins hefur nú verið þaulhugsað. Föstudagurinn segir Recovery hlaup, við verðum á Kaffibarnum. Og sjáumst svo hress á laugardaginn með prógrammið við hendina.

1 Ummæli:

Blogger Jóhanna sagði...

Hélt fyrst að konur í hlaupalægð væru að skrifa= hálfleiðar á hlaupum (seinfatta)
Ég veit alveg að þið hafið ekki náð að vera á 10km peisi alla 5km. Því það er ógeðslega erfitt. En verið þolinmóðir þessar æfingar svínvirka- bara ekki alveg strax. Mínar októberæfingar í fyrra skiluðu sér í Janúar.
Skemmtilegur pistill og ég mun fylgjast með ykkur, Kannski mætti letrið vera stærra sérstaklega í ljósi þess að flestir eru 50+ ;)

18. september 2009 kl. 20:19  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim