Rútuhlaup og maraþondraumar

Það voru því hefðbundnir göngudeildarmeðlimir og maraþonjómfrúrnar Aðalsteinn, Hrafnhildur, Kolla og Stefanía sem hófu undirbúning ásamt Krissu sem er reyndar ekki jómfrú í þeim skilningi síðan í Tíbet um árið. Maraþonáróðursmeistarar reyndust nefnilega hafa verið víðar að verki en í Esjuhlíðum, þeir fara víst líka með fórnarlömb sín á kaffihús, snúa þeim þar frá leti og hóglífi og æsa þá til maraþondáða. Það kom reyndar á daginn að Krissa átti harma að hefna síðan á hásléttum Indlands og sættir sig ekki við minna en Íslandsmet í bætingu. Það er ekkert gamanmál að verma neðsta sætið á lista yfir maraþonhlaupara Íslands. Það vita ekki allir hversu erfiðar aðstæður voru í 3.500 metra hæð á indversku hásléttunni, einungis örfá súrefnismólikúl til skiptana og brennandi hiti, allavega þegar líða tók á daginn. Skiptir ekki máli að flestir hafi þá verið löngu komnir í mark að vísu. Nei það vita ekki allir þegar þeir góna á nafnið hennar Krissu neðarlega á maraþonlistanum hvernig þetta var.
Af þessu má ljóst vera að brautina þurfti að velja af kostgæfni þannig að skilyrði væru sem allra best fyrir frumraunina og Íslandsmetið. Gælt var við hlaup í Búdapest og Odense áður en ákveðið var að fylgja fleiri félögum Laugaskokks til Frankfurt undir styrkri stjórn Sævars bónda. Þegar ákvörðunin var tekin og hlaupið valið þurfti bara að finna hæfilega auðvelt prógram. Mílanó-módelið þótti heldur krefjandi af fyrri reynslu og útsendari göngudeildar dæmdi Daníelsdagskrána ívið hraðskreiða fyrir meðlimina eftir að hafa hlaupið fyrstu æfinguna, Vatnsmýrarhlaupið, í blóðspreng í örvæntingarfulltri tilraun til að verða ekki að athlægi í hlaupaheimum. Krissa dró þá úr pússi sínu eins og töframaður Tíbetarprógram frá Elínu Reed sem heillaði göngudeildina upp úr skónum og gulltryggði sér þannig sæti í deildinni. Reiknimeistarinn Stefanía taldi vikurnar af öryggi aftur á bak frá 25. október til að finna upphafspunkt miðað við rauntímann 10. ágúst.
Æfingar hófust og gengu framar vonum þó andlegur og líkamlegur leiðtogi göngudeildar hafi því miður verið fjarri góðu gamni undanfarnar vikur. Eitthvað hefur Aðalsteinn síðan orðið einmana í hinum kvenlega félagsskap því hann skellti sér í septemberbyrjun í sjúkradeildina til Eggerts og tók að sér nauðsynlegt hlutverk bílstjóra og butlers á lengstu æfingum. Fjórir "uppistandandi" maraþonkandídatar göngudeildar halda ennþá góðum dampi í prógramminu og heyrast æ oftar stynja andstuttar á æfingum "Við erum að fara alltof hratt, stelpur. Við eigum bara að vera á 5.40"

1 Ummæli:
Líkt og segir í kvikmyndinni " I have trained you well " !!!!
Þið eruð aldeilis frábærar !!!!!
Hreint frábært framtak og frábær árangur
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim