laugardagur, 3. október 2009

Á slóðum Rocky.,

Flestir Laugaskokkarar lenda fyrr eða síðar í því að hlaupa Rocky hringinn á frostköldum laugardagsmorgni og velta því fyrir sér, hlaupandi andstuttir upp Skólavörðustíginn, hvaðan nafnið sé dregið. Þeirri vanþekkingu er hér með skolað út í hafsauga þar sem hulunni verður lyft af leyndardóminum.

Það þykir nefnilega grunsamlega margt líkt með Rocky í æfingaham og Laugaskokkurum sem rúlla upp Bankastrætið og Skólavörðustíginn upp að Leifi heppna. Rocky tók sínar æfingar að vísu í Philadelphiu, í hnausþykkum, gráum bómullarjogginggalla, sem tískulöggur Laugaskokks myndu í snarhasti dæma óíveruhæfan. Æfing Rocky Balboa endaði í upphalla sem svipar til Skólavörðustígsins og þaðan kemur samlíkingin. Þá var þessi heimilisvinur Laugaskokkara reyndar að þeysast upp tröppurnar við Listasafnið í Philadelphiu.

Síðan er það að sjálfsögðu sigurdansinn, þegar tröppurnar hafa verið lagðar að velli, eða Skólavörðustígurinn í tilviki okkar Laugaskokkara. Sigurdansinn hefur kannski ekki enn unnið til sérstakra fegurðarverðlauna en allt annað er með honum. Það hleypur enginn Rocky án þess að taka sigurdansinn við fótstall Leifs Eiríkssonar, með sama hætti og Rocky vinur okkar gerði efst á tröppunum hér um árið og steytti svo hnefann framan í örlögin. Til að létta mönnum róðurinn við æfingar fyrir Rockydansinn er hér ágæt slóð á nokkur sýnishorn frá þeim sem lagt hafa í tröppurnar góðu.

http://www.youtube.com/watch?v=8oZvU6L4Xf0

1 Ummæli:

Blogger Hálfleiðarar sagði...

Hér er önnur slóð þar sem fylgst er með för meistarans, hann sýnist vera nokkuð yfir Hálfleiðarahraða.

http://www.youtube.com/watch?v=JyvrdEKLEw0&NR=1

3. október 2009 kl. 16:55  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim