miðvikudagur, 4. mars 2009

Vika 8 – Úrslitastundin

Það voru einbeittir keppendur sem mættu snemma á æfingu í dag því nú var að duga eða drepast. Það voru allir inni nema Pétur og Hrafnhildur sem héldu út í frostið til að léttast. Fyrr um daginn höfðu keppendur farið að huga að tæknilegri útfærslu á því að sleppa við vigtun en hönnuður keppninnar var fljótur að senda póst á keppendur og benda á að ekki dygði að nota tölur síðustu viku því nú væri upphafsþyngdin notuð til grundvallar svo það væri affarasælast að mæta í vigtun. Svitinn bogaði af þeim sem voru í salnum og sást til Eggerts og Aðalsteins þar sem þeir læddust í gufu til að reyna að kreista fram síðustu svitadropana á meðan Gunnhildur, Kolla og Stefanía hömuðust á brettunum eins og þær væru göngunum í Kringlunni rétt fyrir útsölulok.

Ólíkt fyrri vikum þá var blásið til verðlaunahátíðar í Laugacafé og var mættur fjöldi Laugaskokkara til að fylgjast með verðlaunaafhendingunni. Spennan lá í loftinu en samt var fljótur að berast orðrómurinn úr kvennaklefanum að Stefanía hefði verið búin að léttast svo mikið að venjulega vigtin hefði ekki dugað heldur hefði þurft að sækja bréfavigt til að geta náð tölu hjá henni. Eggert var sestur með tölvuna og tók við tölum um leið og þær bárust og fyllti út eyðublað fyrir úrslitin. Hann tók reyndar til máls í byrjun og bauð gesti velkomna og sagði keppendur klökka yfir mætingu Laugaskokkara. Það væri gaman að tilheyra svona góðum hóp, en útskýrði jafnframt að Göngudeildin hefði séð það fljótt að ekki dygði að keppa í hlaupum heldur hefði hún mesta möguleika í léttunarkeppni sem þessari. Nú væri komið að lokum og vildu keppendur minnast þess með veglegum hætti með verðlaunaafhendingu og kökum. Ekki nóg með það heldur rifjaði hann upp að meiningin hefði verið að fá forsetann og frú til að afhenda verðlaun og kynnti á sviðið Ólaf og Dorrit okkar Laugaskokkara, nefnilega Ívar og Jóhönnu.

Ívar tilkynnti fyrst um úrslitin í liðakeppninni, en þar sigruðu Bláberjabökurnar með minnsta mun 28,3% gegn 27,75% eða 0,57%. Tæpara gat það varla orðið. Jóhanna afhenti sigurliðinu gullpening og Kirsuberin fengu silfur. Þá var komið að einstaklingskeppninni og var tilkynnt um sætin í öfugri röð, þ.e. byrjað á áttunda sætinu en þar var Pétur með 3.06%, sjö var Kolla með 3.66%, sex var Gunnhildur með 4.39%, fimm var Hrafnhildur með 5.54%, fjögur var Aðalsteinn með 7,82%, þrjú var Eggert með 9.84%, tvö var Bjargey með 9.86%, þannig að sigurvegari Biggest Looser 2009 var Stefanía með 11.87%, sem er hreint ótrúlegur árangur því hún fékk einnig aukaverðlaun fyrir að vinna flestar vikur og hún léttist líka mest eða 9,35kg sem var meira í kg. en hjá þyngri keppanda eins og Eggert sem nartaði í hælana á henni með 9.30 kg svo keppnin var æsispennandi á allan hátt eins og sést á tölunum.

Síðasta tölfræðin vakti nokkra kátinu viðstaddra en það var sú staðreynd að keppendur misstu 45.2 kg. sem telst vera 0,95 þjálfari þegar notaður er Borghildarkvarðinn !!!

Göngudeildin vill nota tækifærið og óska Stefaníu til hamingju með verðskuldaðan sigur og ekki hvað síst þakka öllum sem komu og fögnuðu úrslitunum með okkur í dag. Það er okkur mikils virði að eiga svona góða félaga. Einnig viljum við þakka keppendum fyrir hreint ótrúlega keppnishörku og úthald. Eins og sést á tölunum hafa keppendur heldur betur lagt inn fyrir hlaupin í sumar og verður spennandi að sjá hvort að bilið milli Göngudeildar og annarra Laugaskokkara styttist eitthvað :-)

10 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Borghildarkvarðinn!! Góður ;-)
Hrafnhildur

4. mars 2009 kl. 22:51  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Til hamingju Stefanía og líka allir hinir. Það sérst bara á öllum hvað þið eruð búinn að losa ykkur við.
Kv. Corinna

4. mars 2009 kl. 22:53  
Anonymous Nafnlaus sagði...

til hamingju Stefanía og takk fyrir góða keppni öll
Kolla

5. mars 2009 kl. 08:24  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þið eruð snillingar!! Því miður komst ég ekki til að fagna með ykkur!!!
Kv.Hildur

5. mars 2009 kl. 09:20  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með frábæran árangur! Kv. Eva

5. mars 2009 kl. 12:42  
Anonymous Nafnlaus sagði...

til hamingju með þetta orðin skithrædd æfi í laumi uppi í Bláfjöllum kv.Gulla

5. mars 2009 kl. 15:23  
Blogger Sveinbjörg M. sagði...

Innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur flotta fólk:-)

Kv. Sveinbjörg M.

5. mars 2009 kl. 18:49  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Frábært hreint út sagt!! Til hamingju með þennan glæsilega árangur öll sömul. Ekki hætta að blogga samt. Göngudeildin hlýtur að geta sagt frá einhverju af og til :-)
P.S
Mér finnst Borghildarkvarðinn alveg milljón!

6. mars 2009 kl. 00:23  
Blogger Jóhanna sagði...

Ég er ekkert smá stolt af þessum flotta vinahópi.

6. mars 2009 kl. 09:35  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vá, Geggjaður árangur. Til hamingju öllsömul.
Er ekki sagt að hvert kíló sé 1 mínúta af 10 km. tímanum ?
Bibba

6. mars 2009 kl. 20:13  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim