laugardagur, 26. desember 2009

Laugaskokkarar í jólaskapi.

Það var fjölmennur hópur Laugaskokkara sem safnaðist saman í kaffiteríunni á laugardagsmorgni, öðrum í jólum. Hópurinn virtist betur vakandi en oft áður á laugardögum og má eflaust þakka það þeirri nýbteytni að hefja hlaup kl.10.30. Svalt var í veðri og Laugaskokkarar því vel dúðaðir. Var því erfitt að sjá hvort kíló eða tvö hefðu bæst á vambir vorar yfir hátíðina, en í því var svo sem ekkert annað að gera en vona það besta en vera viðbúinn því versta. Auk hefðbundinna Laugaskokkara mættu dreifbýlismenn á svæðið og var þjóðgarðsvörðunum úr Ásbyrgi vel fagnað, en því miður bólaði ekki á fleiri sveitamönnum, s.s. þjóðgarðsvörðunum við Úlfljótsvatn.

Rennt var af stað frá Laugum skömmu eftir hálfellefu og greindust hafrarnir fljótlega frá sauðunum. A-hópurinn, sem m.a. innihélt Ívar okkar Adolfsson, Halldór, Sumarliða og Sigga Hansen, hélt sína leið, en B-F hópar og G-deildin héldu á brattann upp á Suðurlandsbraut. Kom fljótlega í ljós hvað dró hópinn upp brekkurnar því ekki var linnt látum fyrr en komið var langleiðina efst á Rauðarárholt, en þar biðu okkar konfektmolar í boði Jóhönnu og sá stórlega á innihaldi kassans eftir að Laugaskokkarar höfðu gert honum skil. Í leiðinni var sótt drykkjarbelti með skrautlegum drykkjum í hinum ýmsu litum, sérlega jólaleg samsetning þar hjá Jóhönnu var eiginlega samdóma álit meðhlaupara.

Konfektið virkaði eins og svæsnasta gelið hjá Daníel Smára og þusti hópurinn við svo búið niður á Laugaveg og afgreiddi hann til enda, svo Bankastræti, Austurstræti, Austurvöll og áður en konfekthamurinn rann af mönnum vorum við komin út á Suðurgötu með stefnu á Skerjafjörð. Á þessum kafla fór að draga eilítið í sundur með hópunum, ljóst var að Kári, Júlli, Ævar, Birgir, Ólöf og Stefán þjóðgarðsvörður ætluðu að mynda kjarnann í B-hópnum þennan daginn. Helga þjóðgarðsvörður, Pétur Ísleifss., Berglind, Elín, Munda, Jóhanna, Helga, Svava og fleiri gerðu sig síðan líkleg til að mynda óárennilegan C-hóp sem vont yrði að mæta á hlaupastígunum. Við hin reyndum svo að gera upp við okkur hvar í flokki við vildum hlaupa.

Jólabækurnar voru að sjálfsögðu krufnar á hlaupum, þessi er “must”, vertu ekkert að rífa plastið utan af þessari o.s.frv. Ágætt að fá að vita þetta svona strax, þarf þá ekki að leggja á sig nokkurra kvölda lestur fyrir eitthvert miðlungs ritverk eða þaðan af lakara. Rétt þegar búið var að afgreiða Arnald hljóp Guðmundur Kristinsson í flasið á okkur og var hann strax innlimaður í hópinn og taldist vera B-hópsmaður það sem eftir lifði hlaups.

Ekki var einhugur um það hversu langt menn vildu hlaupa. Minnugir þess að nú væru jólin ákváðu nokkrir hlauparar að heiðra félaga vorn Frantzson og hlaupa 17 kílómetra honum til heiðurs og þótti það hin ágætasta áætlun. Ekki síst fyrir það að hinn valkosturinn var að taka ríflega 22 km. hring með því að lengja hlaupið um bæjarfélag þeirra Gunnara tveggja, í Krossinum og Klæðningu.

En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, sagði í kvæði einu, og er ekki ofsögum sagt að þetta átti við um Laugaskokkara þegar þeir týndust inn í Laugar um hádegisbil. Þar mættu okkur sjónvarpsmyndavélar og varð þá einhverjum hlauparanum að orði að þetta væri nú alveg óþarfi. Það var kannski pínulítið kalt en það lá alltaf ljóst fyrir að við kæmumst þetta og kæmum aftur í hús, það þurfti ekki að kalla út heila fréttavakt til að básúna það. Enda var það víst ekki raunin, þegar betur var að gáð. Fréttin var víst um það að hið svokallaða IP-heilkenni hefur grasserað svo í grasrótinni undanfarnar vikur að salurinn í Laugum troðfylltist. Hvert hlaupabretti var keyrt áfram af IP-wannabes, sem og hjól, stigvélar og hvað eina sem hægt var festa hendur eða fætur í í Laugum. Við fáum bara okkar kortérs frægð einhvern tíma seinna.

Segir nú ekki meir af afrekum Laugaskokkara þennan daginn. Ljóst er þó af atgangi dagsins að þeir verða óárennilegir í sprettunum á mánudag og til alls líklegir í Gamlárshlaupinu.

3 Ummæli:

Blogger Jóhanna sagði...

ba ba ba ba Við skulum nú aðeins átta okkur á þessu. Var ekki hálfleiðari búin að lýsa yfir í athugasemdum að 20k væri lámark. (þýðir nú ekki að afsaka sig með Pétri F.)
Án gríns- þetta var hrikalega hressandi og gaman að sjá hvernig liðið kemur út út Gamlárs.

26. desember 2009 kl. 18:29  
Blogger Hálfleiðarar sagði...

Þetta var skásta afsökunin sem kom upp í hugann á þeim tíma sem textinn var skrifaður en auðvitað eiga menn að vera með betri afsakanir á hraðbergi, það er engin spurning.

Hér með er óskað er eftir því að meðlimir Laugaskokks komi með betri afsökun en áður er getið og setji hana hér inn sem athugasemd. Til að koma þeim af stað koma hér tvær slíkar, sem vonandi slá þeirri fyrstu við:

1. Ég var forsöngvari í Kirkjukórnum við messu kl. 1 og þurfti að flýta mér í sturtu og kirtilinn - rétt náði áður en Ave Maria gall við.

2. Það var útkall hjá björgunarsveitinni minni.

26. desember 2009 kl. 21:28  
Anonymous Nafnlaus sagði...

3. Það tók sig upp gamalt ökklabrot.

28. desember 2009 kl. 09:17  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim