sunnudagur, 18. október 2009

Hálfleiðarar hálf þreyttir

Nú sér fyrir endann á 6 vikna brambolti Hálfleiðara, en því lýkur næsta laugardag með því að Fossvogurinn verður hlaupinn fram og til baka með viðhöfn. Hópurinn hefur æft af mikilli samviskusemi undanfarnar vikur samkvæmt forskrift Mílanóskólans og hefur skólastjóri hans haft veg og vanda af æfingaáætluninni auk þess sem hann hefur litið með okkur þessar fáu vikur til að kanna hvort ekki væri verið að fylgja áætluninni af kostgæfni.

Það kom Hálfleiðurum mjög á óvart hversu mikil efnahagsleg áhrif æfingaáætlunin hafði, en sú hefur orðið raunin. Þannig hefur því verið skotið að okkur að rekstrarafkoma Lauga hafi versnað verulega á tímabilinu, sem einkum ætti sér skýringar í óeðlilega miklum kostnaðarhækkunum. Þannig hefði þurft að þvo töluvert fleiri handklæði en venjulega, óeðlilega mikil sápa hefði verið notuð í stöðinni og þar fram eftir götum. Hálfleiðarar játa hér með að þetta er að hluta til þeim að kenna, enda hafa þeir margir hverjir mætt í stöðina jafnoft og Ívar og Dóri, þ.e. allt að 6 sinnum í viku. Að hluta viljum við hins vegar kenna Frankfurtarförum um þetta, sem okkur sýnist að hafi líka verið iðnir við að mæta í Laugar í tíma og ótíma, þó að þeir hafi reynt að minnka skaðann með því að halda æfingar fjarri stöðinni, s.s. á Klambratúni.

En eins dauði er annars brauð, þannig er það alltaf. Meðan eigendur World Class horfðu hnípnir í gaupnir sér tók við mikill búhnykkur í stétt sjúkraþjálfara. Það er nefnilega þannig að fæstir Hálfleiðarar höfðu heyrt, hvað þá tekið sér í munn, orðið álagsmeiðsli á áralöngum hlaupaferli sínum. Einhverjir þeirra höfðu kannski orðið varir við þetta hugtak í amerískum hlaupablöðum en ekki látið það sig neinu varða. Því kom það eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar álagsmeiðsli tóku að stinga sér niður meðal Hálfleiðara þegar leið á prógrammið. Þannig er t.a.m. allsendis óvíst hvort þeir ná að tefla fram helstu vonarstörnu sinni í hlaupinu góða, þó auðvitað voni þeir hið besta. Aðrir munu vonandi mæta á staðinn galvaskir, með bros á vör og bólgueyðandi innvortis.

Þeir Hálfleiðarar sem ekki hafa komist á sjúkradeildina eru orðnir hálf þreyttir, enda töluverð fótavinna sem þeir hafa þurft að legja af mörkum undanfarnar vikur. Vel hefur samt tekist til með að beina skiljanlegri bræði þeirra frá Sumarliða og er nú um það almenn sátt meðal Hálfleiðara að ekki beri að skjóta sendiboðann í þessu tilviki.

Jafnframt hefur hugur Hálfleiðara beinst að útrás og hafa þeir kunnáttusömustu þeirra náð að googla heimsfræg hálfmaraþon í Bretaveldi, sem augu hópsins hafa að sjálfsögðu beinst að. Vinna við útrásina er, enn sem komið er, á algjöru byrjunarstigi, en þó er búið að festa tvo mikilvæga þætti. Í fyrsta lagi: Útrásarnafn Hálfleiðara er HL-Group. Í öðru lagi: Birmingham Half Marathon, gúglið þið það! Þannig eru Hálfleiðarar í raun löngu búnir að ná hógværum markmiðum sínum hérlendis í huganum og í raun bara formsatriði að mæta í gallanum á laugardag við rafstöðina.

Eða þannig.

1 Ummæli:

Blogger Hálfleiðarar sagði...

Og jafnvel enn heimsfrægara hálfmaraþon, Newcastle half marathon, það er af nógu að taka.

19. október 2009 kl. 20:36  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim