sunnudagur, 13. september 2009

Karlar í krapinu (þrekinu)

Eins og mér finnst gaman að vera í hlaupahóp, þ.e. Laugaskokki, þá er bara eitt sem ég get ekki gert þessa dagana, en það er að hlaupa !!! Alveg frá því að ég asnaðist síðasta vetur að halda að ég gæti haldið í Boggu á sprettæfingu úti í kuldanum, þá hef ég verið að glíma við bólgið hásinaslíður sem minnir á sig öðru hvoru og þegar ég var að ljúka löngu hlaupunum í undirbúningnum fyrir Rvk maraþonið var komið að slíkri áminningu að nýju. Ég hef leitað álits fagmanna og annarra á lausn á þessari raun og öllum ber saman um að ég þurfi að gera þrennt, en það er að styrkja, teygja og kæla.

Ég hef því mætt á æfingar og í stað þess að hlaupa með hópnum hef ég farið á stigvélina, fótapressuna og teygt eins og ég mest má og get. Það er hins vegar þekkt vandamál hjá hlaupurum að þeir gefa alhliða líkamsstyrk ekki nægilegan gaum og þetta er ekki hvað síst ástæðan fyrir endalausum hlaupameiðslum.

Svo ég komi mér að efninu, þá var ég að leita leiða til þess að bæta úr þessu og varð hugsað til þess að Þórir Dan hefur verið í karlaþreki á morgnana og hann hefur látið mjög vel af því. Reyndar hafa öfundarraddir haldið því fram að hann hafi verið duglegastur að byrja en litlum sögum fari af framhaldinu, en ég held að það sé della. Ég innritaði mig því í karlaþrekið með Þóri þetta haustið og þótti sem við værum karlar í krapinu, þótt einhver kynni að segja að við værum frekar á hálum ís. Ég beið spenntur eftir að sjá hvort mér lánaðist að vakna kl. 5:30 til að vera mættur á slaginu sex að morgni því hingað til hef ég haldið að það væru bara þjófar og útigangsfólk á ferli á þessum tíma. Það kom mér því á óvart fyrsta morguninn sem ég mætti að það skyldi vera löng biðröð af fólki á leið í ræktina. Ekki hvað síst að sjá þær stöllur Helgu, Sibbu og Berglindi (þekkt í æsku sem Begga) mættar í einkaþjálfun svona snemma dags. Það eru sem sagt fleiri en ég að gera eitthvað í sínum málum. Ég var nokkuð einamana í fyrsta tímanum þar til Þórir birtist en hann er búinn að vera stoð mín og stytta í þessu ferli. Það kom í ljós að Rósa þjálfari var ekki mætt í fyrsta tímann og þótt ég væri þreyttur á eftir var mér sagt að þetta hefði verið létt. Hafandi mætt í fleiri tíma og þá undir stjórn Rósu var engu logið. Það eru endalausar armbeygjur, uppsetur, dauðagöngur, spinning og ég veit ekki hvað. Það var alveg ótrúlega neyðarlegt eftir þriðja tímann að koma dauðþreyttur í búningsklefann og vera svo kraftlaus eftir armbeygurnar að geta ekki náð íþróttatöskunni ofan af skápnum!!! En þetta lagast með hverjum tíma og þar sem þetta eru bara 8 vikur, fer maður fljótt að sjá fyrir endann á þessu nema ég verði svo húkkt að ég haldi áfram. Það sem er þó mest spennandi er tölfræðin, því Rósa tók niður hinar ýmsu mælingar í fyrsta tímanum s.s. þyngd, fituprósentu, mittismál, tíma á einum km í hlaupum og fjölda af armbeygjum og uppsetum í einni lotu. Vonandi verður einhver framför svo maður þurfi ekki að leita til seglagerðarinnar þegar kemur að fatakaupum :-)

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Góður... og þörf áminning. Það er örugglega aldrei of oft minnt á mikilvægi alhliða styrktaræfinga. Þú skorar væntanlega risaprik hjá Boggu fyrir þennan pistil ;-)

Hrafnhildur
sem hefur bara einu sinni hangið á húninum kl. 06:00

14. september 2009 kl. 15:31  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Það eru mörg prik sem fást fyrir þennan pistil og það eru fleiri í Laugaskokk sem eru að skora fullt af prikum.
Það væri gaman að fá pistil frá Berglindi, Helgu og Sibbu

KV
Bogga

15. september 2009 kl. 12:22  
Blogger Sibba sagði...

Eggert og Þórir, dugnaðurinn er þvílíkt að skila sér til ykkar. Þið eruð þrusuflottir. Gaman að hitta ykkur í Laugum svona snemma dags við aðra iðju en vanalega.

Ég held að styrktaræfingar verði að fara saman með hlaupunum. Allir Laugaskokkarar ættu að huga að því sem ekki gera það nú þegar.

Hlakka til að hitta ykkur áfram ...

2. október 2009 kl. 19:54  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim