sunnudagur, 20. september 2009

Hálfleiðarar hálfeinmana

Það var ekki laust við að Hálfleiðarar væru hálfeinmana þegar þeir mættu galvaskir til laugardagsæfingar. Frankfurtfarar voru flestir komnir langleiðina til Nesjavalla ásamt fríðu föruneyti, rútulausir, New York farar og Ívar höfðu sömuleiðis stefnt til fjalla en þó var það býsna álitlegur hópur sem safnaðist saman við Laugar og beið örlaga sinna í góðviðrinu.

Sumarliði var á svæðinu og var ráðgast við hann um hlaup dagsins. Við þökkuðum honum í hljóði, allir nema Pétur Ísleifss., þegar við heyrðum að áherslan væri ekki á að fara sem lengsta vegalengd heldur að standa sig í hraðanum. Prógrammið góða sagði 18 km. á vaxandi hraða og við svo búið var haldið hina einu sönnu laugardagsríkisleið, vestur í bæ og vonast eftir hinu besta. Fyrstu km. áttu að vera hægir, á ca. 5:50 en fljótlega kom í ljós hve fótfráir Hálfleiðarar eru orðnir og gekk illa að tjónka við þá. Þeir skunduðu brautina eins og óþolinmóðir veðhlaupahestar og var hraðinn fljótlega kominn í 5:20. Varð þá snarlega að skipta um strategíu og stefnt að því að halda þeim hraða hálfa leiðina og gefa svo í seinni hlutann. Sést af því hversu Hálfleiðarar eru sveigjanlegir, auk auðvitað annarra mannkosta.

Við Eiðistorg var ákveðið að halda lengra vestur eftir enda óvenju roklítið á Seltjarnarnesi þennan daginn. Því var hlaupið inn að Lindarbraut, upp heiðina þar og svo til baka Suðurnesið, næsti áfangastaður Nauthóll. Á þessum kafla átti hraðinn að vera um 5:20 og svo átti að gefa í smám saman eftir því sem nálgaðist Laugar. Mun betur tókst að fylgja þessari áætlun en áður og fór hraðinn stigvaxandi og var kominn undir 5:00 við Valsheimilið. Þegar svo meðlimir hópsins voru komnir yfir Hringbrautina var eins og á þá rynni æði og þeir keyrðu niður Snorrabraut eins og þeir mest máttu og var hraðinn á þessum kafla vel yfir því sem stefnt var að, ca. 4:30. Ekki var vikið fyrir neinum, keyrandi, hjólandi eða gangandi, eða numið staðar fyrr en búið var að leggja nokkur hundruð metra að velli líka á göngustígnum við Sæbraut, þar sem heildarkílómetrarnir slógu í 18. Að lokum var skokkað 1,5 km. inn í Laugar og vel heppnaðri laugardagsæfingu þar með lokið.

Fyrstu viku í prógramminu góða er nú lokið og hægt að eyða helginni í að hlakka til mánudagssprettanna, auk þess sem við innum eftir fréttum af þeim Laugaskokkurum sem eyddu laugardeginum í óbyggðum.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim