laugardagur, 13. nóvember 2010

Plastkarlinn (konan)

Þegar fréttist af mikilli þátttöku Íslendinga í Járnkarli á Florida í nóvember á næsta ári, fylltist Göngudeildin af eldmóð og skipulagði fyrstu þríþrautakeppni Göngudeildar, Plastkarlinn. Ástæðan fyrir nafninu var að það þótti nógu langt frá Járnkarlinum til þess að ekki væri ruglast á keppnum. Til þess að vanda til keppninnar voru skoðaðar bloggsíður þríþrautakappa til að læra sem mest um hvernig ætti að bera sig að við keppni sem þessa.

Ákveðið var að láta slag standa og keppnin haldin í dag. Um var að ræða lokað boðsmót og þess gætt að keppendur væru ekki fleiri en verðlaunasætin, þ.e. þrír. Keppnisgreinar voru þrjár, 2.5 km skíðaganga á Crosstrainer, 20 km á hjóli og loks 5 km hlaup á bretti. Þeim keppendum sem boðið var í þetta fyrsta mót voru Bjargey, Eggert og Kolla. Ástæðan fyrir því að þessir meðlimir Göngudeildar urðu fyrir valinu er að hinir eru erlendis, ýmist á ráðstefnum eða í leit að innri frið (í Nepal). Síðan hitt að Chicago hlaupararnir hafa ekki látið sjá sig eftir annálinn á Haustfagnaðinum þótt þeir hafi verið boðnir hjartanlega velkomnir í Göngudeildina.

Þótt keppendur væru mældir í þremur tækjum, þá voru líka tekin tvö tæki til viðbótar, ef ske kynni að það þyrfti að fá keppnina viðurkennda sem fimmtaþraut. Viðbótar tækin voru sófinn, sem er notaður í byrjun til að ná upp keppnisskapinu, og vatnshaninn, sem er notaður til að brynna keppendum eftir hjólakeppnina. Var ekki vanþörf á að bæta þessum tækjum við en hins vegar var greinilegt í fyrstu keppnisgreininni að þetta keppnisform reyndi misjafnlega á keppendur. Eggert náði ekki að stilla tækið rétt og Bjargey, sem reyndar er sú eina af keppendum sem hefur reynslu af viðurkenndri keppni í þríþraut, var ekki að ná réttum rytma í hreyfingum til þess að ná sem mestu út úr tækinu. Það var því fyrrverandi fimleikakonan, Kolla, sem geislaði af keppnisgleði þannig að crosstrainerinn varð að sméri í höndunum á henni svo að hún sigraði mjög sannfærandi þessa fyrstu grein. Næst var komið að hjólinu. Keppendur voru að ná tökum á keppnisforminu og æddu af stað. Þarna kom berlega í ljós hvað reynslan skiptir miklu máli því Bjargey byggði á fyrri þátttöku sinni og tók þessa grein í nefið. Eggert reyndi allt hvað hann gat og var meira að segja með hörku tónlist í eyrunum til að skammta taktinn en það kom ekki að neinum notum gagnvart reynsluboltanum Bjargey. Sólin sem skein á Kollu í fyrstu greininni var hnigin til viðar og því dimmt yfir okkar manneskju þar sem hún rak lestina í hjólagreinni. Þegar komið var að síðustu greininni gat staðan varla verið jafnari. Kolla og Bjargey höfðu unnið sitthvora greinina, en Eggert með naumt tímaforskot í heildina. Það var því ljóst að barist yrði til síðasta manns (konu) í hlaupinu. Rétt eftir að brettin höfðu verið ræst, sannaðist berlega döpur frammistaða á hlaupaæfingum undanfarinna vikna. Þekkt morgunógleði Bjargeyjar gerði vart við sig, fimleikameiðsli Kollu tóku sig upp og gigtarsjúklingurinn Eggert þjáðist að auki af svokölluðu Kolbrúnarheilkenni í vinstri mjöðm og gat sig varla hreyft. Það voru því örmagna keppendur sem skriðu yfir marklínuna og var rétt sjónarmunur á milli þeirra.

Eftir keppnina var keppendum gert að hittast á teygjudýnunni. Þá kom í ljós að þeir voru vel lesnir í fræðunum því kærunum rigndi yfir. Eggert var kærður fyrir að þiggja aðstoð/hvatningu í hjólakeppninni frá þremur tilgreinum aðilum, þ.e. Billy Idol, Foo Fighters og Rammstein, Bjargey var kærð fyrir óíþróttamannslega framkomu og loks kærði Kolla skráninguna á lokatímanum sínum í hlaupinu. Þess vegna eru eftirfarandi úrslit birt með fyrirvara. Eins var ákveðið, af tillitsemi við keppendur, að birta ekki heildartímann, heldur aðeins tímamun á milli keppenda.

Óstaðfest úrslit eru því að Eggert var í fyrsta sæti, Bjargey í öðru sæti 1 mínútu og 2 sekúndum á eftir og þá Kolla í þriðja sætinu, 3 mín og 7 sekúndum á eftir fyrsta manni.

Þrátt fyrir að það hafi gengið á ýmsu, þá voru keppendur engu að síður sammála um að keppnin hefði verið frábær tilbreyting frá því að æða út í kuldann um morguninn.

þriðjudagur, 20. júlí 2010

Stefnumót við Þorvald

Ég hef vitað af Þorvaldi í mörg ár og oft hefur mér dottið í hug að reyna að kynnast honum nánar. Af því varð þó ekki fyrr en í ár. Ég gaf út stórar yfirlýsingar á Facebook og sagði hverjum sem heyra vildi að ég ætlaði norður 3. júlí að hitta Þorvald... Þegar ég fór að afla mér nánari upplýsinga fóru nú reyndar að renna á mig nokkrar grímur en ekki var um annað að ræða en að standa við stóru orðin.

Hlaupið er frá Fornhaga í Hörgárdal niður á Árskógsströnd um 25 km leið í gegnum Þorvaldsdal. Hlaupið er um móa og mýrar og götur eru í mesta lagi þröngar og krókóttar kindagötur þar til komið er á jeppaslóða síðustu 7-8 km. Votviðri undanfarinna daga gerði það líka að verkum að göturnar og moldarbakkar lækja voru sleipir og hált var í blautu grasi og mýrarnar blautar og þungar. Hlaupið hefst að auki á drjúgri hækkun en leiðin fer hæst í um 500 metra ca 7 km frá rásmarkinu.

Ég var mætt tímanlega út á Árskógsströnd að sækja númerið mitt. Fleiri Laugaskokkarar voru mættir í Árskógsskóla, Sigrún Erlends, Agga, Ásta og Stefán Viðar með Spóa áttu eftir að standa sig dæmalaust vel þennan dag (sjá úrslit).

Hópurinn var fluttur með 2 bílum að rásmarkinu við Fornhaga í Hörgárdal og þangað voru fleiri hlauparar mættir. Þar var t.d. Pétur Frantz með gallvaska félaga úr Hveragerði.

Starri hlaupstjóri fór yfir helstu öryggisatriði áður en hlaupið var ræst. Mikilvægt var t.d. að álpast ekki inn í Afglapadal í upphafi hlaups og rétt að passa sig á því að hafa ána á vinstri hönd og halda sig vel til hægri á vatnaskilum til að fá ána aftur á vinstri hönd þegar halla færi undan fæti niður á Árskógsströnd. Við Hrafnagilsá myndu hlauparar eiga kost á bílfari yfir ána en bílstjórinn væri fullkomlega frjáls að því að hafa sína hentisemi við ferjunina og allar hans ákvarðanir og gerðir ókæranlegar!

Þegar hlaupið var ræst þustu þátttakendur af stað en ekki höfðu mörg skref verið tekin þegar brekkan fór að taka í. Ekki var um annað að ræða en ganga og reyna að gera það eins rösklega og kostur var. Að fyrstu drykkjarstöð og rúmlega það náði ég að verða samferða 2 konum sem tilheyrðu Pétri F að því að ég best veit en flestir voru hlaupararnir horfnir í buskann. Þó drægi úr mesta brattanum var langt frá því að leiðin gæti talist greið, engu er logið í nafngiftinni “óbyggðahlaup” og smám saman dró sundur með mér og konum Péturs. Þær voru þó lengst af í sjónmáli.

Á vatnaskilum fór ég frammúr öðrum hlaupara, sem hefði óneitanlega talist meira afrek ef hann hefði ekki snúið sig illa og verið að jafna sig eftir það til að geta hökt af stað aftur. Önnur drykkjarstöð var staðsett neðan við mikið framhlaup sem orðið hafði úr fjallinu og þaðan lá leiðin niður að ánni. Á þessari drykkjarstöð hitti ég Jakobínu frænku mína sem lá þarna í leti og hafði lagt af stað með göngufólkinu. Eftir stutt spjall við frænku og starfsfólkið á drykkjarstöðinni sá ég halta manninn nálgast í fjarska og ákvað að drífa mig til að reyna þó að halda forskoti á slasaðan keppinaut minn. Landið varð aðeins greiðfærara á köflum en þreytan var líka farin að segja til sín.

Næsti áfangi á leiðinni var vatn mikið sem Sveinn á Kálfsskinni mun hafa búið til í dalnum á sínum tíma í óþökk sveitunga sinna til að hita vatnið á Þorvaldsá svo lax gengi betur í ána en bændur sáu eftir góðum reiðgötum sem gott var að skeiða um dalbotninn. Um þetta má lesa í endurminningum Sveins, Vasast í öllu sem komu út árið 2007. Aftur glæddist von í brjóstinu þegar ég sá að ég dró heldur á rauðklædda veru framundan og það sló ekkert á gleðina að þegar ég fór frammúr henni reyndist þetta vera eldri kona, búin til göngu... annar roskinn göngumaður var skilinn eftir í rykinu örstuttu síðar.

Nú var ég komin á jeppaslóðann langþráða og sóttist ferðin aðeins betur. Framundan þekkti ég einn af þátttakendum sem lagt höfðu af stað á sama tíma og ég og var hvorki fjörgamall né sjáanlega laskaður. Það hlýtur að teljast gild framúrför!! Töluverðar áhyggjur hafði ég samt af bílstjóranum óútreiknanlega því ég nálgaðist ána en hafði ekki náð svo verulegu forskoti á keppinautinn að bílstjóranum gæti vel dottið í hug að hinkra og ferja okkur yfir í sömu ferðinni. Sú sálarangist reyndist fullkomlega ástæðulaus. Bílstjórinn var indælispiltur sem bauð mér orkudrykk og ferjaði mig umsvifalaust yfir ána. Varla var ég komin aftur á skrið þegar ég hitti fyrir ljósmyndara sem smellti í gríð og erg, ekki um annað að gera en reyna að rétta úr sér og kreista fram kraft í hreyfingarnar og skella upp einhverju sem vonandi líktist brosi meira en sársaukagrettu. Vegarslóðin vatt sig um melhóla og ég viðurkenni fúslega að allt sem var uppímóti gekk ég en reyndi að lulla áfram á hlaupum þess á milli. Ég var þarna reyndar hætt að hafa áhyggjur af að ná ekki í mark áður en tímatöku yrði hætt en orkan beindist öll að þvi að koma öðrum fæti fram fyrir hinn. Bláklæddur maður virtist í “seilingarfjarlægð” en heldur gekk mér hægt að draga á hann, kannski vegna þess að á síðustu drykkjarstöð hélt ég að sjálfsögðu uppteknum hætti og stoppaði og spjallaði við starfsmanninn sem fullvissaði mig um að úr því ég væri komin þetta langt myndi ég hafa þetta af. Vissulega var ég þarna farin að sjá vel til byggða og átta mig á því hvar markið langþráða hlaut að fyrirfinnast. Þangað komst ég á 3:30 og þáði verðlaunapening úr hendi Ingu konunnar hans Valda frænda míns og samlokur, banana, súkkulaði og ávaxtasafa til hressingar!

Þrem vikum síðar get ég sagt að mér fannst hlaupið skemmtilegt og umhverfið fallegt en óneitanlega flokkast þetta hlaup með því erfiðara sem ég hef tekið mér fyrir hendur (fætur). Undirbúningurinn fyrir hlaupið hefði sennilega mátt vera betri og hugsanlega hef ég lært þá lexíu að láta ekki undan leti og hlaupaleiða vikum og mánuðum saman síðla vetrar. Það er ekki gott veganexti fyrir metnaðarfulla dagskrá sumarsins!

Allt um Þorvaldsdalsskokk.

Hrafnhildur

miðvikudagur, 9. júní 2010

Sumarhlaup FH og Atlantsolíu, Skemmtilegt 5km. hlaup í Hafnarfirði

Í þetta hlaup mættu bæði afreksfólk og almenningur vel.
Laugaskokkarar, voru þarna, bæði á keppnisbuxunum, til að héra sitt fólk, og líka til að taka: ” koma ´sér í form æfingu”. Mér sýnist við hafa verið 6 sem hlupum.
Kolla var mætt með fylgdarlið á svæðið að hvetja sitt fólk og stóð sig vel í því, hún æsti unga stúlku í að vera á undan mér sem stúlkan gerði með leik.
Hlaupalöggan stóð við brautina eftir nokkkur hundruð metra og skipaði vinum sínum til og frá, reyndi þannig að stjórna umferðinni. Í bakaleiðinni var löggan mætt annarstaðar og sagði manni að taka betur á sem maður náttúrulega gerði “ löghlýðinn að sjálfsögðu”.
Fjölmenni var og brautin mjó en fljótt teygðist ormurinn þannig að fólk var ekki að hlaupa ofaní hvort öðru- maður gat allvega tekið framúr án þess að troðast ;)
Aðstæður voru glimrandi, pínu gola, mest á móti fyrri helminginn. Sem betur fer var öskuþokan, sem var daginn eftir, ekki mætt á staðinn en þá hefði sennilega þurft að aflýsa hlaupinu. Laugaskokkarar, allavaega þeir sem ég þekki, náðu markmiðum sínum. Héranum tókst að pína sinn mann á tilskyldum tíma. Og einhverjir bættu sig. Ég náði að hlaupa þessa 5 km. á 5mínútna tempói, mín bara í framför enda ágæt spyrna frá botninum. ;) Það er gaman að snúa svona við þótt það hægi pínu á, því þá sést hverjir eru fyrstir og á undan manni og líka hverjir eru á eftir. Það besta við 5km hlaup að það eru bara 5 kílómetrar ;)
Við vorum 6 sem munstruðum okkur við Laugaskokk og sýnsist mér allir geta verið ánægði smeð sig. Eiginkona hans og tengdafólk var á staðnum og náði maður alveg að sækja stuðning þar.
Björn Margeirsson tengdasonur Laugaskokks vann hlaupið með glæsibrag á tímanum 16:05. Eiginkona hans og tengdafólk var á staðnum og náði maður alveg að sækja stuðning þar. Okkar kona Helen Ólafsdóttir var önnur kvenna á flottum tíma: 18:50. Þórir Magnússon var líka á fínum tíma !8:48. Einar hljóp með syni sínum, alltaf gaman þegar tekst að smita afkvæmin af hlaupabakteríunni og Viktor Einarsson hinn nýi laugaskokkari hljóp þarna sitt fyrsta 5km. keppnishlaup, á fínum tíma. Hann fékk að auki 20 manna skúkkulaðitertu í útdráttarverðlaun. Jóna Dóra var þarna líka og hljóp á flottum tíma, perslónulega best held ég.
Þetta var mjög skemmtilegt og hressandi hlaup. Brautin var niður við sjó meðfram Strandgötunni og var því flöt. Mótshaldarar, Ritarinn o.fl. , segja þetta vera bætingabraut framtíðarinnar, einnig hefur heyrst að þetta verði líka vetrarhlaups-sería ekki ósvipað og Powerade, nema 5km og sennilega færri hlaup.
Fjöldi útdráttarverðlauna var í boði. Laugaskokkarar fóru heim með súkkulaðitertur (gjafabréf), drykki og plastsundlaugar o.fl. Ég mæli hiklaust með þessu hlaupi Hafnfirðinga. Það var vel að öllu staðið hjá þeim.
Á leiðinni heim keyrðum við framhjá þremur Gröfu og Kranaköllum þar af einn Laugaskokkara hlaupandi heim eftiri keppnina. Þetta kallar maður að nota almenningshlaup sér til stuðnings í æfingaprógrammi.

Laugaskokkarar á Mývatni

Í Minningunni er Mývatnsmaraþon: Pétur Franzson stormandi með fulla rútu af Námsflokkum á Mývatn, hann keyrir sjálfur og er búinn að redda góðri gistingu fyrir alla (nema kannski sjálfan sig), svo trommuðu allir sem gátu haldiði á vetlingi norður. Ef ekki hefði verið fyrir P.F. þá værum við ekki á Mývatni núna . Við Laugaskokkarar sem vorum á Mývatni þ. 29.mai sl. vorum öll sammála um það.
Við Ívar keyrðum norður á fimmtudgskvöld (ætluðum ekki að missa af neinu), gistum í Vatnsdal (Við Ólafslund þar sem hnífurinn er geymdur). Endalaust pælt í hvernig veðrið yrði og aðstæður til hlaups. Það að fara norður í maí er náttúrulega áhættuatriði. En það leit vel út með hlaupaveður.
Á föstudaginn rákum við inn nefið hjá Pétri Ísleifs, (Einum af okkar noðlensku Laugaskokkurum) sem nú býr á Laugum, fengum góðgerðir og héldum svo áfram.
Um kvöldið lentum við svo á Mývatni ásamt Gunna, Mundu (sem var alveg í gírnum fyrir maraþon daginn eftir) og Loppu. Berglind og Ævar ásamt Hilmi og Frakki voru mætt um morguninn hress og kát að vanda. Þarna voru líka nýr Laugaskokkari Stanislav Bukovski sem ætlaði að hlaupa sitt fyrsta maraþon, ásamt konu sinni og tveimur litlum guttum sem skottuðust um allt og höfðu mjög gaman að eltalst við Loppu og Frakk.

Oft hafa fleiri verið í Mývatnsmaraþoni 12 manns hlaupu af stað og startið lét lítið yfir sér. Við Gunni og Loppa keyrðum á eftir maraþonhlaupurum. Þetta leit mjög vel út. Ívar langfyrstur, við sögðum honum að missa ekki löggubílinn – hvernig missir maður löggubílinn? Jú maður missir einhvern fram úr sér og þar með fer löggubíllinn með honum. Næst Ívari kom Munda þessi uppstilling hélt þangað til ég þurfti að yfirgefa klappliðið og planta mér á startlínuna í 10km. Síðar frétti ég að 2 karlar hefðu troðiið séfr á milli þeirra vinanna. Munda var því 4. í mark í heildina, hún hljóp í markið á tímanum 3.42. 8 mínútna bæting! Þá kom sér vel að vera með pallföt ;)

Í startinu í 10km. sagði ég Berglindi að hún yrði að vera fyrst (engin pressa) og hún sagðist hafa hugsað þessi orð oft á leiðinni, gott að geta verið einhverjum hvatning. 10 km. brautin er erfið fyrst jafnslétt svo svaka brekka (brekkan þar sem maður byrjaði í hálfu á gömlu brautinni.), svo hæðótt upp og niður, svo brekka, svo brekka og svo brekka dauðans upp að jarðböðunum og þá er sagan öll. Það var gott veður og golan meira í bakið.

Laugaskokkarar unnu og unnu á Mývatni. Maraþonpallinn prýddu 1. sæti: Ívar (3.09) og Munda (3.42), þau fengu risa bikara og Blómvendi . Á 10km pallinum voru í 1.sæti hjónakornin Ævar (41) og Berglind (47) þau fengu bikar og blómvendi, nóg af blómum á því heimili. Í hálfmaraþoni vann Stefán Viðar (1.17) og Helga (1.41) var 3 konan, þau voru bæði að bæta sig. Sveitakeppnina í maraþoni vann sveit Laugaskokks , Munda, Ívar og Stanislav. En Stanislav hljóp í markið með strákana sína tvo sem komu á móti honu á tímanum 3.59 og var mjög sáttur.
Persónulega man ég varla eftir að hafa hlaupið svona hægt 10 km. þannig að maður getur kannski farið að skrá PV í hlaupadagbókina ;(


Ýmsir vinir Laugaskokks voru á staðnum, þar voru áberandi Árbæingar sem settu skemmtilegan svip á maraþonið með sínum appelsínugula lit. Þeir fengu á sig uppnefnið ruslakallarnir og náttúrulega borið upp á okkur að við hefðum komið því á sem er náttúrulega bara lygi.

Við Munda og Hilmir leystum svo út vinning síðan í fyrra og fórum í útsýnisflug með Mýflugi. Ekkert smá flott. Sumir voru að drepast úr hræðslu en það var bót í máli að flugmaðurinn þótti mjög töff ;)
Gott fjölskyldu og vina kvöld var framundan með smá eourvision og kosningavöku í Æsufellinu. Kosningavökuna horfði ég reyndar ein á gapandi af undrun meðan hinir fögnuðu ennþá hlaupasigrunum.

þriðjudagur, 8. júní 2010

Laugaskokkarar á Úlfljótsvatni

Laugaskokkarar fjölmenntu sem fyrr í Úlfljótsvatnshlaupið sl. laugardag og áttu góðan hlaupadag. Enda allt sem mælir með hlaupinu, sem staðið er að af miklum myndarskap að hætti Péturs Frantzsonar. Hlaupaleiðin er bæði fjölbreytt og skemmtileg, um vegi, stíga, slóða, móa, mýrar og skurði sem á vegi manna verða við Úlfljótsvatn og í nágrannasveitum.

Tuttugu Laugaskokkarar skelltu sér austur, fimmtán þeirra til að hlaupa og fimm til að starfa við hlaupið. Um 80 manns gerðu sig tilbúna fyrir startið og fljótlega varð ljóst af búnaði þeirra að vænst var molluhlaups. Enda sól og blíða á Úlfljótsvatni og stuttbuxurnar og stuttermabolirnir allsráðandi. Auk Laugaskokkara mátti sjá þarna stóran hóp Hamarsskokkara frá Hveragerði, en síðan dreifðust þátttakendur á hina ýmsu hlaupahópa.

Hlauparar voru ræstir af stað kl. 11 og lá leiðin frá bústöðunum og niður að Úlfljótsvatni og síðan veginn meðfram skátamiðstöðinni og í átt að Þingvöllum. Fljótlega teygðist á hópnum, enda menn í hlaupinu með mismunandi markmið, ýmist að taka vel á því eða að taka langt og rólegt laugardagshlaup í góðu veðri og góðum félagsskap, en tíðindamaður Laugaskokks var einmitt á þeim buxunum.

Því var það að Helen, Baldur, Sigmar og Steinar hurfu fljótlega í rykmekki en fyrstu kílómetrana fyldust IP-liðar, HL-liðar og MV-liðar að. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og eftir ca. 4 km. hlaup kom styggð að IP-liðum og þeir gáfu í og sáust ekki meira á því ferðalagi. Bætti ekki heldur úr skák að MV-liðar voru ekki þeir þolinmóðu og skilningsríku hlustendur sem IP-liðar höfðu e.t.v. vænst og .því fór sem fór. Samhlaup HL-liða og MV-liða gekk hins vegar það vel lengst af að rætt var um það í fullri alvöru að hefja sameiningarviðræður hópanna. Þannig fylgdust hóparnir að yfir móana, niður meðfram læknum og yfir báða fjandans skurðina sem þarna eru ennþá og engum dettur í hug að brúa.

Eins og menn þekkja þá líður tíminn hratt á hlaupum og eftir gott útsýnishlaup um sveitina komu menn sólbrenndir og sveittir furðu fljótt aftur inn í Úlfljótsskála. Sumir þó fljótar en aðrir eins og gengur og þeim eru hér færðar hamingjuóskir fyrir góðan árangur. Þeim voru líka færðar verðlaunaplöntur sem þeir þágu úr höndum mótshaldara, auk hefðbundinna vinninga fyrir góðan árangur sem voru ekki af verri endanum.

Af góðum árangri Laugaskokkara ber hæst að Helen var fyrsta kona í mark Af karlpeningi Laugaskokks sást fyrst til þeirra Sigmars, Baldurs og Steinars í markinu og IP-liðar komu svo í humáttina á eftir þeim. Munda kom fyrst í mark frá sameinuðu liði MV- og HL-liða, greinilega í fantaformi eftir Mývatnsmaraþon. Laugaskokkarar komu sterkir til leiks í eldri flokkunum og þannig voru þeir Gunni Geirss. og Baldur Jónsson í 1. og 3. sæti í sínum aldursflokki.

Laugaskokkarar voru líka margir að vinna við hlaupið eins og áður sagði. Kristján sá um að menn færu ekki villur vegar í sveitinni og var jafnframt ljósmyndari hlaupsins ásamt Sumarliða. Elín, Ingólfur og Kristín mönnuðu drykkjarstöðvar ásamt fleirum og verður þeim seint fullþakkað enda hlýtt í veðri og sólríkt og mikið vökvamagn sem þar þurfti að endurnýja.

Súpan hjá Lísu sveik ekki frekar en fyrri daginn, og svolgruðu menn hana í sig eftir hlaupið, og skoluðu svo brauðinu niður með Gatorade, besta máltíðin sem flestir höfðu aflað sér þann daginn. Pétri og Lísu eru færðar bestu þakkir fyrir skemmtilegan dag í sveitinni.

Myndir frá hlaupinu: http://blafell.123.is/album/default.aspx?aid=181122

sunnudagur, 25. apríl 2010

Laugaskokkarar í Vormaraþoni - fréttaskýring

Þá er blessuðu vormaraþoninu lokið þetta árið. Eins og venjulega létu Laugaskokkarar sig ekki vanta og hlupu tveir heilt maraþon og á þriðja tuginn hálft. Þrátt fyrir að ekki væri beinlínis stafalogn þegar hlaupið var haldið var árangur okkar fólks góður og ljóst að Laugaskokk hefur aldrei verið öflugara. Bæði hefur Laugaskokkurum fjölgað mikið undanfarið misseri og eins er okkar fólk í mikilli framför. Ný nöfn eru farin að troða sér í fremstu röð og gömlu brýnin standa fyrir sínu.

Mætt var úr öllum krókum og kimum Laugaskokks. IP-liðar voru fyrirferðarmiklir sem og Munduvinafélagið, HL-liðar mættu að sjálfsögðu, Glennurnar létu sig ekki vanta né Göngudeildin, auk auðvitað fjölmargra óbreyttra Bogguliða sem létu slag standa í austanrokinu.

Gömlu brýnin stóðu sig vel, Ingólfur skilaði sér þeirra fyrstur og var áttundi maður til að ljúka hlaupinu, sem er vel að verki staðið. Ívar stóð sig vel í skriðstillishlutverkinu og dró sitt lið í mark langt innan við 1:30 sem að hafði verið stefnt. Ævar augljóslega líka í fantaformi og ljóst að annir og annað tilstand í tengslum við giftingar hafa ekki sett neitt strik í reikninginn þar.

Að engum ólöstuðum má segja að IP liðar séu þeir sem komu, sáu og sigruðu í þessu hlaupi af Laugaskokkara hálfu. Eftir að hafa þanið brettin í Laugum svikalaust megnið af vetrinum, svo að mörgum þótti nóg um, var komið að því að sýna afraksturinn. Lögreglustjórinn fór þar fyrir sínu liði og skilaði því öllu á tilsettum tíma, Einar, Baldur, Ævar og Ívar allir ískrandi sprækir. Einar sannaði það þarna að viðurkenningin sem hann fékk á árshátíðinni, Framfarir ársins, var engin tilviljun. Í humáttina á eftir IP-liðum kom síðan Sigurjón Mýrdal á rétt rúmum 1:30 og er hann hér með hvattur til að mæta á brettin strax í næstu viku og taka þetta svo næst með þeim félögum.

HL-liðar stefndu á að skila sér undir 1:40 og gekk sumum það og öðrum ekki. Var fljótlega hafin leit að afsökun fyrir þá sem ekki náðu markinu og var sæst á að nota austanrokið, sem fékk 3 atkvæði meðan gömul ökklameiðsli fengu aðeins eitt atkvæði. Nokkrir HL-liða voru þó fjarverandi í hlaupinu, einn þeirra með læknisvottorð frá miðjum janúar, annar með læknisvottorð frá 23. apríl og einn var að jafna sig eftir góðan sprett í Víðavangshlaupi ÍR á sumardaginn fyrsta. Til að fylla í skörðin var kallaður til málaliði úr þingeyskum hlaupahópum sem stóð sig bærilega að venju. Ókrýndur konungur HL-liða í þessu hlaupi var Guðmundur, sem vantaði 10 sekúndur upp á að ná sínu besta hálfmaraþoni og næsta víst (a la Bjarni Fel) að það takmark fellur á árinu. Agga fór freklega fram úr nokkrum HL-liðum á leiðinni og náði góðum tíma, ljóst er að hún verður til alls líkleg í sumar. Fleiri glennur sáust hlaupandi á stígunum, Ásta áföst við hund en ekki númer og Sigrún sem var skriðstillir fyrir einn föngulegasta hópinn á stígunum þennan daginn.Berglind blandaði sér líka sem fyrr í hóp HL-liða, en Munduvinafélagið gerir þó tilkall til hennar, a.m.k. á æfingum.

Og er þá komið að þætti Munduvinafélagsins, en starfsemi þess hefur eflst og dafnað undanfarna mánuði og stíft verið æft. En eins og IP-liðar geta Munduvinir staðfest að æfingarnar skila sér á endanum. Munda leiddi að sjálfsögðu flokkinn inn á 1:45 og rétt á hæla hennar kom sigurvegarinn úr þessum hópi, Svava með personal best, á rétt rúmum1:45 líka og að bæta sig um 7 mínútur í hálfu að sögn staðkunnugra. Einhverjir Munduvinir voru fjarverandi eins og gengur, m.a. önnum kafnir við að manna drykkjarstöðvarnar. Vel að verki staðið þarna hjá stelpunum.

Kolla og Stefanía voru fulltrúar Göngudeildarinnar í hálfu, en að sjálfsögðu fór Eggert með þeim af stað og gætti þess að allt væri í lagi og liðið andlega rétt stemmt áður en hann sleppti hendinni af þeim.

Síðast en ekki síst ber að geta keppenda Laugaskokks í heilu maraþoni, en demógrafískt má flokka þann hóp í hvíta lútherska karlmenn yfir fimmtugu. Þeir Gottskálk og Ingólfur gerðu það sem gera þurfti og hlupu leiðina tvisvar, sem er auðvitað fantavel gert á þessum árstíma og við þessar aðstæður. Laugaskokkarar eru hvattir til að skála fyrir þeim við fyrsta hentugleika.

Þegar á allt er litið er ljóst að Laugaskokkarar koma vel undan vetri og að streðið hjá Boggu hefur ekki verið til einskis. Og jafnljóst er að það eiga mörg personal best eftir að falla nú í sumar hjá okkar fólki. Til hamingju öll sömul með góðan árangur.

föstudagur, 2. apríl 2010

Þungun í Göngudeild

Það er hægt að skilgreina þungun með ýmsum hætti. Göngudeildin hefur yfirleitt litið á þetta sem ástand, sem skapast þegar matar er neytt í óhófi og endar auðvitað með þyngdaraukningu eða “þungun”. Göngudeildin er mjög upptekinn af því að hugsa um líkamsþyngd og er skemmst að minnast “Biggest Looser” keppninnar í fyrra sem var gerð góð skil á þessu bloggi. Þegar átti að endurtaka leikinn á þessu ári var ákveðið að hafa keppnina í kyrrþey sem gerði það að verkum að hún leystist upp og varð að engu, sem sannar að það þarf opinbera auðmýkingu til að ná árangri í léttun !!!

Þess vegna eru Göngudeildarmeðlimir “þyngri” þessa dagana en þetta viðhorf ásamt öðru líkamsástandi sem sett er í samhengi við þungun getur auðvitað verið misskilið eins og þegar Göngudeildarmeðlimir forðast að ræða þyngdaraukningu sína í kílóum heldur tala um mánuði í meðgöngu. Það er endalaust hægt að misskilja þessa myndlíkingu, sem Göngudeildin notar mikið. Þetta byrjaði síðasta sumar þegar sakleysisleg færsla í Hlaupadagbókina þar sem vitnað var til þekktrar morgunógleði Bjargeyjar varð tilefni upphrópana hjá þeim sem ekki þekktu málið. Eitthvað þótti Laugaskokkurum samt ósennilegt að Bjargey stundaði enn mannfjölgun en vildu þó ekki hafa af henni ánægjuna og spurðu í laumi hvort þetta gæti staðist. Þessi misskilningur var leiðréttur snarlega en með hausti kom í ljós að þungun, í hefðbundun skilningi, var ekki ómöguleg hjá Göngudeildarmeðlimum.

Það var sumsé Hildur sem sagði sig frá hlaupaæfingum frá hausti vegna þungunar og hefur auðvitað verið sárt saknað þótt sambandinu hafi verið haldið á fésbókinni. Eins og Laugaskokkarar, og reyndar fleiri, vita, þá er hefðbundin þungun í kringum 9 mánuði en þyngdaraukning getur staðið mun lengur. Þess vegna varð Eggert órólegur þegar hann lagðist í svínaflensu í október og byrjaði þyngjast í takt við Hildi, og gat að auki ekki stundað æfingar af ýmsum orsökum. Ástæðan fyrir óróleikanum er sú að þegar kom að þyngdaraukningunni þá hefur Eggert haft vinninginn yfir Hildi allan tímann. Er svo komið að núna sex vikum áður en áætlað er að Hildur verði léttari þá er staðan miðað við síðasta sumar sú að Eggert hefur þyngst um 15 kg. en Hildur 14 kg. !!!

Nú er það spurningin. Hvort þeirra verður fyrr til að verða léttari ???

miðvikudagur, 17. mars 2010

Árshátíðin nálgast - tilnefningar óskast í þessum flokkum

Á árshátíðinni 27. mars verða viðurkenningar veittar nokkrum Laugaskokkurum sem að mati hlaupafélaganna hafa sýnt gott fordæmi í hlaupastússinu á liðnu ári.

Við óskum eftir því að félagar í Laugaskokki tilnefni aðila sem fái viðurkenningar í eftirfarandi flokkum:
1. Nýliði ársins, konur
2. Nýliði ársins, karlar
3. Framfarir ársins, konur
4. Framfarir ársins, karlar
5. Laugaskokkari ársins, konur
6. Laugaskokkari ársins, karlar

Við val á nýliða ársins er horft til ýmissa þátta, s.s. ástundunar, árangurs, áhuga og ýmislegs fleira. Nýliði ársins gæti því allt eins verið sá sem mætti best eins og sá sem náði bestum árangri.Við val á Laugaskokkara ársins er líka horft til margra þátta, árangur hefur auðvitað sitt að segja en einnig áhugi, ástundun, dugnaður við að miðla fróðleik til félaganna o.s.frv.

Vinsamlegast sendið inn tilnefningar í einum, fleiri eða öllum framangreindra flokka á netfangið laugaskokk@laugaskokk.is í síðasta lagi fimmtudaginn 25. mars nk.

Eins verða í boði á árshátíðinni ýmsar uppákomur og m.a. má vænta æsispennandi spurningakeppni milli karla og kvennaliða Laugaskokks þar sem þekking þátttakenda á hlaupaheiminum verður reynd til hins ítrasta. Missið ekki af því.

Nefndin.

laugardagur, 27. febrúar 2010

Hamingjuóskir.

Fyrir hönd stjórnar Laugaskokks færi ég þeim Berglindi og Ævari okkar innilegustu kveðjur og hamingjuóskir á brúðkaupsdaginn. Eftir því var tekið í morgun að annríki dagsins kom ekki í veg fyrir morgunmætingu hjá þeim í Laugar og geri aðrir betur.

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Seinni hálfleikur Hálfleiðara

Déskoti eru Laugaskokkarar orðnir margir varð einhverjum að orði. Fjölmenni var saman komið í teríunni í Laugum að morgni laugardags og beið þess að leiðarstjóri gerði upp hug sinn. Loks gall úrskurðinn við; Fossvogurinn og lengja vestur eftir. Leiðarstjóri að þessu sinni Ívar sjálfur Adolfsson, nýkominn heim brúnn og sællegur úr kuldanum í Florida. Hátt á fimmta tug hlaupara skeiðaði frá Laugum, flestir haldnir einbeittum hlaupavilja þrátt fyrir rigninguna, sem þó var sem betur fer lóðrétt að þessu sinni. Ljóst varð fljótlega af umræðum manna að þeir ætluðu mislangt og hratt yfir, einhverjir ætluðu að beygja við Öskjuhlíð, en flestir ætluðu vestur úr. Ýmist að Eiðisgranda en þó heyrðist á þeim allra hörðustu að þeir hygðust fara út að golfvelli og meðfram sjónum til baka í Laugar, 25 km. leið. Enda Laugaskokkurum einboðið á laugardögum að fara 20 km. hið minnsta ellegar að komast í kladda formanns.

Þegar út á maraþonleið Félags maraþonhlaupara var komið rifjaðist það upp fyrir Hálfleiðurum þegar þeir hlupu hálfa leiðina í október sem leið. Síðan þá hefur margt á daga HL-liða drifið og þeir farið út og suður og einn norður. Flestir HL-liða hafa hlaupið sem almennir Laugaskokkarar á tímabilinu, en þeir urðu einnig IP-liðum góður liðsauki, sem og LH-liðum, auk þess sem einn þeirra telst nú orðinn Sjúkra-liði. Loks er bjartasta von okkar til langs tíma orðinn mála-liði í einum fremsta hlaupahópi Þingeyjarsýslna og er hópnum hér með óskað til hamingju með öflugan liðsauka. Eins dauði er annars brauð í þeim efnum sem öðrum.

Hálfleiðarar hafa flestir orðið heldur værukærari yfir svartasta skammdegið og leyft sjálfum sér að njóta vafans ef minnsti vafi hefur komið upp um að hlaupafært sé, ýmist sökum hálku, myrkurs, almennra leiðinda eða einhvers þaðan af verra. Af þeim sökum sitja bæði jólasteikin og konfektið enn sem fastast á Hálfleiðurum og líta ekki út fyrir að ætla að gefa sig á næstunni. Þetta gæti orðið langt stríð þar sem báðir aðilar hafa komið sér þægilega fyrir í skotgröfum að baki víglínunnar og bíða þar sallarólegir.

En eins og allir alvöru herforingjar vita er bara ein leið út úr slíkri stöðu. Leiftursókn. Þess vegna var það fastmælum bundið í laugardagshlaupinu að safna saman þeim HL-liðum sem rólfærir væru með það að leiðarljósi að skottast þetta hinn helming leiðarinnar í apríl þegar hið margrómaða vorhlaup Félags maraþonhlaupara fer fram.

Að sjálfsögðu verður sem fyrr notast við prógramm frá Sumarliða, sem hentar jafnt fyrir vana HL-liða sem ný-liða. Prógrammið verður sem fyrr miðað við að leiðin sé hlaupin á tímanum 1:35 til 1:45. Ný-liðar geta tilkynnt þátttöku í leiftursókninni með því að nota kommentin hér fyrir neðan og eins má ræða við þá Hálfleiðara holdi klædda á einhverri æfingunni. Eins og Sumarliða er siður gerir prógrammið góða ráð fyrir 6 æfingum í viku, alltaf frí á sunnudögum. Hefðbundið er þó að Hálfleiðarar skrópi á annaðhvort þriðjudags- eða föstudagsæfingum og æfi því 5 sinnum í viku.

Og nú er bara að sjá hvernig seinni hálfleikurinn gengur. Og hverjir bætast í hópinn. Og hvort málaliðinn kemur suður til að veita okkur andlegan stuðning á leiðinni góðu í apríl.

laugardagur, 6. febrúar 2010

Samskokk

Fyrsta æfing Samskokks frá Laugum.
Ótrúlegur fjöldi mættur. Árbæingar, Bíddu aðeins, Fjölnismenn, Garðbæingar, ÍRingar, Landspítalahlauparar, Valsmenn, Healthy drunkers o.m.fl.
Menn reyndu að telja mannskapinn, ólyginn sagði að það væru allvega 200 manns mættir. Þetta var mjög gaman, allir sem mæta í svona eru náttúrulega bara kátir. Farinn var Kársneshringur sem taldi rúmlega 19km. Ég náði að hitta á hlaupum bæði gamla kunningja og líka hlaupara sem ég hef aldrei talað við áður. Hljóp með myndavél og vonast til að koma einhverjum myndum inn á heimasíðu Laugaskokks fljótlega.

mánudagur, 1. febrúar 2010

Árshátíð/Vorgleði Laugaskokks


Árshátíð Laugaskokks verður haldinn 27 mars 2010
Skemmtinefndin sem skipuð er Mundu, Helgu, Júlla og Kára er á fullu við að undirbúa skemmtilega árshátíð sem skyldumæting er á. Búið er að pannta sal og allt stefnir í skemmtilega árshátíð eða vorgleði. Nú er bara að finna til dansskóna og leggja hlaupaskónum eitt kvöld. Nánari upplýsingar koma síðar.

laugardagur, 23. janúar 2010

Clearwatermarathon

Jóhanna, Hafdís, Elín, Stebbi, Summi, Ívar og Siggi H, Hlupu Clearwater hálfmaraþon í frábæru veðri í dag (upptalið í öfugri röð miðað við lokatíma;)
Þetta var mjög gaman. Brautin var skemmtileg en ekki auðveld. 2 Gríðarlegar brýr farnar fram og til baka. Við Elín, Hafdís og Stebbi hlupum saman fyrstu mílurnar.
Aðstæður vour góðar, hlýtt og gola. Brautin var á þannig, fram og til baka á köflum, að við sáum strákana (Ívar og Summa) tvisvar. Og Sigga H: einu sinnii, Þá var hann annar. Hópurinn náði að halda merkjum Íslands á lofti, Inga María var með Íslaenska fánan á hliðarlínunni og fjögur af okkur fóru á pall: Elín, Summi, Siggi og Ívar fengu öll verðlaun. Tímarnir voru: Siggi 1.20 Endaði í 5 sæti í heildina og fyrsta sætir í master-flokki, Ívar 1.26:35, Summi-1.26:35, Stebbi_má ekki setja tíman hanns enda kemur það engum við og hann er ekki einu sinni í laugaskokki. Elín: 1.48, Hafdís: 1:52 og Jóhanna: 1:54 Enn einu frábæru hlaupi lokið.Bara gaman.

sunnudagur, 17. janúar 2010

Óðurinn til (hlaupa)gleðinnar

Það eru ekki alltaf jólin í hlaupunum eins og Göngudeildin hefur fengið að kynnast þessi jól. Þrátt fyrir metnaðarfulla markmiðssetningu með SUB50 prógrammi sem átti að sýna í Gamlárshlaupinu, þá var líkamlegt og andlegt atgervi Göngudeildarliða afar brothætt, eins og sést á öllum þeim heilkennum sem hafa hrjáð hópinn. Birtingarmyndin varð sú að það var aðeins Aðalsteinn sem tók þátt í Gamlárshlaupinu og tíminn var auðvitað SUB eitthvað, en það var ekki 50 :-). Aðrir voru ýmist meiddir, veikir eða jafnvel ekki í bænum.

Það var því ekki að undra þótt það byrjaði að krauma undir niðri hjá Göngudeildarliðum og hefur þetta brotist út með ýmsum hætti, aðallega í meiðslum og veikindum en sérkennilegast var þó gelgjukast Hrafnhildar sem tjáði félögum sínum einn daginn að hún væri haldin „hlaupamótþróa“ og neitaði að mæta á æfingu!!! Þetta bráði reyndar af henni daginn eftir en var engu að síður tekið alvarlega.

Á síðustu laugardagsæfingu var ljóst að ekki var hægt að una við svo búið heldur málið krufið og komist að eftirfarandi niðurstöðu: Þar sem hlaupagleðin var horfin, líkt og sólin í svartasta skammdeginu var bara eitt til ráða. Að víkja öllum áformum til hliðar og einbeita sér að því að finna hlaupagleðina á ný. Þetta verður gert með því að henda öllum prógrömmum, skráningum og viðmiðunum. Æfingadögum er fækkað í þrjá á viku og áhersla lögð á að hitta Laugaskokkara á æfingum og fylgja þeim eftir eins og hægt er. Þetta gefur meðlimum tækifæri til að sinna öðrum málum eins og sund og gönguferðum. Síðast en ekki síst að leggja öll tempó til hliðar nema gamla Göngudeildar joggið, sem þýðir að hraðast verður farið á sex mínútum hver kílómeter. Það verður því gaman á æfingum.

Göngudeildarliðar eru ákveðnir í að sækja hlaupagleðina á ný og hlakka til að mæta á æfingar á næstunni og hitta hressa Laugaskokkara.

laugardagur, 26. desember 2009

Laugaskokkarar í jólaskapi.

Það var fjölmennur hópur Laugaskokkara sem safnaðist saman í kaffiteríunni á laugardagsmorgni, öðrum í jólum. Hópurinn virtist betur vakandi en oft áður á laugardögum og má eflaust þakka það þeirri nýbteytni að hefja hlaup kl.10.30. Svalt var í veðri og Laugaskokkarar því vel dúðaðir. Var því erfitt að sjá hvort kíló eða tvö hefðu bæst á vambir vorar yfir hátíðina, en í því var svo sem ekkert annað að gera en vona það besta en vera viðbúinn því versta. Auk hefðbundinna Laugaskokkara mættu dreifbýlismenn á svæðið og var þjóðgarðsvörðunum úr Ásbyrgi vel fagnað, en því miður bólaði ekki á fleiri sveitamönnum, s.s. þjóðgarðsvörðunum við Úlfljótsvatn.

Rennt var af stað frá Laugum skömmu eftir hálfellefu og greindust hafrarnir fljótlega frá sauðunum. A-hópurinn, sem m.a. innihélt Ívar okkar Adolfsson, Halldór, Sumarliða og Sigga Hansen, hélt sína leið, en B-F hópar og G-deildin héldu á brattann upp á Suðurlandsbraut. Kom fljótlega í ljós hvað dró hópinn upp brekkurnar því ekki var linnt látum fyrr en komið var langleiðina efst á Rauðarárholt, en þar biðu okkar konfektmolar í boði Jóhönnu og sá stórlega á innihaldi kassans eftir að Laugaskokkarar höfðu gert honum skil. Í leiðinni var sótt drykkjarbelti með skrautlegum drykkjum í hinum ýmsu litum, sérlega jólaleg samsetning þar hjá Jóhönnu var eiginlega samdóma álit meðhlaupara.

Konfektið virkaði eins og svæsnasta gelið hjá Daníel Smára og þusti hópurinn við svo búið niður á Laugaveg og afgreiddi hann til enda, svo Bankastræti, Austurstræti, Austurvöll og áður en konfekthamurinn rann af mönnum vorum við komin út á Suðurgötu með stefnu á Skerjafjörð. Á þessum kafla fór að draga eilítið í sundur með hópunum, ljóst var að Kári, Júlli, Ævar, Birgir, Ólöf og Stefán þjóðgarðsvörður ætluðu að mynda kjarnann í B-hópnum þennan daginn. Helga þjóðgarðsvörður, Pétur Ísleifss., Berglind, Elín, Munda, Jóhanna, Helga, Svava og fleiri gerðu sig síðan líkleg til að mynda óárennilegan C-hóp sem vont yrði að mæta á hlaupastígunum. Við hin reyndum svo að gera upp við okkur hvar í flokki við vildum hlaupa.

Jólabækurnar voru að sjálfsögðu krufnar á hlaupum, þessi er “must”, vertu ekkert að rífa plastið utan af þessari o.s.frv. Ágætt að fá að vita þetta svona strax, þarf þá ekki að leggja á sig nokkurra kvölda lestur fyrir eitthvert miðlungs ritverk eða þaðan af lakara. Rétt þegar búið var að afgreiða Arnald hljóp Guðmundur Kristinsson í flasið á okkur og var hann strax innlimaður í hópinn og taldist vera B-hópsmaður það sem eftir lifði hlaups.

Ekki var einhugur um það hversu langt menn vildu hlaupa. Minnugir þess að nú væru jólin ákváðu nokkrir hlauparar að heiðra félaga vorn Frantzson og hlaupa 17 kílómetra honum til heiðurs og þótti það hin ágætasta áætlun. Ekki síst fyrir það að hinn valkosturinn var að taka ríflega 22 km. hring með því að lengja hlaupið um bæjarfélag þeirra Gunnara tveggja, í Krossinum og Klæðningu.

En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, sagði í kvæði einu, og er ekki ofsögum sagt að þetta átti við um Laugaskokkara þegar þeir týndust inn í Laugar um hádegisbil. Þar mættu okkur sjónvarpsmyndavélar og varð þá einhverjum hlauparanum að orði að þetta væri nú alveg óþarfi. Það var kannski pínulítið kalt en það lá alltaf ljóst fyrir að við kæmumst þetta og kæmum aftur í hús, það þurfti ekki að kalla út heila fréttavakt til að básúna það. Enda var það víst ekki raunin, þegar betur var að gáð. Fréttin var víst um það að hið svokallaða IP-heilkenni hefur grasserað svo í grasrótinni undanfarnar vikur að salurinn í Laugum troðfylltist. Hvert hlaupabretti var keyrt áfram af IP-wannabes, sem og hjól, stigvélar og hvað eina sem hægt var festa hendur eða fætur í í Laugum. Við fáum bara okkar kortérs frægð einhvern tíma seinna.

Segir nú ekki meir af afrekum Laugaskokkara þennan daginn. Ljóst er þó af atgangi dagsins að þeir verða óárennilegir í sprettunum á mánudag og til alls líklegir í Gamlárshlaupinu.