miðvikudagur, 18. mars 2009

Ný keppni hjá Göngudeild - Sleppt og Haldið '09

Þrátt fyrir að skammt sé liðið frá lokum Biggest Looser keppninnar þá er Göngudeildin að fara af stað með nýja keppni og nú geta fleiri verið með. Ástæðan fyrir nýju keppninni er ósköp einföld. Þegar keppendur sluppu úr sveltinu varð fjandinn laus og þegar ástandið var orðið þannig að það var búið að kalla út aukavakt hjá Gunnars majonesi og Nóa Síríus til að anna eftirspurn, þá var kominn tími til að hemja átið. Keppendur voru samt sammála um að þeir vildu ekki fara í harða megrunarkeppni aftur heldur finna eitthvað fyrirkomulag þar sem keppendur gætu ýmist verið að tapa fyrirfram ákveðnum kílóum eða halda fengnum hlut. Einnig fannst okkur sem þetta fyrirkomulag gæti freistað fleiri, þannig að við myndum fá fleiri í keppnina og jafnvel náð fleiri liðum en síðast.

Það var erfitt að finna keppnisfyrirkomulag sem er spennandi fyrir alla en grunnurinn er sá að keppendur setja sér markmið og keppnin felst í því að vera sem næst markmiðinu og frávik mæld sem hlutfall af þyngd. Sá keppandi sem er með lægsta frávikshlutfallið sigrar.

Keppnin nær yfir átta vikur, þar sem vigtað er formlega á tveggja vikna fresti. Þannig verða til fjögur úrslit sem gera okkur kleift að raða í sæti og safna sektarfé sem er notað í verðlaun. Sektarreglan er sú að þeir keppendur sem lenda í neðri helmingi úrslitatöflunnar í hverri vigtun þurfa að greiða 500 ISK. Þetta gæti gerst fjórum sinnum meðan á keppninni stendur.

Keppendur þurfa að ákveða hvert er átta vikna markmiðið. Þetta markmið er ýmist að léttast um tiltekinn fjölda kg. eða halda sér í tiltekinni þyngd. Okkur finnst ómóralskt að leyfa að keppendur ætli sér að þyngjast !!!

Þeir Laugaskokkarar sem vilja taka þátt í keppnni þurfa að senda tölvupóst á ritara keppninnar, hennar Hrafnhildar á hrafnhildurt@lv.is, helst um helgina, eða þann 21. mars nk. þar sem þið gefið upp BMI (body mass index) stuðulinn ykkar (notaður til að raða í lið) og síðan vigtarmarkmið fyrir vigtanir sem verða þann. 4. apríl, 18. apríl, 2. maí og síðan verða úrslit þann 16. maí svo keppendur geta sleppt sér daginn eftir á þjóðhátíðardegi Norðmanna !!!

Við höldum að þetta geti verið skemmtilegur leikur til að halda aftur af okkur við eldavélina og ísskápinn. Vonandi vilja sem flestir vera með :-)

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Svakalega er ég ánægð með ykkur!!!
Þetta er algjörlega málið, að halda bara áfram :)
Kv. Eva

19. mars 2009 kl. 14:26  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim