föstudagur, 11. september 2009

Að koma af fjöllum

Þetta er búið að vera viðburðaríkt sumar hjá Göngudeildinni. Líkt og rollur að vori má segja að hún hafi verið meira og minna á fjöllum eða í sveit í sumar. Það hefur heldur ekki spillt fyrir hvað Laugaskokkarar hafa verið duglegir að drífa sig um allar jarðir til að taka þátt í öllum mögulegum og ómögulegum hlaupum. Tjaldborgarstemmingin í Gullsprettinum við Laugarvatn og í Jökulsárhlaupinu var frábær og fleiri að auki. Hápunktur sumarsins var samt 24 tinda gangan hjá Aðalsteini, Kollu, Hrafnhildi og Stefaníu sem gengin var á 28 tímum, auk þess sem Eggert tók hálft, þ.e. 12 tinda. Eftir Jökulsárshlaupið virtist koma los á hópinn og hefur hann hlaupið í ýmsar áttir og er ekki laust við að það eigi við Laugaskokk í heild.

Þegar Hrafnhildur lýsti því yfir að hún myndi missa af smölun þetta árið í Bárðardalnum vegna æfingahlaups mátti með sanni segja að samlíkingin við réttarstemminguna hafi átt vel við hlaupahópinn því það er eins og honum hafi verið smalað að hausti inn í Laugar líkt og í réttina en þetta árið eru dilkarnir sem dregið er í fleiri en venjulega því þótt allir mæti á æfingu á sama tíma, tvístrast hópurinn í hinar ýmsu áttir eins og Frankfurt hóp hjá Daníel Smára, annan slíkan hóp sem æfir eftir námsefni Mílanóskólans og svo þá sem æfa „eins og venjulega“ auk þess sem við erum rík af byrjendum þetta haustið. Má með sanni segja að fjölbreytt úrval hlaupa og áræði skokkara við að sækja þau breyti áferðinni á hlaupahópnum okkar.

Göngudeildin fer ekki varhluta af þessu og og varla að hún standi undir nafni því hún hefur skipt sér í hinar ýmsu áttir eins og hinir. Aðal tíðindin eru þó að Aðalsteinn, Hrafnhildur, Kolla og Stefanía ætla að skella sér til Frankfurt í maraþonið og æfa skv. námsskrá sem er ekki af einfaldari sortinni. Ekki nóg með það heldur hefur þeim bæst góður liðsauki í Krissu. Reyndar varð Aðalsteinn svo spenntur að hann er úr leik í bili vegna hjarsláttaróreglu en hinir halda ótrauðir áfram. Bjargey heldur sínu striki en Eggert sætir sömu örlögum og Þróttur í knattspyrnunni og er fallinn niður um deild, þ.e. í sjúkradeildina eftir að þrálát hásinameiðsli tóku sig upp að nýju. Hann ber harm sinn í hljóði og sækir huggun í karlaþrekið á morgnana með Þóri og vonandi segir hann betur frá því. Það væri gaman ef hin einstöku brotabrot Laugaskokks myndu láta frétta af sér svo Göngudeildin endi ekki á eintali á blogginu okkar.

Koma so !!!

4 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Og áfram Laugaskokkarar !!


Bjargey

11. september 2009 kl. 11:28  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur pistil Stefanía, það má með sanni segja að sumarið sé búið að vera viðburðaríkt hjá Laugaskokkurum í sumar. En það ánægjulega er að alltaf skila sér svo aftur heim á haustin þó að sumir skreppi í smá ferðalag.
Kv
Bogga

11. september 2009 kl. 11:31  
Blogger Jóhanna sagði...

Takk fyrir skemmtilegan pistil. Það verður spennandi hvað kemur svo út úr öllum þessum tilbrigðum.

11. september 2009 kl. 11:31  
Anonymous Sveinbjörg M. sagði...

Takk fyrir frábæran pistil!! :)

Alltaf gaman að heyra fréttir af fólkinu sínu. Búin að sakna þess óskaplega að hlaupa með ykkur og hittast. Það er komið næstum ár síðan ég hljóp síðast og ekki orðin nógu góð ennþá:o/ Maður verður víst að halda í vonina, er það ekki:o)

Bestu kv. frá Óhlauparanum mikla þetta árið, Sveinbjörg :o)

11. september 2009 kl. 15:55  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim