sunnudagur, 17. janúar 2010

Óðurinn til (hlaupa)gleðinnar

Það eru ekki alltaf jólin í hlaupunum eins og Göngudeildin hefur fengið að kynnast þessi jól. Þrátt fyrir metnaðarfulla markmiðssetningu með SUB50 prógrammi sem átti að sýna í Gamlárshlaupinu, þá var líkamlegt og andlegt atgervi Göngudeildarliða afar brothætt, eins og sést á öllum þeim heilkennum sem hafa hrjáð hópinn. Birtingarmyndin varð sú að það var aðeins Aðalsteinn sem tók þátt í Gamlárshlaupinu og tíminn var auðvitað SUB eitthvað, en það var ekki 50 :-). Aðrir voru ýmist meiddir, veikir eða jafnvel ekki í bænum.

Það var því ekki að undra þótt það byrjaði að krauma undir niðri hjá Göngudeildarliðum og hefur þetta brotist út með ýmsum hætti, aðallega í meiðslum og veikindum en sérkennilegast var þó gelgjukast Hrafnhildar sem tjáði félögum sínum einn daginn að hún væri haldin „hlaupamótþróa“ og neitaði að mæta á æfingu!!! Þetta bráði reyndar af henni daginn eftir en var engu að síður tekið alvarlega.

Á síðustu laugardagsæfingu var ljóst að ekki var hægt að una við svo búið heldur málið krufið og komist að eftirfarandi niðurstöðu: Þar sem hlaupagleðin var horfin, líkt og sólin í svartasta skammdeginu var bara eitt til ráða. Að víkja öllum áformum til hliðar og einbeita sér að því að finna hlaupagleðina á ný. Þetta verður gert með því að henda öllum prógrömmum, skráningum og viðmiðunum. Æfingadögum er fækkað í þrjá á viku og áhersla lögð á að hitta Laugaskokkara á æfingum og fylgja þeim eftir eins og hægt er. Þetta gefur meðlimum tækifæri til að sinna öðrum málum eins og sund og gönguferðum. Síðast en ekki síst að leggja öll tempó til hliðar nema gamla Göngudeildar joggið, sem þýðir að hraðast verður farið á sex mínútum hver kílómeter. Það verður því gaman á æfingum.

Göngudeildarliðar eru ákveðnir í að sækja hlaupagleðina á ný og hlakka til að mæta á æfingar á næstunni og hitta hressa Laugaskokkara.

8 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Góður
Kolla

18. janúar 2010 kl. 08:37  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Virkilega góð ákvörðun. Líkamin og hugurinn þurfa hvíld af og til. Sjáumst á hlaupum og í sundi ;)
Kv. Corinna

18. janúar 2010 kl. 09:08  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð, hlakka til að vera með í að leggja inn í gleðibankann : )
Bjargey

18. janúar 2010 kl. 10:50  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þarna hittuð þið naglann á höfuðið. Hlaupin eru nú einu sinni bara áhugamál hjá okkur öllum, eiga að bæta lífið en alls ekki taka það yfir.

Sjáumst í næsta gleðihlaupi,
Davíð

18. janúar 2010 kl. 20:38  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Mér finnast hlauparar upp til hópa afar skemmtilegt fólk og efa ekki að Göngudeildin verði búin að endurheimta hlaupagleðina miklu innan fárra hlaupaæfinga :) Þjappið ykkur saman í stóran hóp, talið hátt og mikið, hlaupið alltaf yfir á rauðu ljósi (eitthvað sem ég held að hlauphópar þjáist verulega af!) og smælið stórt framan í heiminn ;)

Helga Árna

19. janúar 2010 kl. 09:22  
Blogger Jóhanna sagði...

Mér líst stórvel á planið hjá ykkur. Hef sjáf farið ca 100 sinnum í gegnum ekkijólin tímabil og stundum ákveðið "bara mæta á æfingar" og ekki neitt meir og viti menn eftir nokkrar vikur er maður komin í bullandi stemmingu og dúndrast áfram.

20. janúar 2010 kl. 12:05  
Anonymous Nafnlaus sagði...

eg var ad leita ad, takk

20. janúar 2010 kl. 16:29  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta er líka kallað hlaupaþunglyndi, veiki sem ekki gerir greinamun á kyni eða félagslegum aðstæðum.
Kveðja frá Helsinki. Sævar

21. janúar 2010 kl. 13:49  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim