miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Þá er það vika 4

Tíminn flýgur. Það lá spenna í loftinu þegar keppendur mættu í Laugar í dag. Frosthörkur neyddu flesta til þess að æfa inni og var hangið í tækjunum og svitnað í þeirri veiku von að tapa einhverjum grömmum fyrir vigtun. Var augljóst á látbragði sumra að umskipti síðustu viku höfðu ekki dugað og fyrirsjáanlegt að breytingar yrðu á ný. Var ekki laust við að örvænting væri farin að grípa suma og þess vegna var svo uppörvandi að heyra söguna hennar Evu okkar í Laugaskokki, en þótt ótrúlegt sé, þá var hún einu sinni með BMI vísitölu sem hefði dugað til þess að opna offitudyrnar. Ótrúlegt, ekki satt? Fyrir þá sem vilja vita meira um þetta er bent á umfjöllun í Fréttablaðinu sem hægt er að skoða með því að fylgja eftirfarandi hlekk http://vefblod.visir.is/index.php?s=2715&p=68349=2715&p=68349.

Síðan hefur Ívar verið að benda sumum keppendum á svitahlaupaaðferð á bandinu með því að hlaupa brekkuhlaup dauðans. Ein bláberjabakan reyndi þetta en þeyttist af bandinu svo það er ekki alveg ljóst hvort keppendur treysta sér til þess að nýta þetta heillaráð. En til þess að lífga upp á umfjöllun um keppnina er Kolla farin að koma með myndavélina á æfingar og taka myndir að keppendum og birta á fésbókarsíðunni sinni. Þrátt fyrir hungurverkina er ekki annað að sjá en að keppendum takist að töfra fram gleðisvip og bros á myndunum sem segir að félagsskapurinn er frábær. En hér koma úrslitin:

Stefanía 1,22%
Aðalsteinn 1,17%
Gunnhildur 0,80%
Pétur 0,48%
Kolla 0,32%
Bjargey 0,15%
Eggert -0,11%
Hrafnhildur -0,25%

Úrslitin eru að mörgu leyti óvænt. Keppnisharka Stefaníu er aðdáunarverð og Aðalsteinn heldur sig skrefinu fyrir aftan. Til hamingju Stefanía. Fyrir þá keppendur sem vilja skilja leyndarmálið á bak við velgengni þeirra hjóna þá væri athyglisvert að vera fluga á vegg heima hjá þeim. Eggert, sem var stjarna síðustu viku er stjörnuhrap þessarar, en hástökkvaranafnbótin færist til Gunnhildar enda hennar tími kominn. Kirsuberin raða sér samviskusamlega í efstu sætin enda tóku þau Bláberjabökurnar í bakaríið í þetta sinn. Pétur heldur uppi heiðri Bláberjabakanna en þær verða greinilega að herða sig ef þær ætla að eiga roð við Kirsuberjunum. Heildarkeppnin stendur þannig: Stefanía, Bjargey, Eggert, Aðalsteinn, Gunnhildur, Pétur, Kolla, Hrafnhildur.

Nú er keppnin rúmlega hálfnum og ljóst að það eru nokkrir keppendur orðnir nokkrum fimmhundruð krónunum fátækari. En skyldi örvænting grípa um sig á botninum? Hvað taka keppendur til bragðs? Lesendur eru hvattir til þess að líta á bloggið í næstu viku til að sjá hvernig málum vindur fram.

6 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þið eruð alveg frábær, í alvöru talað þá brá mér að sjá ykkur á mánudaginn!!Það stór sér á ykkur öllum og fólk gerir greinilega allt til að létta sig, drekka safa heilu helgarnar og klippa hárið he he..Flott hjá ykkur þið eruð hetjur!!
kv. Hildur sem er orðin meðvirk svo ekki sé meira sagt :o)

4. febrúar 2009 kl. 23:09  
Anonymous Nafnlaus sagði...

já þetta er bara puð en árangur ekki alltaf í samræmi við puðið finnst manni

5. febrúar 2009 kl. 08:06  
Blogger Helga sagði...

Þetta er svakalega spennandi hjá ykkur! Skemmtileg liðsheild og gaman að þið deilið þessu með okkur! Keep up the good work!

5. febrúar 2009 kl. 16:15  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ætli það sé bara eitt salatblað í matinn hjá hjónunum? Eða er kórsöngurinn að gera svona góða hluti?
kv
Bogga

5. febrúar 2009 kl. 22:24  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta kostar okkur blóð, svita og tár en eins og Hildur sagði er allt gert til þess að léttast. Heyrst hefur af svörtu liði sem er einhvers staðar í felum og léttist í laumi, er einhver með upplýsingar um það? Svo hefur verið hvíslað um annað lið, vínberin, við höfum reyndar ekki hugmynd um hvað þau eru að gera......

6. febrúar 2009 kl. 21:15  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Það sem hjálpaði mér í minni er að skilja að það er einmitt alltaf samræmi milli puðsins og árangursins. Í þessari baráttu getur maður treyst því að maður uppsker eins og maður sáir.

Kv. Eva

8. febrúar 2009 kl. 08:17  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim