laugardagur, 24. október 2009

Hálfa leiðin hlaupin

Þá eru Hálfleiðarar búnir að ljúka októberverkefni sínu, en því lauk við Rafstöðina í dag í blíðskaparveðri. Hópinn skipuðu Laugaskokkarar sem nenntu ekki að hlaupa heilt maraþon nú í haust en ákváðu í staðinn að reyna að komast aðeins hraðar í hálfu maraþoni en þeir eru vanir.

Átta Laugaskokkarar skipuðu æfingahópinn lengst af en 25% afföll urðu af hópnum, sem skrifast á hinn alræmda meiðslalista, en á honum voru Pétur Ísleifs og Halla. Því voru það sex Hálfleiðarar sem renndu sér í Fossvoginn í morgun, þ.e. Einar, Friðrik, Guðmundur, Pétur Sig, Davíð og Þorvaldur, auk fleiri Laugaskokkara og annara þátttakenda.

Flestir Hálfleiðara voru að bæta sig, náðu ýmist besta árangri ársins eða personal best svo að meðlimir hópsins voru kampakátir í leikslok. Sá óljósi grunur sem lengi hefur nagað huga einhverra okkar um að það kunni að vera samhengi milli ástundunar og árangurs hefur nú fengið byr undir báða vængi. Og þó að við getum þakkað sjálfum okkar ástundunina bera þó fleiri ábyrgð á þessu verkefni og hefst nú sú upptalning, sem verður í Óskarsverðlaunastílnum:

Við þökkum að sjálfsögðu hinum mikla prógrammsmið, Sumarliða Óskarssyni, en ljóst er orðið að þetta prógramm getur fengið ólíklegustu menn til að hlaupa hraðar. Auk þess að bera ábyrgð á prógramminu fylgdist Sumarliði með æfingum og ástundun hópsins úr fjarlægð á sinn föðurlega hátt og tryggði að menn héldu sig við efnið. Hafa Hálfleiðarar ákveðið að skála a.m.k. einu sinni fyrir Sumarliða í kvöld, auk þess sem við að sjálfsögðu óskum honum og öðrum Laugaskokkurum góðs gengis í Frankfurtarmaraþoni á morgun.

Við þökkum jafnframt frábærum skriðstilli hópsins, Ingólfi Arnarssyni, sem stjórnaði hraða og keppnisstrategíu Hálfleiðara eins vel og á verður kosið. Enda var leitað lengi að rétta manninum í verkið og hann sóttur alla leið til Hafnarfjarðar. Það var okkur mikið gleðiefni, en reyndar líka nýnæmi, að geta hlaupið við hlið Ingólfs í keppnishlaupi. Við munum því að sjálfsögðu jafnframt skála fyrir Ingólfi í kvöld.

Þá er ónefndur Ívar sjálfur Adolfsson, sem hvatti hópinn til dáða á sinn einstaka hátt. Ekki endilega að hann hafi látið hlý orð falla til hópsins, en hvatningarorð voru það engu að síður eins og honum einum er lagið. Oft er talað um gulrótina og prikið, og við þekkjum það að Ívar er minna gefinn fyrir gulrótina. En skítt með það ef það virkar, og því verður líka skálað fyrir Ívari í kvöld, helzt í góðu koníaki.

Við þökkum Pétri Ísleifs og Höllu fyrir góðan félagsskap á æfingatímabilinu og vonumst til að vera þeirra á meiðslalistanum verði skammvinn.

Að ógleymdi henni Boggu okkar, hvar værum við nú stödd án hennar? Hús verður ekki byggt á sandi, segir í fornri bók. Því að til að Sumarliðaprógramm á 2. level sé mögulegt, og menn jafnvel að teygja sig einstaka sinn á 3. level, þarf grunnurinn auðvitað að vera í lagi og Bogga hefur tryggt að svo sé.

Eðli málsins samkvæmt taka Hálfleiðarar sér hlé á næstunni og verða aftur óbreyttir Laugaskokkarar. Þó er aldrei að vita nema Hálfleiðarar eða afsprengi þeirra vakni af dvala einhvern tíma síðar, enda koma alltaf ný tilefni fram á sjónarsviðið. Rætt hefur verið um að leggja fleiri hlaup að velli, hér á landi sem erlendis. Þannig hefur Newcastle Half Marathon verið nefnt til sögunnar, en það ku vera bæði fjölmennt og sögufrægt. Tíminn einn leiðir í ljós hvað verður úr en hugurinn stefnir hærra, það er gefið.

En sem sagt, Hálfleiðarar halda sig til hlés í bili, yfir og út.

5 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Til hamingju með árangurinn Hálfleiðarar, það er búið að vera gaman að fylgjast með ykkur hér á blogginu. Það verður hálfleiðinlegt að geta ekki lesið lengur um afrekin ykkar ; )

Bjargey

24. október 2009 kl. 21:39  
Blogger Jóhanna sagði...

Frábært hvað þetta verkefni hefur tekist vel. Það er ýmislegt hægt í góðum hópi. Tek undir með Bjargeyju að það verður sjónarsviptir af ykkur á blogginu, en þið komið örugglega aftur þótt síðar verði, þá fæ ég kannski að vera með. Til hamingju allir.

24. október 2009 kl. 22:20  
Anonymous Sigrún sagði...

Til hamingju Hálfleiðarar, þið stóðuð ykkur með afbrigðum vel í dag (ásamt Ingó!). Ég ætlaði nú að vera með ykkur í prógramminu og hlaupinu en er enn meidd, en ég mun koma sterk inn að meiðslum loknum. Mér finnst nú algjör óþarfi að hætta að henda inn færslu af og til þó að þetta prógramm sé búið. Finnst sub45 fara ykkur vel fram að áramótum:-) Skál!

24. október 2009 kl. 23:59  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Til hamingju með flottan árangur. Það verður gaman að fá ykkur aftur sem óbreytta Laugaskokkara en þar er næsta verkefni hjá honum að hlaupa ofsahratt á gamálárs.

Kv
Bogga

25. október 2009 kl. 14:40  
Anonymous Nafnlaus sagði...

til hamingju hálfleiðarar með árangurinn og jafnframt er gott að sjá hve mörg tækifæri þið fenguð til að skála að loknu hlaupi
Kolla

27. október 2009 kl. 12:46  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim